Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1287  —  741. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um birtingu upplýsinga um opinbera styrki og aðrar greiðslur í landbúnaði.


Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að birta opinberlega upplýsingar um styrki og aðrar greiðslur sem veitt eru á grundvelli búvörusamninga. Upplýsingarnar skulu birtar rafrænt og vera aðgengilegar öllum til uppflettingar án endurgjalds. Birtar skulu upplýsingar fyrir hvert ár um fjárhæð styrkja, grundvöll þeirra og nafn og búsetu styrkþega.
    Ráðherra geri tillögu að útfærslu og kynni fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2020.

Greinargerð.

    Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að tryggja gagnsæi í veitingu almannafjár til framleiðenda á sviði landbúnaðar. Erfitt hefur reynst fyrir hagsmunaaðila og almenning að nálgast upplýsingar um slíkar greiðslur að undanskilinni ósundurgreindri heildarfjárhæð í fjárlögum hvers árs. Er þar munur á greiðslum á grundvelli búvörusamninga og því sem almennt gildir um stuðning íslenska ríkisins við sjálfstæða atvinnurekendur.
    Fram kemur í 13. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að stjórnvöld skuli veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna, samantektum um mikilvæg verkefni eða útgáfu annarra gagna. Stjórnvöld skuli jafnframt vinna markvisst að því að gera gagnagrunna og skrár aðgengileg með rafrænum hætti. Slík hefur þó ekki verið framkvæmdin þegar kemur að upplýsingum um opinbera styrki og greiðslur til framleiðenda á sviði landbúnaðar.
    Margir hafa reynt að nálgast upplýsingar um greiðslur til framleiðenda í landbúnaði en ekki hlotið erindi sem erfiði. Í fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (407. mál) var óskað upplýsinga um greiðslur til hvers sauðfjárbús með yfir 200 ærgildi, sundurgreint eftir heiti þess, póstnúmeri, árum, tegund greiðslna og ærgildum. Í skriflegu svari ráðherra (þskj. 831) var ekki talið unnt að birta upplýsingarnar þar sem þær vörðuðu fjárhagsmálefni einstaklinga sem eðlilegt væri að leynt færu.
    Í úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamála í máli 876/2020, dags. 26. febrúar 2020, reyndi á sambærilegt álitaefni. Málsatvik voru þau að kærandi hafði óskað upplýsinga frá Matvælastofnun um heildargreiðslur til sauðfjárræktenda samkvæmt búvörusamningum þar sem ærgildi væru 500 eða fleiri. Matvælastofnun synjaði beiðninni með sama rökstuðningi og ráðherra. Í úrskurði nefndarinnar kom fram að um væri að ræða stuðningsgreiðslur úr opinberum sjóðum vegna reksturs þeirra sem almenningur hefur hagsmuni af að geta kynnt sér. Nefndin taldi upplýsingarnar ekki gefa slíka innsýn í fjármál styrkþega að það rynni stoðum undir að rétt væri víkja til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá var talið að birting upplýsinganna væru ekki þess eðlis að þær yllu viðkomandi lögbýlum tjóni.
    Framangreint styður við þær eðlilegu kröfur almennings að njóta aðgangs að ítarlegum upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna til atvinnuvega á Íslandi. Í flestum tilvikum birta stjórnvöld að eigin frumkvæði upplýsingar um opinbera styrki. Þar má nefna alla atvinnulífs-, rannsóknar- og menningarstyrki á vegum Rannís, listamannalaun og styrki á vegum verkefnisins Atvinnumál kvenna. Þá eru upplýsingar um stuðning til landbúnaðar opinberar og aðgengilegar á vef í nágrannalöndum okkar sem og innan Evrópusambandsins.
Flutningsmenn tillögunnar telja rétt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að gera upplýsingar um opinbera styrki og greiðslur í landbúnaði opnar og aðgengilegar öllum og án endurgjalds. Það er nauðsynlegt að upplýsingaréttur almennings sé tryggður og stuðlað sé að því að almenningur geti veitt stjórnvöldum aðhald þegar kemur að meðferð opinberra fjármuna. Að mati flutningsmanna hafa neytendur, skattgreiðendur og ekki síst bændur sjálfir heimtingu á því að þessar upplýsingar verði aðgengilegar og gagnsæjar. Með því er traust á atvinnugreininni aukið sem og gagnsæi í meðferð opinbers fjár.