Ferill 723. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1251  —  723. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19-heimsfaraldursins.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson,
Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Aþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og barnamálaráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir í þágu fólks sem missir vinnuna vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19-heimsfaraldursins og til að mæta fyrirsjáanlegum skorti á sumarstörfum. Gerðar verði breytingar á reglugerðum og frumvörp lögð fram á Alþingi í þessum tilgangi eigi síðar en 15. maí 2020. Í aðgerðunum felist a.m.k. eftirfarandi:
     1.      Grunnatvinnuleysisbætur hækki úr 289.510 kr. í 314.720 kr.
     2.      Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækki úr 456.400 kr. í 516.000 kr.
     3.      Hlutfall tekjutengdra atvinnuleysisbóta af meðaltali heildarlauna hækki tímabundið úr 70% í 100%.
     4.      Námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta frá 1. júní til 31. ágúst 2020.

Greinargerð.

    Alda atvinnuleysis var byrjuð að ganga yfir landið löngu áður en kórónuveiran lét á sér kræla en nú er hún að breytast í flóðbylgju. Áætlað er að atvinnuleysi á landsvísu verði um 17% í apríl. Á Suðurnesjum mælist atvinnuleysi þegar um 20% og er viðbúið að það aukist enn frekar. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að staða atvinnulausra og fjölskyldna þeirra er sérlega viðkvæm þegar atvinnuleysi er hátt og fjöldi fólks eygir litla möguleika á að finna sér nýja vinnu á næstu misserum. Atvinnuleysi eykst iðulega mest hjá láglaunafólki í kreppu og því þarf að gæta sérstaklega að þeim hópi.
    Hlutabótaleiðin, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 23/2020, er góð aðgerð sem gagnast mörgum og frumvarpið þar sem mælt var fyrir henni tók miklum framförum í meðförum þingsins. Aftur á móti er nauðsynlegt að ráðast í fleiri aðgerðir strax til að koma til móts við fólk sem alfarið missir vinnu sína vegna áhrifa faraldursins og tryggja að fjárhæðir í atvinnuleysistryggingakerfinu séu í takti við launaþróun.
    Í fyrsta lagi verður þegar í stað að hækka grunnatvinnuleysisbætur, sem ekki hafa fylgt launaþróun undanfarinna missera, til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp á þessum erfiðum tímum. Eðlilegt er að miða hækkunina við krónutöluhækkun launataxta 1. apríl 2020 fyrir lægstu laun samkvæmt lífskjarasamningnum. Í öðru lagi verður að tryggja þeim sem missa vinnuna hærri atvinnuleysisbætur á meðan siglt er í gegnum dýpsta hluta efnahagslægðarinnar. Flutningsmenn leggja til að hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði hækkað í 516.000 kr. í samræmi við þróun meðallauna í landinu. Flutningsmenn benda á að í 3. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, 54/2006, er að finna heimild fyrir ráðherra til að hækka framangreindar bætur með reglugerð í ljósi breyttra þjóðhagsforsendna.
    Í þriðja lagi er lagt til að skerðingarregla 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði afnumin tímabundið þannig að tekjutengdar atvinnuleysisbætur geti numið meðaltali heildarlauna launamanns enda séu þau undir 516.000 kr. hámarkinu. Þannig má á meðan versta krísan varir koma í veg fyrir skyndilegt tekjufall hjá fjölda fólks undir meðallaunum sem missir atvinnu. Samhliða þessari breytingu væri rétt að falla frá þeirri kröfu að grunnatvinnuleysisbætur hafi verið greiddar í hálfan mánuð áður en til tekjutengdra atvinnuleysisbóta kemur, sbr. 1. mgr. 32. gr., og heimila tímabundið greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar frá þeim tíma sem launamaður öðlast bótarétt samkvæmt lögunum.
    Að lokum er lagt til að brugðist verði við fyrirsjáanlegum vanda námsmanna enda ljóst að fjöldamargir námsmenn verða án atvinnu yfir sumartímann og verða þar með af tekjum sem þeir hefðu ella reitt sig á. Af þessum sökum er lagt til að námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta frá 1. júní til 31. ágúst.
    Tillögur þessar miða að því að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að standa við fjárhagslegar skuldbindingar á borð við leigu og húsnæðislán og komast þannig í gegnum versta skaflinn.