Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1308  —  762. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

Flm.: Jón Þór Ólafsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason, Inga Sæland.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 1. júní 2021 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. júní 2021.
    Hafi uppboði verið lokið en boð ekki samþykkt fyrir gildistöku laga þessara er sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola að fengnu samþykki gerðarbeiðenda að fresta fram yfir 1. júní 2021 að taka afstöðu til boðsins.
    Tímabil sem nauðungarsölu er frestað skv. 1. mgr. skal undanskilið þeim fresti sem um ræðir í 2. mgr. 27. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta tekur mið af frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu) (232. mál, 143. löggjafarþing), sem var samþykkt sem lög nr. 130/2013. Tilefni frumvarpsins eru þær aðstæður sem eru í samfélaginu vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Á slíkum tímum, þegar framtíð heimilanna er óráðin og mörg þeirra kunna að þurfa að eiga við tímabundið tekjufall, er mikilvægt að tryggja einstaklingum og fjölskyldum ákveðið svigrúm til að geta brugðist við áhrifum faraldursins á skuldastöðu þeirra.
    Með frumvarpinu er lagt til að sýslumanni beri að fresta nauðungarsölu á fasteign fram yfir 1. júní 2021 fari gerðarþoli fram á slíkt, ef um ræðir fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Þá er lagt til að hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar skuli sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. júní 2021. Enn fremur er lagt til að í þeim tilvikum þar sem framhaldsuppboð hefur farið fram en samþykkisfresti er ekki lokið þá sé sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola að fengnu samþykki gerðarbeiðanda að fresta fram yfir 1. júní 2021 að tekin sé afstaða til málsins.
    Séu gerðarþolar fleiri en einn verður beiðni um frestun að koma frá þeim sameiginlega. Áskilið er að um sé að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags og byggingaryfirvalda, gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili. Þá er kveðið á um að það tímabil sem nauðungarsölu er frestað á þennan hátt teljist ekki til þess frests sem er kveðið á um í 2. mgr. 27. gr. laganna.