Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1258  —  499. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

    Eftirfarandi nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hafa verið settir á fót á yfirstandandi kjörtímabili:

     Starfshópur um eflingu samskipta Íslands og Grænlands, sem hefur það hlutverk að greina á heildstæðan hátt tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands og var falið að gera tillögur um aðgerðir sem hægt væri að framkvæma á næstu árum til að standa vörð um hagsmuni Íslands gagnvart Grænlandi.

     Starfshópur um eflingu samskipta Íslands og Póllands, sem hefur það hlutverk að greina á heildstæðan hátt tvíhliða samskipti Íslands og Póllands og var falið að gera tillögur um aðgerðir sem hægt væri að framkvæma á næstu árum til að standa vörð um hagsmuni Íslands gagnvart Póllandi.

     Starfshópur um efnahagsþróun á norðurslóðum, sem hefur það hlutverk að greina efnahagsþróun á norðurslóðum og gera tillögur um áþreifanlegar aðgerðir sem hægt væri að framkvæma á næstu árum til að tryggja sem best hagsmuni Íslands.

     Starfshópur vegna skýrslu um aðild Íslands að EES, sem skipaður var til að vinna skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Beiðni um skýrslugerðina kom frá Ólafi Ísleifssyni og fleiri alþingismönnum (þskj. 688 í 478. máli).

     Starfshópur vegna innleiðingar Íslands á bókun 35 við EES-samninginn, sem skipaður var til að bregðast við formlegum athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að Ísland hefði ekki innleitt á fullnægjandi hátt þær skuldbindingar sem bókun 35 við EES-samninginn mælir fyrir um. Starfshópnum var falið að fara yfir röksemdir ESA og leggja mat á hvort athugasemdir stofnunarinnar kalli á endurskoðun íslenskra laga og jafnframt að undirbúa svör Íslands við athugasemdum ESA.

     Starfshópur um mannréttindamiðaða þróunarsamvinnu í tvíhliða samstarfi, sem skipaður var til að greina og útfæra þær leiðir sem heppilegar eru fyrir Ísland til að nýta við innleiðingu mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu hvað varðar sértækar aðgerðir, málsvarastarf og samþættingu.

     Starfshópur vegna Háskóla SÞ á Íslandi, sem skipaður var til að gera tillögu um rekstur, skipulag og starfshætti Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

     Norrænn tengiliðahópur vegna skýrslu um eflingu norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála, sem skipaður var af utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Hver utanríkisráðherra skipaði tvo fulltrúa í tengiliðahópinn sem verður skýrsluhöfundi, Birni Bjarnasyni, til ráðuneytis um þróun tillagna.

     Þingmannanefnd um endurskoðun á stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, sem skipuð er fulltrúum allra þingflokka. Nefndin skal skila tillögu til utanríkisráðherra að nýrri norðurslóðastefnu.

     Matshópur vegna Samstarfssjóðs, sem hefur það hlutverk að meta styrkumsóknir til Samstarfssjóðs við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á faglegum forsendum og leggja fram tillögur um úthlutun styrkja.

     Matshópar vegna styrkja til félagasamtaka, tveir matshópar voru skipaðir til að meta styrkumsóknir á faglegum forsendum og leggja fram tillögur um úthlutun styrkja. Matshóparnir eru vegna þróunarsamvinnuverkefna annars vegar og mannúðarverkefna hins vegar.