Ferill 722. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1250  —  722. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI
Breyting á lögum um dánarvottorð, krufningar o.fl., nr. 61/1998 með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir 6. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að miðla upplýsingum sem fram koma á dánarvottorði rafrænt frá heilbrigðisstofnun til sýslumanns, Þjóðskrár Íslands og landlæknis.

II. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim tilvikum þegar yfirlýsing er gefin bréflega er heimilt að leggja hana fram á rafrænu eyðublaði ef það er undirritað með fullgildum rafrænum skilríkjum. Við þær aðstæður er ekki þörf á sérstakri staðfestingu lögmanns eða tveggja vitundarvotta.

III. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumanni er í undantekningartilvikum heimilt að afla samþykkis viðkomandi rafrænt og veita leiðbeiningar í gegnum síma eða fjarfundabúnað.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
4. gr.

    Orðin „eigin hendi“ í síðari málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna falla brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 61. gr. getur lögregla ákveðið fram til 1. október 2020 að skýrslugjöf sakbornings og vitna fari fram í gegnum fjarfundabúnað. Skýrslugjöf sakbornings og lykilvitna skal fara fram í gegnum fjarfundabúnað í hljóði og mynd.
    Þrátt fyrir ákvæði þessara laga getur dómari ákveðið fram til 1. október 2020 að aðalmeðferð og önnur þinghöld, þ.m.t. skýrslugjöf sakbornings, ákærða og vitna, fari fram í gegnum fjarfundabúnað, enda verði þinghaldi háttað þannig að allir heyri þau orðaskipti sem fara fram. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Skýrslugjöf sakbornings, ákærða og lykilvitna skulu þó fara fram í gegnum fjarfundabúnað í hljóði og mynd.
    Skjöl og sýnileg sönnunargögn sem leggja skal fram vegna reksturs máls samkvæmt lögum þessum teljast fram til 1. október 2020 afhent dómstól berist þau honum sannanlega rafrænt innan tilskilins frests, enda verði dómstól send í pósti og án ástæðulauss dráttar tilskilinn fjöldi eintaka skjalanna og annarra sýnilegra sönnunargagna. Málsaðila er skylt að afhenda gagnaðila samtímis og með sama hætti skjöl og sýnileg sönnunargögn sem þannig eru afhent dómstól.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði þessara laga getur dómari ákveðið fram til 1. október 2020 að aðalmeðferð og önnur þinghöld en þingfesting almennra einkamála fari fram í gegnum fjarfundabúnað, enda verði þinghaldi háttað þannig að allir heyri þau orðaskipti sem fara fram. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Skýrslugjöf málsaðila og vitna skal fara fram í gegnum fjarfundabúnað í hljóði og mynd ef þess er kostur.
    Skjöl og sýnileg sönnunargögn sem leggja skal fram vegna reksturs máls samkvæmt lögunum teljast fram til 1. október 2020 afhent dómstól berist þau honum sannanlega rafrænt innan tilskilins frests, enda verði dómstól send í pósti og án ástæðulauss dráttar tilskilinn fjöldi eintaka skjalanna og annarra sýnilegra sönnunargagna. Málsaðila er skylt að afhenda gagnaðila samtímis og með sama hætti skjöl og sýnileg sönnunargögn sem þannig eru afhent dómstól.
    Ákvæðið tekur einnig til þinghalda og framlagningar skjala og sýnilegra sönnunargagna í einkamálum sem rekin eru fyrir dómstólum samkvæmt heimild í öðrum lögum að því leyti sem þar er vísað til ákvæða um þinghöld og sönnunarfærslu í lögum um meðferð einkamála.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, með síðari breytingum.
7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 1. október 2020 er heimilt að taka mál fyrir í gegnum síma eða fjarfundabúnað, enda verði fyrirtöku málsins háttað þannig að allir heyri þau orðaskipti sem fram fara.
    Heimilt er að byggja á IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020.

VIII. KAFLI
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962, með síðari breytingum.
8. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 1. október 2020 er heimilt að byggja á IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við miðlun upplýsinga og gagna í tengslum við umsókn eftirlifandi maka um leyfi til setu í óskiptu búi.

IX. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum.
9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 6. gr., 3. mgr. 8. gr., 3. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. skal gildistími leyfa sem renna út fram til 1. október 2020 og ekki reynist unnt að framlengja sökum óyfirstíganlegrar hindrunar, sem ekki byggist á atvikum er varða málsaðila sjálfan, framlengjast til 1. desember 2020.

X. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 1. október 2020 er heimilt að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum síma eða fjarfundabúnað, enda verði fyrirtöku málsins háttað þannig að allir heyri þau orðaskipti sem fram fara. Við þessar aðstæður telst gerðarbeiðandi viðstaddur gerðina í skilningi 1. mgr. 23. gr. laganna.
    Heimilt er að byggja á IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum.
11. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 1. október 2020 er heimilt að taka mál fyrir í gegnum síma eða fjarfundabúnað, enda verði fyrirtöku málsins háttað þannig að allir heyri þau orðaskipti sem fram fara.
    Heimilt er að byggja á IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála á grundvelli laganna fram til 1. október 2020.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.
12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 1. október 2020 er heimilt að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum síma eða fjarfundabúnað, enda verði fyrirtöku málsins háttað þannig að allir heyri þau orðaskipti sem fram fara. Við þessar aðstæður telst gerðarbeiðandi hafa mætt við fyrirtökuna í skilningi 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. laganna.
    Heimilt er að byggja á IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála á grundvelli laganna frá 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020.
    Ljúki frestum samkvæmt 2. mgr. 27. gr., 1. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 66. gr. og ekki reynist unnt að halda áfram aðgerðum í tengslum við nauðungarsölu sökum óyfirstíganlegrar hindrunar, sem sem ekki byggist á atvikum er varða málsaðila, framlengist fresturinn um 60 daga frá þeim degi er hindruninni lauk.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem öll utan ein heyra undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir í samfélaginu eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Fyrirséð er að fyrirmæli um samkomubann og fjarlægðartakmarkanir muni hafa áhrif á framkvæmd og málsmeðferð stofnana sem heyra undir ráðuneytið og því er talið nauðsynlegt að lágmarka áhrifin meðan á ástandinu stendur.
    Í ljósi framangreinds eru með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á ýmsum lögum er snúa að starfsemi dómstóla, sýslumanna og annarra stjórnvalda í því augnamiði að auka heimildir til notkunar á fjarfundabúnaði og rafrænni málsmeðferð.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til tilmæla sóttvarnarlæknis sem ríkisstjórnin samþykkti þann 12. mars 2020, sbr. auglýsingar heilbrigðisráðherra nr. 216/2020 og 217/2020 frá 13. mars sl., um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins. Útbreiðsla veirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft áhrif á framkvæmd lögbundinna verkefna opinberra stofnana og samfélagið allt og búast má við að þau áhrif muni aukast. Fyrirhugaðar aðgerðir miða að því að draga úr tjóni og tryggja aukna notkun rafrænna lausna og fjarfundabúnaðar til að draga úr neikvæðum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins á framkvæmd lögbundinna verkefna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur að lagabreytingum sem miða að því að heimila stjórnvöldum að beita í auknum mæli rafrænum lausnum við meðferð mála og notkun síma og fjarfundabúnaðar í samskiptum við málsaðila, auk þess að tryggja að réttarspjöll hljótist ekki af ef ekki verður unnt að endurútgefa leyfi eða taka mál fyrir innan lögbundinna fresta.
    Frumvarpið felur m.a. í sér tillögu að breytingum á þeim réttarsviðum sem eru undanskilin gildissviði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skv. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga, og eru þar með undanþegin heimild fyrir rafrænni málsmeðferð skv. IX. kafla. Á þetta m.a. við um meðferð einkamála og sakamála, fullnusturéttarfar og skipti á dánarbúum og opinber skiptum og því eru lagðar til breytingar á lögum sem varða þau málefnasvið. Að auki er með frumvarpinu lagt til að rutt verði úr vegi hindrunum í barnalögum og lögum um útlendinga fyrir notkun rafrænna eyðublaða við meðferð mála sem felast í áskilnaði um undirritanir og vottun. Að lokum er talið mikilvægt að tryggja að aðilar glati ekki rétti ef stjórnvöld og dómstólar geta ekki sinnt lögbundnum verkefnum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og því er lagt til tilteknir frestir verði framlengdir þar til hindrunum sem frá honum stafa lýkur eða að stjórnvöld og dómstólar megi nota fjarfundabúnað við framkvæmd starfans.
    Verði frumvarpið að lögum er reiknað með að það nái því markmiði sem stefnt er að strax við gildistöku laganna, enda krefjast tillögurnar almennt ekki sérstaks undirbúnings.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum vegna aðgerða til að mæta áhrifum af COVID-19-sjúkdómnum á framkvæmd stjórnvalda og dómstóla. Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra áhrifa sem þegar er farið að gæta hjá stjórnvöldum og dómstólum á lögbundin verkefni hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi. Þar sem frumvarpið varðar fyrst og fremst undirstofnanir dómsmálaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins var við samningu þess haft óformlegt samráð við dómstólasýsluna, réttarfarsnefnd, sýslumenn, Útlendingastofnun, Þjóðskrá Íslands og Skattinn. Þá var haft samráð við heilbrigðisráðuneytið um þá breytingu sem lögð er til með 1. gr. frumvarpsins en lög um dánarvottorð, krufningar o.fl., nr. 61/1998, heyra undir málefnasvið þess.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins með því að tryggja að stjórnvöld og dómstólar geti annars vegar sinnt lögbundnum verkefnum meðan á ástandinu stendur með breyttu verklagi, og hins vegar að aðilar verði ekki fyrir réttarspjöllum við það að frestir renni út meðan á ástandið varir ef ekki reynist unnt að beita rafrænum lausnum til að fyrirbyggja það.
    Hvorki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld sveitarfélaganna né að langan tíma þurfi til aðlögunar á breyttu verklagi. Mælikvarði á árangur er meðal annars sá að stjórnvöld og dómstólar nái að sinna lögbundnum verkefnum með breyttu verklagi, án þess að kórónuveirufaraldurinn hafi teljandi áhrif á framkvæmdina og leiði ekki til réttspjalla fyrir aðila máls.
    Ekki verður séð að frumvarpið geti haft neikvæð eða íþyngjandi áhrif fyrir almenning, stjórnvöld eða dómstóla, enda felur það fyrst og fremst í sér heimildir fyrir notkun tæknilausna við framkvæmd verkefna svo hægt sé að mæta ákalli almennings um bætta þjónustu stjórnvalda og dómstóla meðan áhrifa gætir af kórónuveirufaraldrinum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir sérstökum kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 10. gr. laga um dánarvottorð, krufningar o.fl. þannig að heimilt verði að miðla upplýsingum um látinn einstakling rafrænt á milli tiltekinna stjórnvalda. Með þessu er opnað á þann möguleika að leggja niður núverandi framkvæmd við afhendingu og áframsendingar dánarvottorða á pappír og koma gögnunum í rafrænt form þannig að unnt sé á öruggan og skilvirkan hátt að miðla upplýsingum frá heilbrigðisstofnun. Þar sem framlagning dánarvottorðs og andlátstilkynningar hjá sýslumanni markar upphaf skipta á dánarbúi er talið nauðsynlegt að breyta lögunum svo unnt verði að bjóða upp á rafræna meðferð mála meðan áhrifa gætir af kórónuveirufaraldrinum.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 4. gr. barnalaga þannig að bréfleg faðernisviðurkenning geti farið fram rafrænt. Framkvæmdin hjá Þjóðskrá Íslands hvað þetta varðar hefur verið þannig að einstaklingar hafa þurft að prenta út eyðublað, undirrita og skila í afgreiðslu stofnunarinnar. Eftir breytingarnar yrði unnt að fylla út rafrænt form, auðkenna sig og undirrita eyðublaðið með rafrænum skilríkjum og skila því rafrænt til Þjóðskrár Íslands. Allt ferlið yrði því rafrænt og engin þörf yrði fyrir viðkomandi að mæta á staðinn.
    Í ljósi þess að undirritun bréflegrar faðernisviðurkenningar þarf samkvæmt núgildandi ákvæði að vera staðfest með fullnægjandi hætti til að tryggja áreiðanleika yfirlýsingarinnar er mikilvægt að tryggja að rafræn undirskrift fylgi sömu kröfum án þess þó að hún þurfi að vera staðfest af lögmanni eða tveimur vitundarvottum. Við innleiðingu rafrænna lausna í stjórnsýslunni hefur að jafnaði verið notast við fullgildar rafrænar undirskriftir þegar undirskriftin hefur mikilvæg réttaráhrif, svo sem að skuldbinda viðkomandi að lögum. Þar sem faðernisviðurkenning felur í sér mikilvæg réttindi og skyldur gagnvart þeim sem undirritar yfirlýsinguna þykir einföld rafræn undirskrift með Íslykli ekki fullnægjandi.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 8. gr. ættleiðingarlaga þar sem sýslumanni verður í undantekningartilvikum heimilt að afla samþykkis til ættleiðingar rafrænt og veita leiðbeiningar þar að lútandi í gegnum síma eða fjarfundabúnað. Gera verður ráð fyrir að umræddri heimild yrði einungis beitt í undantekningartilvikum ef um ómöguleika er að ræða hjá viðkomandi við að mæta fyrir sýslumann og þá einkum ef um alvarleg veikindi er að ræða eða aðrar mjög sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga skal sá sem sækir um dvalarleyfi undirrita umsókn sína eigin hendi. Í framkvæmd hefur ákvæðið verið túlkað svo að umsækjandi þurfi að leggja fram undirritað frumrit umsóknarinnar. Hér er lagt til að orðin „eigin hendi“ verði felld brott þannig að stofnunin geti tekið við rafrænt undirrituðum umsóknum en gefi jafnframt þann möguleika að taka við innskannaðri umsókn. Myndi þetta einkum nýtast vel þegar sótt er um endurnýjun dvalarleyfa en það hefur verið á stefnuskrá stofnunarinnar um tíma. Þessi breyting mun gera rafræna móttöku umsókna mögulega sem er mikilvægt bæði til að bæta þjónustu en einnig til að koma í veg fyrir óþarfa heimsóknir í afgreiðslu Útlendingastofnunar og vega þannig á móti hugsanlegri smithættu milli umsækjenda.

Um 5. gr.

    Með 1. mgr. nýs ákvæði til bráðabirgða er lögð til bráðabirgðaheimild fyrir lögreglu til að taka skýrslu af sakborningi og vitnum í gegnum fjarfundabúnað. Við beitingu þessarar heimildar verður lögregla eftir sem áður að tryggja réttindi sakbornings, svo sem með því að verjandi geti verið viðstaddur skýrslutöku á lögreglustöð.
    Með 2. mgr. og 3. mgr. er lagt til að tryggt verði að dómstólar geti áfram sinnt lögbundnum verkefnum þrátt fyrir samkomubann og fjarlægðartakmarkanir. Þannig er annars vegar lagt til að dómstólar geti notað fjarfundabúnað til þinghalda, þar á meðal við skýrslutökur af sakborningi, ákærða og vitnum, enda heyri allir þau orðaskipti sem fara fram. Þó er áskilið að skýrslugjöf sakbornings, ákærða og lykilvitna fari fram bæði í hljóð og mynd. Hins vegar er lagt til að skjöl og sýnilega sönnunargögn megi senda rafrænt til dómstóls. Teljast þau þá afhent dómstól og frestir þar með rofnir þar sem það á við. Þegar gögn eru send með þessu hætti til dómstóls skal jafnframt og án ástæðulauss dráttar senda þau með hefðbundnum hætti auk þess sem afhenda skal gagnaðila gögnin á sama tíma og með sama hætti og þegar þau eru send dómstól.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða til að tryggja að dómstólar geti áfram sinnt lögbundnum verkefnum þrátt fyrir samkomubann og fjarlægðartakmarkanir. Þannig er annars vegar lagt til að dómstólar geti notað fjarfundabúnað til þinghalda, þar á meðal við skýrslutökur, enda heyri allir þau orðaskipti sem fara fram. Skýrslugjöf málsaðila og vitna skal fara fram í hljóði og mynd sé þess kostur.
    Hins vegar er lagt til að skjöl og sýnilega sönnunargögn megi senda rafrænt til dómstóls. Teljast þau þá afhent dómstól og frestir þar með rofnir þar sem það á við. Þegar gögn eru send með þessu hætti til dómstóls skal jafnframt og án ástæðulauss dráttar senda þau með hefðbundnum hætti auk þess sem afhenda skal gagnaðila gögnin á sama tíma og með sama hætti og þegar þau eru send dómstól. Tekur þetta jafnframt til þinghalda og framlagningar gagna í einkamálum sem rekin eru fyrir dómi samkvæmt heimild í öðrum lögum að því leyti sem þar er vísað til laga um meðferð einkamála.

Um 7. gr.

    Lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða til að tryggja að framkvæmd á grundvelli laga um skipti á dánarbúum o.fl. raskist ekki vegna tímabundinna áhrifa kórónuveirufaraldursins og auglýsinga heilbrigðisráðherra um samkomubann og fjarlægðartakmarkanir. Með ákvæðunum er verið að heimila sýslumannsembættum, dómstólum og skiptastjórum að sinna lögbundnum verkefnum eftir atvikum með síma og fjarfundabúnaði og rafrænum lausnum við meðferð mála meðan hindranir standa í vegi fyrir hefðbundinni málsmeðferð. Ráðgert er að um slíka málsmeðferð fari þá eftir IX. kafla stjórnsýslulaga eftir nánari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er lagt til að ákvæði til bráðabirgða bætist við erfðalögin sem heimilar sýslumönnum að taka við umsóknum um leyfi til setu í óskiptu búi við skipti dánarbúa. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, er heimilt að ljúka skiptum dánarbúa með útgáfu leyfis til setu í óskiptu búi til handa maka hins látna og gilda þá reglur erfðalaga um þær heimildir. Í ljósi þess að útgáfa leyfisins getur bundið enda á skipti dánarbúa og stefnt er að því að heimila rafræna málsmeðferð við skiptin þykir óhjákvæmilegt að gera umrædda breytingu á erfðalögum meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur. Ráðgert er að um slíka rafræna málsmeðferð fari þá eftir IX. kafla stjórnsýslulaga eftir nánari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.

Um 9. gr.

    Lagt er til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða til að tryggja að handhafar fyrstu framleiðslu-, innflutnings-, heildsölu- og smásöluleyfa, sem samkvæmt ákvæðum áfengislaga gilda í eitt ár, geti haldið áfram rekstri ef ekki reynist unnt að sækja um framlengingu leyfanna vegna hindrunar sem ekki byggist á atvikum er varða þá sjálfa, og er þá einkum átt við hindranir sem rekja má til kórónuveirufaraldursins.

Um 10. gr.

    Lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða til að tryggja sýslumönnum og dómstólum heimildir til að sinna lögbundnum verkefnum á grundvelli laganna eftir atvikum með síma og fjarfundabúnaði og rafrænum lausnum þannig að unnt verði að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á framkvæmd aðfarar. Framkvæmd á grundvelli laga um aðför hefur einkennst af meðferð pappírs og fyrirtökum og því þykir rétt að heimila notkun framangreindra aðferða til að tryggja að aðilar geti leitað réttar síns meðan samkomubann og fjarlægðartakmarkanir eru í gildi. Ráðgert er að um slíka rafræna málsmeðferð fari þá eftir IX. kafla stjórnsýslulaga eftir nánari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.

Um 11. gr.

    Hér er lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða sem heimila sýslumönnum og dómstólum að sinna lögbundnum verkefnum á grundvelli laganna eftir atvikum með síma og fjarfundabúnaði og öðrum rafrænum lausnum. Með því verður unnt að tryggja að aðilar geti leitað réttar síns meðan samkomubann og fjarlægðartakmarkanir eru í gildi vegna kórónuveirufaraldursins. Ráðgert er að um slíka rafræna málsmeðferð fari þá eftir IX. kafla stjórnsýslulaga eftir nánari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.

Um 12. gr.

    Í þessari grein er lagt til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem heimilar fyrirtökur með gerðarbeiðendum í gegnum síma eða fjarfundabúnað til að fækka komum til sýslumanna og dómstóla á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Af sömu ástæðu er lagt til að heimilt verði að bjóða upp á rafrænar lausnir við meðferð mála. Ráðgert er að um slíka rafræna málsmeðferð fari þá eftir IX. kafla stjórnsýslulaga eftir nánari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.
    Til að koma í veg fyrir réttarspjöll vegna óvæntra og óyfirstíganlegra hindrana sem ekki byggjast á atvikum er varða málsaðila sjálfan, svo sem kórónuveirufaraldursins, er lagt til að tilteknum frestum sem lýkur fram til 1. október 2020 verði framlengt þar til hindruninni hefur verið rutt úr vegi.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.