Ferill 773. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1325  —  773. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001 (innlögn atvinnuleyfis).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 5. mgr. 9. gr. laganna getur leigubifreiðastjóri lagt leyfið inn frá gildistöku þessara laga til 31. desember 2020.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um leigubifreiðar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum COVID-19-faraldursins. Útbreiðsla veirunnar hefur haft mikil áhrif á atvinnulífið og samfélagið allt og búast má við að þeirra áhrifa muni gæta áfram. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í rekstri leigubifreiða og ófyrirséð hve lengi sá samdráttur mun standa yfir. Samkvæmt lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001, geta leigubifreiðastjórar lagt inn atvinnuleyfi sitt en það skilyrði er sett að þeir verða að hafa nýtt leyfið í tvö ár samfellt eftir að þeir fengu það útgefið. Með því eru þeir sem undir þetta ákvæði falla settir í erfiða stöðu við þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru uppi vegna COVID-19-faraldursins. Með því að leggja inn leyfið geta bílstjórar sparað kostnað vegna atvinnuleyfisins, skráð sig atvinnulausa og sótt um atvinnuleysisbætur. Frumvarp þetta er lagt fram til að leigubifreiðastjórar sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en tvö ár geti lagt inn atvinnuleyfið og sótt um bætur sér til lífsviðurværis. Frumvarpið miðar að því að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum á þennan hóp leigubifreiðastjóra.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að leigubifreiðastjórar sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en tvö ár geti lagt leyfið inn. Lagt er til að sú ráðstöfun haldi gildi út árið 2020.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Samgöngustofu. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir hér á landi og erlendis eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir heimsfaraldri vegna kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum og þeirra efnahagsáhrifa sem þegar er farið að gæta vegna þessa hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrif frumvarpsins munu einkum koma fram hjá þeim leigubifreiðastjórum sem frumvarpið nær til. Frumvarpið mun gefa þeim hópi tækifæri til að bregðast við þeim samdrætti sem hefur orðið á leigubifreiðamarkaði vegna COVID-19.