Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1320  —  596. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, með síðari breytingum (skýrsluskil o.fl.).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Erlu Sigríði Gestsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Önnu Lilju Oddsdóttur og Jón Ásgeir H. Þorvaldsson frá Orkustofnun, Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Stefán Karl Segatta frá Olíuverslun Íslands, Benedikt Stefánsson og Ingólf Guðmundsson frá Carbon Recycling International ehf., Magnús Ásgeirsson frá N1 hf. og Sigurjón Kjærnested frá Samorku. Nefndinni bárust umsagnir frá N1 hf., Samorku og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.
    Tilefni frumvarpsins er innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1513 frá 9. september 2015 um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Í 1. mgr. 3. gr. laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, er kveðið á um að söluaðila eldsneytis á Íslandi beri að tryggja að minnst 3,5% af orkugildi heildarsölu hans af eldsneyti til notkunar í samgöngum á öllu landinu á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Þá skal tryggt að minnst 5,0% af heildarorkugildi eldsneytis til notkunar í samgöngum á landi á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Í 2. mgr. er heimild til að telja visst endurnýjanlegt eldsneyti, sem unnið er úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum, tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis, til að uppfylla skilyrði 1. mgr.
    Með frumvarpinu er lagt til að fella brott 2. mgr. 3. gr. laganna og að ráðherra verði veitt heimild til að kveða á um í reglugerð hvaða tegundir endurnýjanlegs eldsneytis megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis. Við meðferð málsins kom fram að ásamt því að stuðla að auknum skýrleika væri mikilvægt að bregðast við þeirri tækniþróun sem orðið hefur á undanförnum árum og leitt hefur til þess að fjölbreyttara úrval endurnýjanlegs eldsneytis er komið á markað sem nýtist í fleiri ökutækjum en áður.
    Almennrar ánægju gætti með frumvarpið bæði í umsögnum og í máli gesta fyrir nefndinni. Í umsögn Samorku kemur fram að samtökin styðji framgang frumvarpsins. Jafnframt vekja samtökin máls á þeim tækifærum sem til staðar eru hér á landi til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti til að skipta út jarðefnaeldsneyti. Samtökin benda á að horfa þurfi til slíkra möguleika á næstu árum við lagasetningu og stefnumótun. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að stjórnvöld líti til möguleika á framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis hérlendis. Þá kom fram í umsögn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu að tilefni væri til að endurskoða ákvæði reglugerðar nr. 960/2016 samhliða frumvarpinu með það að markmiði að draga eins og mögulegt væri úr þeim kröfum sem gerðar eru til tilgreiningar upplýsinga um lífeldsneyti á sölustað. Í ljósi þess að um er að ræða tillögu að breytingu á reglugerð telur nefndin ekki rétt að taka afstöðu til slíkra breytinga að svo stöddu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Fyrirsögn frumvarpsins verði:
     Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013 (tegundir eldsneytis, gagnaskil).

Alþingi, 5. maí 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Jón Þór Ólafsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.