Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1281  —  739. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar
(hækkun vegna framfærsluskyldu).


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 34. gr. skal einstaklingur sem að öðrum skilyrðum ákvæðisins uppfylltum á rétt á 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum vegna framfærsluskyldu með hverju barni eiga rétt á 6% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum á tímabilinu frá 1. maí til og með 31. desember 2020.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til tímabundin breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar. Grunnatvinnuleysisbætur eru nú 289.510 kr. á mánuði. Með vísan til framfærsluskyldu hækka þær bætur samkvæmt lögunum með hverju barni um sem nemur 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum. Þannig bætast við 11.580 kr. á mánuði með hverju barni undir 18 ára aldri. Fólk á grunnatvinnuleysisbótum með fjögur börn á framfæri nær lágmarkslaunum, eða 335.000 kr. á mánuði, en þarf að framfleyta sér á fjárhæð sem er undir lágmarkslaunum þegar börnin eru færri en fjögur. Atvinnuleysisbætur eru of lágar og enginn getur séð fyrir fjölskyldu með þeim. Sérstaklega þarf að gæta að hag barna í svo slæmri stöðu.
    Samfylkingin hefur þegar lagt til að atvinnuleysisbætur hækki um krónutöluhækkun lægstu launa lífskjarasamningsins. Verði sú tillaga ekki samþykkt er afar mikilvægt að greiðsla hækki með börnum þeirra sem misst hafa vinnuna og þurfa að reiða sig á grunnatvinnuleysisbætur. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er hófleg. Í stað 11.580 kr. bætast við 17.370 kr. á mánuði með hverju barni við þá breytingu að viðbótin fari úr 4% í 6% af grunnatvinnuleysisbótum.
    Flutningsmenn leggja til að hækkunin sé til bráðabirgða til áramóta enda má gera ráð fyrir að með fjárlögum fyrir árið 2021 verði frekari breytingar á atvinnuleysisbótum til hækkunar og þá verði tækifæri til að endurskoða hlutfallsgreiðslur með börnum.