Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1264  —  546. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um vinnslu og miðlun upplýsinga um umdeildar skuldir.


    Til að svara fyrirspurn þessari leitaði ráðuneytið til Persónuverndar.

     1.      Hvernig er háttað eftirliti með því að fjárhagsupplýsingastofa, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001, vinni ekki eða miðli upplýsingum um umdeildar skuldir?
    Í svari Persónuverndar kemur fram að um eftirlit fari eftir almennum ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá þurfi fjárhagsupplýsingastofa starfsleyfi frá Persónuvernd, sbr. nú 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en ákvæði um bann við vinnslu upplýsinga um umdeildar skuldir sé að finna í 3. mgr. greinar 2.1 í leyfi sem veitt var á grundvelli eldri laga og sé enn í gildi (leyfi dagsett 29. desember 2017, mál nr. 2017/1741 hjá Persónuvernd). Fjallað hafi verið um umdeildar skuldir að auki í úrskurðaframkvæmd Persónuverndar.

     2.      Hversu lengi má miðla fjárhagsupplýsingum sem hafa neikvæð áhrif á stöðu einstaklinga og hvernig er tryggt að þeim sé ekki miðlað eftir þann tíma?
    Hjá Persónuvernd kemur fram að miðla megi upplýsingum í fjögur ár eins og fram komi í 2. mgr. fyrrnefnds leyfisákvæðis, en miðlun sé þó óheimil hafi kröfu verið komið í skil. Um það hvernig tryggt sé að farið sé að því er vísað til svars við 1. tölul.

     3.      Hvaða viðurlög eru við því að vikið sé frá reglum í starfsleyfi um þessi atriði?
    Í svari Persónuverndar kemur fram að stórfelld brot á leyfisskilmálum gætu varðað sviptingu leyfis eða því að leyfi yrði ekki endurnýjað. Persónuvernd gæti einnig lagt á stjórnvaldssekt, sbr. 46. gr. laga nr. 90/2018. Þá beri þeirri fjárhagsupplýsingastofu, sem starfað hafi hér á landi, að bregðast við ef áskrifandi hjá henni fari ekki að skilmálum með hækkun á áskriftargjaldi og, eftir atvikum, uppsögn á áskriftarsamningi eins og nánar sé rakið í niðurlagi greinar 2.9 í áðurnefndu leyfi. Fyrir liggur að gripið hafi verið til ráðstafana samkvæmt þessu ákvæði.

     4.      Eru þess dæmi að vikið hafi verið frá slíkum reglum og ef svo er, hversu mörg eru þau tilvik og hvernig hefur verið brugðist við þeim?
    Hjá Persónuvernd kemur fram að í úrskurðaframkvæmd stofnunarinnar hafi verið fjallað um vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli leyfis til fjárhagsupplýsingastofu. Fallið hafa úrskurðir bæði á þann veg að farið hafi verið að lögum og leyfisskilmálum og að vikið hafi verið frá þeim. Ekki hefur verið tekin saman sérstök tölfræði um þá fjárhagsupplýsingastofu sérstaklega sem starfað hafi hér á landi og hvort niðurstöður féllu henni í hag eða óhag. Þó skal nefna að á árunum 2015–2019 voru til meðferðar 54 kvartanir tengdar starfsemi fjárhagsupplýsingastofunnar eða að meðaltali um 10,6% af heildarfjölda kvartana á tímabilinu. Þeir úrskurðir sem kveðnir hafi verið upp í tengslum við framangreint hafi ýmist fallið fjárhagsupplýsingastofunni í hag eða óhag. Þá séu einnig dæmi um að úrskurðir hafi fallið áskrifendum að þjónustu stofunnar í hag eða óhag.
    Dómsmálaráðherra getur ekki svarað fyrir það hvernig fjárhagsupplýsingastofan hefur brugðist við úrskurðum sem Persónuvernd hefur kveðið upp vegna kvartana sem stofnuninni hafa borist vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá fjárhagsupplýsingastofunni.

     5.      Telur ráðherra ástæðu til að skerpa á reglum í þessu efni og eftir atvikum herða á viðurlögum ef frá þeim er vikið?
    Svo sem fram kemur í svari Persónuverndar hefur stofnunin úrræði til að bregðast við frávikum frá reglum í starfsleyfi. Persónuvernd gæti einnig lagt á stjórnvaldssekt skv. 46. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þau úrræði dygðu ekki til að bregðast við frávikum eða brotum sem upp kunna að koma á þessu sviði. Að svo stöddu telur dómsmálaráðherra því ekki ástæðu til að setja reglur um frekari viðurlög. Þess má hins vegar geta að í ráði er að endurskoða reglugerð nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust.