Ferill 722. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1275  —  722. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


Tilefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að heimila stjórnvöldum að beita í auknum mæli rafrænum lausnum við meðferð mála og notkun síma og fjarfundabúnaðar í samskiptum við málsaðila. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangur þess sé að tryggja að réttarspjöll hljótist ekki af ef stjórnvöld og dómstólar geta ekki framkvæmt lögbundin verkefni vegna tímabundinna áhrifa COVID-19-faraldursins. 1. minni hluti fellst ekki á að brýn nauðsyn sé á að gera allar þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu vegna faraldursins. 1. minni hluti bendir á að með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar sem varða mikilvæga hagsmuni einstaklinga sem ekki sé þörf á, bæði þar sem fyrirséð er að breyttar reglur taka gildi um takmarkanir á samkomum frá 4. maí nk. og þar sem hagsmunir aðila séu ekki nægjanlega tryggðir.
    Fyrsti minni hluti er hlynntur aukinni rafrænni stjórnsýslu en telur brýnt að gætt sé að sjónarmiðum um persónuvernd í hvívetna og vandað til verka svo að réttaröryggi við rannsóknir sakamála sé ætíð tryggt og hagsmunum gerðarþola fyrir sýslumanni sé gætt til fulls. Nú þegar er hafin vinna við að auka notkun rafrænna lausna hjá stjórnvöldum, m.a. með verkefninu Stafrænt Ísland, og leggur 1. minni hluti áherslu á að þeirri þróun sé fylgt og tryggt verði að til grundvallar notkun slíkra lausna liggi nægjanlegt fjármagn, fullnægjandi tækni, upplýsingagjöf til stofnana og regluverk um beitingu rafrænna lausna. 1. minni hluti telur þó að 1., 2., 3., 4. og 9. gr. frumvarpsins feli í sér breytingar sem séu til bóta fyrir aðila og unnt verði að koma til framkvæmdar án mikillar fyrirhafnar.
    Fyrsti minni hluti telur aðrar breytingar hins vegar þarfnast nánari skoðunar og bendir á að sumar greinar frumvarpsins beri þess glöggt merki að skammur tími hafi gefist til vinnslu þess og að samráð við þá sem starfa hjá stjórnvöldum sem frumvarpið tekur til hafi verið í lágmarki. 1. minni hluti ítrekar mikilvægi þess að vandað verði til verka við innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu með sjónarmið um persónuvernd að leiðarljósi.

Efni frumvarpsins.
    Í 5. og 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem fela í sér heimild til bráðabirgða til að nota fjarfundabúnað, m.a. við skýrslutöku sakbornings og vitna, og heimild til að miðla skjölum og öðrum sýnilegum sönnunargögnum rafrænt til dómstóla. Þrátt fyrir að um sé að ræða heimild til bráðabirgða leggst 1. minni hluti gegn breytingunum þar sem um er að ræða veigamiklar breytingar á vinnubrögðum lögreglu og dómstóla við skýrslutökur á vitnum og sakborningum. Hætta er á því að í málum, bæði hjá lögreglu og fyrir dómstólum, þar sem notast er við fjarfundabúnað geti af ýmsum sökum orðið réttarspjöll með þeim afleiðingum að mál tefjist, þeim verði heimvísað eða þau hreinlega eyðileggist á síðari stigum. Þolendur og sakborningar njóta mikilvægra réttinda sem nauðsynlegt er að tryggð séu í hvívetna. Þá telur 1. minni hluti að þrátt fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða séu ákvæðin ekki nægjanlega skýr um í hvers konar málum megi beita tilteknum rafrænum lausnum, en skýr afmörkun verði að liggja til grundvallar slíkri heimild. Enn fremur bendir 1. minni hluti á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar sem tryggður er með 70. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeim rétti leiðir einnig meginreglan um milliliðalausa málsmeðferð en 1. minni hluti telur að sá réttur geti, í einhverjum tilfellum, verið fyrir borð borinn fari skýrslutaka fram í gegnum fjarfundabúnað.
    Við umfjöllun málsins benti Persónuvernd á að hvorki lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, né lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019, gilda um dómstóla þegar þeir fara með dómsvald sitt. Notkun fjarfundabúnaðar við meðferð dómsmála sé á mörkum þess að teljast til framkvæmdar dómsvalds eða falla undir stjórnsýslu þess og yrði að taka af allan vafa í þeim efnum. 1. minni hluti tekur undir framangreind sjónarmið og telur að í 5. og 6. gr. frumvarpsins sé réttur til persónuverndar ekki tryggður með fullnægjandi hætti. Í ljósi alls framangreinds leggur 1. minni hluti til að 5. og 6. gr. verði felldar brott.
    Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild verði bætt við lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, þess efnis að heimilt verði að taka fyrir mál í gegnum síma eða á fjarfundi. Þá er í 2. efnismgr. 7. gr. lagt til að heimilt verði að bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til 1. október 2020. Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði til bráðabirgða að byggja á IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við miðlun upplýsinga og gagna í tengslum við umsókn eftirlifandi maka um leyfi til setu í óskiptu búi. 1. minni hluti telur framangreindar breytingar óþarfar og vísar til umsagnar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að almennt sé ekki gert ráð fyrir formlegum fyrirtökum við skipti á dánarbúum. Þá kemur fram að afgreiðsla slíkra mála fari fram með samskiptum sem geti verið í síma, tölvubréfum eða fundum eftir óskum aðila og eðli máls. Enn fremur séu erindin afgreidd með þeim hætti að aðili óskar eftir samtali og mætir til sýslumanns með beiðni um leyfi til einkaskipta, erfðafjárskýrslu og fylgigögn eða önnur erindi sem hann þarf leiðbeiningar með. 1. minni hluti telur í ljósi þess sem að framan greinir ekki ástæðu til að setja sérstök ákvæði til bráðabirgða um þau samskipti og leggur til að 7. og 8. gr. frumvarpsins verði felldar brott.
    Í 10. og 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar til bráðabirgða á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Ákvæðin hafa sætt mikilli gagnrýni, einkum varðandi stöðu gerðarþola og af þeim sökum að ákvæðin séu óþörf og virðist hafa aðallega verið lögð til gerðarbeiðendum til hagsbóta. Í kjölfar upplýsinga frá sýslumanni var ekki talin þörf á að gerðarbeiðendur gætu verið viðstaddir fyrirtöku í síma eða á fjarfundi sem 1. minni hluti telur vitna um að ekki hafi verið vandað nægilega til verka við gerð frumvarpsins í upphafi. 1. minni hluti tekur því undir tillögur meiri hlutans um að 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 12. gr. verði felldar brott auk 1. mgr. 11. gr. Þá tekur 1. minni hluti undir efni umsagnar Hagsmunasamtaka heimilanna og telur að ganga þurfi lengra til að gæta réttinda gerðarþola. 1. minni hluti bendir í því samhengi á 3. efnismgr. 12. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að ljúki tilteknum frestum laga um nauðungarsölur og ekki reynist unnt að halda áfram aðgerðum vegna óyfirstíganlegrar hindrunar, sem ekki byggist á atvikum er varða málsaðila, framlengist frestur frá þeim degi er hindruninni lauk. 1. minni hluti telur að í stað aðgerða á borð við framlengingu framangreinds frests ætti að stöðva nauðungarsölur og aðfaragerðir tímabundið. 1. minni hluti leggur því til að 10., 11. og 12. gr. frumvarpsins verði felldar brott.
    Fyrsti minni hluti áréttar stuðning við notkun rafrænna lausna í því skyni að einfalda meðferð mála innan stjórnsýslunnar og styður framgang þeirra greina frumvarpsins sem fela í sér þarfar breytingar. 1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til en einnig með eftirfarandi

BREYTINGU:


    5., 6., 7., 8., 10., 11. og 12. gr. falli brott.

Alþingi, 24. apríl 2020.

Anna Kolbrún Árnadóttir.