Ferill 735. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjöl 1277  —  735. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.

    Ráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu með aðild ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar, Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar. Í því skyni er heimilt að leggja til félagsins eignir og réttindi eftir því sem nánar greinir í lögum þessum.
    Ákvæði laga um opinber hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

2. gr.

Tilgangur og markmið félagsins.

    Tilgangur félagsins er að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. á innviðum almenningssamgangna, í samstarfi við Vegagerðina og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Félagið hefur yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar á samgöngum og fjármögnun þeirra.
    Meginmarkmið félagsins skulu vera eftirfarandi:
     a.      Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.
     b.      Að stuðla að því að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð.
     c.      Að stuðla að auknu umferðaröryggi.
     d.      Að tryggja skilvirkt samstarf milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um trausta umgjörð á uppbyggingu innviða.

3. gr.

Hlutverk og verkefni félagsins.

    Hlutverk og verkefni félagsins eru einkum eftirfarandi:
     a.      Að halda utan um fjármögnun á uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd.
     b.      Að fara með heildstæða áætlanagerð og áhættustýringu.
     c.      Að hafa yfirumsjón með samræmingu verkefna og meta forgangsröðun.
     d.      Að fylgja því eftir að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum.
     e.      Að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á, og byggja upp innviði slíkrar innheimtu.
     f.      Að annast þróun á landi sem lagt verður til félagsins með það að markmiði að ná fram hámörkun á virði þess.
    Félagið gerir samning við Vegagerðina um framkvæmd einstakra verkefna sem falla innan hlutverks félagsins, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Félagið annast yfirumsjón og eigandaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkja gagnvart Vegagerðinni, þ.m.t. vegna áætlanagerðar og áhættustýringar í samræmi við hlutverk þess skv. 1. mgr. Í slíkum samningi skal eftir atvikum skilgreina þátt tiltekinna sveitarfélaga í einstökum verkefnum.

4. gr.

Hlutafé félagsins.

    Ríkissjóður fer við stofnun félagsins með 75% eignarhluta og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 1. mgr. 1. gr., samtals 25%. Eigendum er þó heimilt að koma sér saman um aðra skiptingu á eignarhlutum í félaginu. Ekki er heimilt að framselja hluti félagsins til annarra en stofneigenda þess.
    Sá ráðherra er fer með eignir ríkisins skal fara með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laga þessara. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fara með eigendaumboð sveitarfélaganna í félaginu.
    Eigendur félagsins skulu gera með sér hluthafasamkomulag þar sem nánar verður kveðið á um stjórnarhætti félagsins sem og minnihlutavernd.

5. gr.

Stjórn félagsins.

    Stjórn félagsins skal skipuð sex einstaklingum og skal val þeirra staðfest á aðalfundi ár hvert. Ráðherra tilnefnir þrjá aðalmenn og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tilnefna þrjá. Ráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar úr hópi stjórnarmanna. Stjórn félagsins skiptir að öðru leyti með sér verkum í samræmi við ákvæði hluthafasamkomulags, sbr. 3. mgr. 4. gr. Fjöldi varamanna skal ákveðinn í samþykktum félagsins.

6. gr.

Samningur um uppbyggingu innviða.

    Ríki og sveitarfélög skv. 1. gr. gera samning við félagið, einn eða fleiri eftir þörfum, þar sem nánar verður kveðið á um hlutverk félagsins vegna uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Í samningi milli aðila skal m.a. kveðið á um fjármagnsskipan félagsins, nánari útfærslu einstakra framkvæmda, eignfærslu mannvirkja sem og ráðstöfun þeirra við slit félagsins.

7. gr.

Yfirtaka og þróun lands í eigu ríkisins.

    Félagið skal með sérstökum samningi við ráðherra taka við landi í eigu ríkisins ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast og telst það hluti af hlutafjárframlagi ríkisins. Í samningnum skal m.a. ákvarða afmörkun lands og skilyrði afhendingar þess til félagsins.
    Allur ábati af þróun og sölu landsins skal renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Félagið skal annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess eins og kostur er.

8. gr.

Heimild til lántöku o.fl.

    Félaginu er heimilt að taka lán umfram það sem fjármagnað er með framlögum til félagsins, rúmist það innan heildarfjárfestingar og sé metið hagkvæmt fyrir framgang uppbyggingar á samgönguinnviðum og annarra verkefna félagsins. Lántaka er háð því skilyrði að ríkissjóður veiti félaginu lán eða veiti ríkisábyrgð verði lán tekið frá öðrum aðila.
    Félaginu er heimilt að stofna dótturfélög til að annast afmarkaða þætti af verkefnum félagsins, í samræmi við samþykktir þess og lögum þessum.
    Félaginu er heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.

9. gr.

Slit félagsins.

    Félaginu skal slitið þegar það hefur lokið verkefnum að fullu og þegar fullnaðaruppgjör hefur farið fram og öllum eignum félagsins ráðstafað.

10. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Samfara fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur umferð á svæðinu aukist talsvert undanfarin ár. Á sama tíma hafa umferðartengdar tafir og aðrar óbeinar afleiðingar umferðar aukist, svo sem loft- og hljóðmengun,. Í umferðaspám, sem m.a. mynda grundvöll að gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, er gert ráð fyrir því að umferð muni aukast áfram næstu ár. Haldist ferðavenjur á svæðinu áfram óbreyttar er því fyrirséð að sú aukning muni leiða af sér enn frekari tafir og draga þannig úr skilvirkni svæðisins og lífsgæðum íbúa. Ef ferðavenjur á hinn bóginn breytast þannig að notkun ferðamáta jafnist og fleiri kjósi að ganga, hjóla eða nýta sér almenningssamgöngur verða tafirnar mun minni og lífsgæði íbúa betri.
    Í september 2019 gerðu íslenska ríkið annars vegar og Reykjavíkurborg, Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kópavogsbær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær (sveitarfélögin) hins vegar með sér samkomulag um skipulag og fjármögnun á samgönguinnviðum, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára, þ.e. til og með 2033 (sáttmálinn). Samkomulagið undirrituðu af hálfu ríkisins forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Markmið sáttmálans er að stuðla að bættum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu skilvirkra, hagkvæmra, öruggra og umhverfisvænna samgönguinnviða. Með þeim aðgerðum sem koma fram í sáttmálanum er ætlunin að takast á við aukna umferð á höfuðborgarsvæðinu og aðrar umferðartengdar tafir.
    Eitt af markmiðum sáttmálans er að tryggja skilvirka uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu og trausta umgjörð þeirra verkefna sem tilgreind eru í sáttmálanum, m.a. með því að skilgreina samstarfsform, kostnaðarskiptingu, ábyrgð á tilteknum aðgerðum og fjármögnunarleiðir. Í sáttmálanum kemur fram að ríkisstjórnin muni leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um heimild til að stofna sameiginlegt félag sem heldur utan um framkvæmdir við uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun uppbyggingarinnar. Umrætt félag skal vera í sameiginlegri eigu ríkis og sveitarfélaganna. Með frumvarpi þessu er verið að uppfylla þær skuldbindingar sem koma fram í sáttmálanum og snúa að stofnun slíks félags. Fram að stofnun félagsins annast verkefnisstofa um Borgarlínu í samstarfi við Vegagerðina undirbúning verkefnisins um uppbyggingu á samgönguinnviðum.
    Sáttmálinn og viðaukar hans eru fylgiskjöl með frumvarpi þessu.

2. Tilefni lagasetningar.
    Tilefni lagasetningar er að uppfylla þær skuldbindingar sem komu fram í samgöngusáttmálanum um að sameiginlegt félag yrði stofnað á vegum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
    Núverandi efnahagsástand, með hratt minnkandi eftirspurn og efnahagsslaka, lítilli fjárfestingu og langvarandi fjárfestingarhalla, kallar jafnframt á að ráðist verði í fjárfestingar á vegum hins opinbera. Áhrif opinberrar fjárfestingar á eftirspurn í hagkerfinu geta því verið nokkur við þessar aðstæður án þess að ýta undir verðbólgu eða leiða til hærra vaxtastigs. Við blasir að afleiðingar samdráttarins geta orðið alvarlegar og er sérstök hætta á því að atvinnuleysi aukist verulega.
    Almennt getur ríkissjóður aukið fjárfestingar sínar til að ná tveimur efnahagslegum markmiðum. Annar vegar til að styðja við eftirspurn með áherslu á framkvæmdir þar sem innlendir framleiðsluþættir eru nýttir. Hins vegar til að stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni.
    Við þessar aðstæður er mikilvægt að viðhalda fjárfestingarstigi hins opinbera og stuðla að því að flýta framkvæmdum. Því er mikilvægt að koma sem fyrst á fót félagi til að halda utan um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við samgöngusáttmálann. Verkefni félagsins er að halda utan um fjárfestingu í samgönguinnviðum til næstu 15 ára sem þegar er búið að fjármagna að hluta. Miðað er við að bein framlög frá ríki og sveitarfélögum til verkefnisins séu um 3 milljarðar kr. á ári. Það fellur innan hlutverks félagsins að ráðast í arðbæra innviðauppbyggingu sem mun örva efnahagslífið og atvinnusköpun sem skiptir sköpum um þessar mundir. Þegar félaginu hefur verið komið á fót skapast einnig tækifæri að flýta framkvæmdum enn frekar sé það talið hagkvæmt út frá forsendum verkefnisins í heild og efnahagsaðstæðum að öðru leyti.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu með Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ. Í frumvarpinu er kveðið nánar á um tilgang og markmið félagsins sem endurspegla jafnframt þau markmið sem sett eru fram í sáttmálanum um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Kveðið er á um hlutverk og verkefni félagsins sem snýr að utanumhaldi og uppbyggingu samgönguinnviða sem áætlað er að standi a.m.k. fram til ársins 2033. Í frumvarpinu eru einnig að finna ákvæði um hlutafé, stjórn, heimildir til lántöku og slit félagsins ásamt ákvæðum um heimildir félagsins til samningsgerðar um uppbyggingu innviða og ákvæði um yfirtöku og þróun lands í eigu ríkisins.
    Í framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem er í viðauka við sáttmálann kemur fram nánari sundurliðun á einstökum verkefnum ásamt áætluðum kostnaði þeirra verkefna sem félagið mun hafa yfirumsjón með. Í áætluninni er einkum gert ráð fyrir framkvæmdum á stofnvegum, hjóla- og göngustígum, göngubrúm og undirgöngum ásamt framkvæmdum vegna Borgarlínu og annarra vega innan höfuðborgarsvæðisins. Þá er einnig gert ráð fyrir framkvæmdum vegna umferðarstýringar og öðrum öryggisaðgerðum til að tryggja aukið umferðarflæði.
    Áætlað er að kostnaður við verkefnið, þ.e. uppbygging samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt sáttmálanum, verði um 120 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2019 í samræmi við framangreinda framkvæmda- og fjárstreymisáætlun. Miðað er við að ríkissjóður muni tryggja verkefninu 45 milljarða kr. með beinum framlögum, annars vegar 15 milljarða kr. með þróun og sölu á Keldnalandinu eða sambærilegu landi og hins vegar 30 milljarða kr. í gegnum samgönguáætlun. Bein framlög sveitarfélaganna eru samtals 15 milljarðar kr. yfir tímabilið. Þá er gert ráð fyrir að 60 milljarðar kr. verði fjármagnaðir með flýti- og umferðargjöldum en aðrir fjármögnunarkostir verða þó skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti. Einnig kemur til greina að ríkið fjármagni þennan hluta uppbyggingarinnar með sérstökum framlögum vegna eignasölu, t.d. með sölu á Íslandsbanka. Raskist forsendur uppbyggingarinnar þannig að ekki verður unnt að fjármagna verkefni samkvæmt framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem er í viðauka við sáttmálann er gert ráð fyrir að aðilar samkomulagsins taki upp viðræður eins og fljótt og kostur er um hvernig við skuli bregðist þannig að tryggt verði að framkvæmdir verði unnar í samræmi við framkvæmdaáætlun.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gaf ekki tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá. Þá er frumvarpið einnig í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og áform um kolefnishlutleysi til framtíðar litið.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í nánu samstarfi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
    Frumvarpið varðar stofnun félags sem mun halda utan um uppbyggingu á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu. Frumvarpið snertir því fyrst og fremst umrætt félag sem á að koma á fót, Vegagerðina, sveitarfélög og íbúa höfuðborgarsvæðisins og aðra sem nýta samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu.
    Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi var ekki haft samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Markmið frumvarpsins er að koma á fót sérstöku félagi sem mun halda utan um fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, til 15 ára. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu skilvirkra, hagkvæmra, öruggra og umhverfisvænna samgönguinnviða. Þar að auki er stefnt að eftirfarandi markmiðum:
          Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.
          Að stuðla að því að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð.
          Að stuðla að auknu umferðaröryggi.
          Að tryggja samstarf milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð samgangna.
    Með samþykkt frumvarpsins yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að framangreindum markmiðum verði náð og að ráðist verði í nauðsynlega uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þá er jafnframt talið mikilvægt miðað við núverandi efnahagshorfur að ráðist verði í arðbær fjárfestingarverkefni hér á landi til að örva efnahagslífið og atvinnusköpun. Af þeim sökum er mikilvægt að félaginu sé komið á fót á yfirstandandi ári til að hægt sé að hrinda verkefninu af stað og flýta mögulegum framkvæmdum.
    Í samræmi við sáttmálann er gert ráð fyrir að heildarfjármögnun vegna verkefnisins verði um 120 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2019. Samkvæmt tillögu að nýrri samgönguáætlun er miðað við að beint framlag ríkisins sé tveir milljarðar kr. á ári í 15 ár, þ.e. til og með 2033. Þá verður land ríkisins að Keldum lagt til félagsins sem fær það hlutverk að annast þróun og sölu þess. Allur ábati af sölu landsins mun renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ef ábatinn verður minni en 15 milljarðar kr. mun ríkið tryggja að lágmarki 15 milljarða kr. fyrir lok framkvæmdatímans. Ef ábatinn verður meiri mun það fé sem er umfram þá fjárhæð renna til verkefnisins til viðbótar við önnur framlög eða til lækkunar flýti- og umferðargjalda. Beint heildarframlag ríkisins verður því að lágmarki 45 milljarðar kr. á tímabilinu. Bein framlög sveitarfélaganna verða samtals einn milljarður kr. á ári eða 15 milljarðar kr. á tímabilinu, þ.e. til og með 2033. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér kostnaði á hverju ári miðað við hlutfallslegan íbúafjölda 1. desember árið á undan.
    Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp með sérstakri lagasetningu til að standa undir hluta af fjármögnun verkefnisins eða um 60 (nettó) milljarðar kr. Er gjöldunum ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði. Aðrir fjármögnunarkostir verða þó einnig skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðuð skattlagning á ökutæki og eldsneyti, enda raski það ekki fjármögnun framkvæmdaáætlunar. Í stað flýti- og umferðargjalda kemur einnig til skoðunar að ríkið fjármagni þennan hluta uppbyggingarinnar með sérstökum framlögum vegna eignasölu. Bein framlög ríkis og sveitarfélaga og flýti- og umferðargjöld taka breytingum á sama hátt og sambærileg verkefni sem eru færð til nýs verðlags í samgönguáætlun.
    Náist markmið sáttmálans um uppbyggingu samgönguinnviða mun það leiða til bættra lífskjara í þeim sveitarfélögum sem mynda höfuðborgarsvæðið. Þannig munu sveitarfélögin styrkjast og bæta stöðu sína gagnvart öðrum borgarsamfélögum í nágrannalöndum. Samkvæmt könnun á ferðavenjum sem framkvæmd var á höfuðborgarsvæðinu haustið 2019 kom í ljós að notkun kynjanna á samgöngum er nokkuð svipuð á höfuðborgarsvæðinu og enginn munur var á notkun þeirra á almenningssamgöngum. Bættar almenningssamgöngur á svæðinu eru því líklegar að til að nýtast kynjunum hlutfallslega jafn mikið. Í heild á uppbyggingin að nýtast í öllum ferðum, bæði milli sveitarfélaga og innan þeirra. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir að uppbyggingin muni hafa bein áhrif á stöðu kynja.
    Eitt af markmiðum sáttmálans er að stuðla að breyttum ferðavenjum. Aukin hlutdeild virkra samgöngumáta, göngu og hjólreiða, er líkleg til að stuðla að umtalsverðum ábata tengdum lýðheilsu hér á landi. Með uppbyggingunni er einnig stefnt að bættu umferðaröryggi sem leiðir til fækkunar slysa og hefur þannig bein þjóðhagsleg áhrif en samkvæmt greiningum sem unnar hafa verið á samfélagslegum kostnaði þeirra er talið að hvert banaslys kosti þjóðfélagið um 750 millj. kr. og hvert alvarlegt slys um 98 millj. kr. á verðlagi 2019. Þá mun uppbygging á samgönguinnviðum einnig hafa jákvæð áhrif í loftslagsmálum og stuðla að því að markmiðum ríkis og sveitarfélaga um kolefnishlutleysi og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verði náð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins skuli koma á fót opinberu hlutafélagi með Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ sem hefur það að markmiði að standa að uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Einnig kemur fram að heimilt sé að leggja félaginu til eignir og réttindi, sbr. einkum 7. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að almenn ákvæði hlutafélagalaga um opinber hlutfélög gildi um félagið nema sérstaklega sé kveðið á um annað.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er gerð grein fyrir tilgangi félagsins sem er að hafa umsjón með og hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, í samræmi við sameiginlega framkvæmdaáætlun ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdaáætlunin er í viðauka við samgöngusáttmálann sem gerður í september 2019 um skipulag og fjármögnun á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára, sbr. umfjöllun í inngangskafla frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er gerð grein fyrir meginmarkmiðum félagsins sem eru að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu skilvirkra, hagkvæmra, öruggra og umhverfisvænna samgönguinnviða. Markmið félagsins endurspegla jafnframt þau markmið sem sett eru fram í samgöngusáttmálanum um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um hlutverk og helstu verkefni félagsins en félaginu er einkum ætlað að annast samræmingu á uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Vegagerðina og einstök sveitarfélög. Hlutverk félagsins er að halda utan um þá fjármuni sem ætlaðir eru í verkefnið í samræmi við framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem ríki og sveitarfélög hafa komið sér saman um, sjá fylgiskjal með samgöngusáttmála sem fylgir sem viðauki með frumvarpinu. Þá er það hlutverk félagsins að annast áætlanagerð og áhættustýringu vegna verkefnisins ásamt því að gæta að samræmingu verkefna og meta forgangsröðun í tengslum við framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem verkefnið byggir á. Með áætlanagerð og áhættustýringu á vegum félagsins er einkum átt við mat og eftirlit á því að ekki eigi sér stað framúrkeyrsla á kostnaði sem t.d. leiðir af hönnun, töfum vegna skipulagsmála eða öðrum framkvæmdarvanda. Einnig er gert ráð fyrir að félagið vinni með einstökum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að nauðsynlegum breytingum á skipulagi í samræmi við skipulagslög til að hægt sé að hrinda framkvæmdum af stað og tryggja framgang uppbyggingarinnar. Í samræmi við samgöngusáttmálann er gert ráð fyrir að svonefndum flýti- og umferðargjöldum verði komið á með sérstakri lagasetningu eða að önnur fjármögnun verði tryggð með eignasölu á vegum ríkisins eða í tengslum við breytingar á opinberri álagningu til að ná fram markmiðum og fjármögnum verkefnisins. Ef gjöldin verða tekin upp með lögum er miðað við að þeir fjármunir renni til félagsins til að standa undir hluta af fjármögnuninni eins og hún hefur verið skilgreind en að öðrum kosti mun þurfa að fjármagna þennan hluta verkefnisins á annan hátt. Félagið mun jafnframt fá það verkefni að annast þróun og sölu á landi sem lagt verður til þess með það að markmiði að ná fram hámörkun á virði landsins með hagkvæmu skipulagi í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag. Hér er fyrst og fremst átt við land í eigu ríkisins að Keldum í Grafarvogi, sbr. umfjöllun um 7. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að félagið hafi heimild til samningsgerðar við Vegagerðina um hönnun og framkvæmd verkefna sem falla innan hlutverks félagsins. Í ljósi þess að stór hluti framkvæmdanna er formlega á ábyrgð Vegagerðarinnar er gengið út frá því að félagið geri slíkan samning við stofnunina um framkvæmd einstakra verkefna. Því er mikilvægt að félagið fari með yfirumsjón og eigendaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkja gagnvart Vegagerðinni og gæti að áætlanagerð og áhættustýringu vegna verkefnisins í heild. Vegagerðinni verður þannig falið að annast umsjón þeirra framkvæmda sem ráðist verður í sem m.a. er ætlað að tryggja samræmi í hönnun, framkvæmd og kostnaðareftirliti. Miðað er við að Vegagerðin muni í samráði við viðkomandi sveitarfélög bjóða út einstaka framkvæmdir á grundvelli samnings sem gerður verður við félagið. Félagið ber eftir sem áður ábyrgð á uppbyggingunni í heild sinni í samræmi við hlutverk þess. Þá kemur einnig til greina, ef það telst hagkvæmt fyrir framgang uppbyggingarinnar, að sveitarfélögum verði falið að annast afmarkaða þætti framkvæmda sem eiga sér stað innan marka viðkomandi sveitarfélaga, sbr. heimild í 3. mgr. 8. gr. Eðlilegt er að slíkir samningar séu jafnframt gerðir með aðkomu Vegagerðarinnar til að tryggja samræmingu í framkvæmdum þvert á sveitarfélög. Gert er ráð fyrir að í samningi félagsins við Vegagerðina verði þáttur tiltekinna sveitarfélaga í einstökum verkefnum skilgreindur. Þannig kemur einkum til skoðunar að einstök sveitarfélög haldi utan um afmarkaða þætti framkvæmda, t.a.m. í tengslum við uppbyggingu á göngu- og hjólreiðastígum.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að ríkissjóður fari með 75% eignarhluta og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samtals 25%. Eignarhlutföllin byggja á því hvernig bein framlög hafa verið ákveðin í verkefnið samkvæmt samgöngusáttmálanum. Þar kemur fram að ríkissjóður muni tryggja verkefninu 45 milljarða kr. með beinum framlögum á verðlagi 2019, annars vegar 15 milljarða kr. vegna þróunar og sölu á Keldnalandinu og hins vegar 30 milljarða kr. vegna samgönguáætlunar þar sem beint framlag ríkisins er 2 milljarðar kr. á ári í 15 ár. Beint framlag sveitarfélaganna er samtals 15 milljarðar kr. yfir tímabilið, eða 1 milljarður kr. á ári í 15 ár. Gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélögum sé heimilt að koma sér saman um aðra skiptingu á eignarhlutum félagsins ef þörf reynist á því síðar á tímabilinu, t.d. ef einhverjar breytingar verða á forsendum uppbyggingarinnar. Þá er miðað við að eigendum félagsins sé ekki heimilt að framselja hluti í félaginu til annarra en stofneigenda þess skv. 1. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. lög um opinber fjármál og forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fari með hlut ríkisins í félaginu. Þá kemur einnig fram að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fari með eigendaumboð fyrir sveitarfélögin í félaginu og komi fram fyrir þeirra hönd innan félagsins og á hluthafafundum.
    Í 3. mgr. segir að eigendur félagsins munu gera með sér hluthafasamkomulag þar sem kveðið verður nánar um á stjórnarhætti í félaginu og minnihlutavernd.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um fjölda stjórnarmanna í félaginu og fyrirkomulag við val þeirra. Ráðherra og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tilnefna aðalmenn í stjórn en val þeirra skal staðfest á aðalfundi ár hvert. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tilnefna þrjá aðalmenn í stjórn og fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins, tilnefnir þrjá. Ráðherra ákveður jafnframt hver er formaður stjórnar úr hópi þeirra sem eru tilnefndir í stjórn. Í hlutahafasamkomulagi verður miðað við að atkvæði formanns ráði úrslitum falli atkvæði jöfn innan stjórnar. Til að stuðla að góðu samstarfi innan félagsins er miðað við að ráðherra tilkynni Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fyrirhugaða tilnefningu á nýjum formanni stjórnar innan hæfilegs tíma fyrir aðalfund svo samtökunum gefist kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en val er staðfest. Miðað er við að fjöldi varamanna í stjórn verði ákveðinn í samþykktum félagsins. Stjórn félagsins mun bera ábyrgð á störfum framkvæmdastjóra og starfsemi félagsins, þ.m.t. verkefnastjórn samgöngusáttmálans. Stjórnin skal ávallt skipuð hæfum einstaklingum með fjölbreytta og haldgóða reynslu eða þekkingu sem hæfir félaginu og þjónar sem best hagsmunum þess. Þá er gert ráð fyrir sérstökum stýrihópi eigenda, eins og nánar verður útfært í hlutahafasamkomulagi, sem fer yfir stefnumótandi mál sem tengjast verkefninu og veitir stuðning við úrlausn ágreiningsmála sem kunna að koma upp. Verði t.d. verulegar breytingar gerðar á áætlunum miðað við samgöngusáttmála eða á tilgangi eða hlutverki félagsins er miðað við að það verði tekið fyrir í stýrihópi. Raskist forsendur uppbyggingarinnar þannig að ekki verður unnt að fjármagna verkefni vegna hennar er mikilvægt að stjórn félagsins geri viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við því, sbr. umfjöllun í sáttmálanum.

Um 6. gr.

    Í greininni segir að ríki annars vegar og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hins vegar geri samning við félagið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk félagsins vegna uppbyggingar samgönguinnviða. Í slíkum samningi skal m.a. fjalla um fjármagnsskipan félagsins, eignfærslu mannvirkja til viðeigandi rekstraraðila sem og ráðstöfun annarra eigna við slit félagsins. Ekki er miðað við að félagið sem slíkt beri ábyrgð á rekstri einstakra vegamannvirkja. Fjármagnsskipan félagsins hefur ekki endanlega verið útfærð og því kann að vera þörf á því að sérstakur samningur sé gerður milli aðila sem tekur á álitaefnum sem kunna að koma upp þannig að markmið sáttmálans um að tekjur og skuldbindingar standist á sé uppfyllt. Þá er félaginu jafnframt ætlað að starfa í a.m.k. 15 ár sem er áætlaður framkvæmdatími vegna uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að aðilar leysi sérstök álitaefni sem kunna að koma upp á framkvæmdatíma með samkomulagi. Álitamál geta komið upp sem varða einstakar framkvæmdir sem ráðast á í samkvæmt sameiginlegri framkvæmdaáætlun aðila, reynist t.d. þörf á að gera breytingar á útfærslu eða forgangsröðun framkvæmda. Í þessu felst að hægt er að aðlaga hlutverk félagsins á hverjum tíma með samkomulagi til að mæta breytingum í starfsemi og rekstri, eftir því sem ástæða er til, enda rúmist það innan annarra ákvæða laganna. Það kann því að vera þörf á því að gera einn samning eða fleiri eftir því hvernig verkefnið og samstarfið þróast milli aðila.
    Þegar framkvæmdum vegna einstakra verkefna er lokið verða vegamannvirki afhent ríki eða því sveitarfélagi sem ber ábyrgð á rekstri og viðhaldi þeirra í samræmi við ákvæði gildandi laga hverju sinni.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. segir að félagið skuli með sérstökum samningi við ráðherra taka við landi ríkisins ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast og telst það hluti af hlutafjárframlagi ríkisins. Hér er einkum átt við land ríkisins að Keldum sem verður afmarkað nánar í samningi við félagið. Keldnalandið sjálft er um 86 hektarar að stærð en einnig á ríkið Keldnaholt sem er um 31 hektari að stærð. Til skoðunar kemur að þau réttindi og skyldur sem tengjast landinu að Keldum færist yfir til félagsins en hér er átt við það land sem ríkið eignaðist í samræmi við samkomulag menntamálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík um málefni Keldna og Keldnaholts um makaskipti á löndum og stöðu landa frá 26. janúar 1983. Í samningi við félagið þarf einnig að taka afstöðu til annarra skilyrða við afhendingu Keldnalandsins, t.a.m. sem tengjast framtíðarstaðsetningu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og annarra grunnforsendna og markmiða sem gilda um uppbygginguna á landinu. Þá kemur einnig til skoðunar að önnur lönd í eigu ríkisins eða samningar sem ríkið hefur gert um uppbyggingu á ríkislandi verði afhent félaginu.
    Í 2. mgr. kemur fram að allur ábati eða ávinningur af þróun og sölu landsins, sem félagið fær afhent, skuli renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna af höfuðborgarsvæðinu. Þar af leiðandi er miðað við að tekjur af sölu landsins, að frádregnum sköttum og gjöldum, renni að fullu til fjármögnunar uppbyggingar og reksturs félagsins. Hlutverk félagsins er því að annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld þar sem sérstök áhersla er lögð á að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum borgarinnar um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu. Við þróun uppbyggingar á landinu verði einnig tekið mið af markmiðum um félagslega blöndun á svæðinu eftir því sem kostur er. Því kemur til álita að tiltekið hlutfall af lóðum verði úthlutað til óhagnaðardrifinna leigufélaga gegn eðlilegu endurgjaldi. Miðað er við að félagið eignfæri kostnað vegna þróunar á landinu enda sé hann til þess fallinn að auka verðgildi þess. Félagið getur þar að auki veðsett landið eða nýtt lántökuheimildir til að standa undir almennum kostnaði vegna þróunarvinnu fram að sölu eða annarri tekjumyndun af landinu.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um heimildir félagsins til lántöku sem miðast við árlegan mismun framlaga og fjárfestinga samkvæmt framkvæmda- og fjárstreymisáætlun, sem er í viðauka við samgöngusáttmálann, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Miðað er við að lántakan þurfi að rúmast innan heildarfjárfestingar vegna verkefnisins. Þá þarf félagið jafnframt að meta það hvort hagkvæmt er að ráðast í slíkar lántökur. Í ljósi þess að ríkissjóður býr við mjög hagstæð lánskjör er miðað við að ríkið hafi sérstaka heimild til að lána félaginu eða veita því ríkisábyrgð, sé lán tekið frá öðrum, til að tryggja að félagið njóti góðs af lánshæfi ríkissjóðs.
    Í 2. mgr. kemur fram að félaginu sé heimilt að stofna dótturfélög til að annast afmarkaða þætti af verkefnum félagsins sé það talið hagkvæmt eða skilvirkara fyrir uppbygginguna í heild sinni. Miðað er við að slík dótturfélög verði þá hluti af samstæðu félagsins og óheimilt sé að ráðstafa hlutum eða eignum slíkra félaga annað en til móðurfélagsins eða eigenda þess.
    Í 3. mgr. er kveðið sérstaklega á um að félaginu sé heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.

Um 9. gr.

    Í greininni er kveðið á um að félaginu skuli slitið þegar það hefur lokið verkefnum að fullu og þegar fullnaðaruppgjör hefur farið fram og öllum eignum þess ráðstafað. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á vegum félagsins nái yfir 15 ára tímabil. Ljóst er að félagið mun að öllum líkindum starfa lengur í tengslum við frágang á einstökum verkefnum og vegna uppgjörs við hluthafa.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s1277-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Framkvæmda- og fjárstreymisáætlun.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s1277-f_II.pdf