Ferill 724. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1336  —  724. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 26/2020.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Það er ljóst að seinni aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar sem hér er til umræðu veldur þónokkrum vonbrigðum. Þau vonbrigði koma skýrt fram hjá ferðaþjónustunni, verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum og Öryrkjabandalaginu svo fáeinir séu nefndir. Fyrirhugaðar aðgerðir í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru því miður engan veginn nægjanlegar til að mæta því alvarlega ástandi sem blasir við íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

1.
    Umfang aðgerðanna er alls ekki í þeim mæli sem af er látið. Umræddur aðgerðapakki er ekki 60 milljarða kr. innspýting eins og ríkisstjórnin vildi að fyrirsagnirnar væru. Raunin er að af þessum 60 milljörðum kr. er 41 milljarður kr. lán sem þarf að endurgreiða með vöxtum, eins og á að gera með öll lán, eða frestun skattgreiðslna sem þarf einnig að standa skil af síðar. Sé hins vegar innspýtingin samkvæmt þessu frumvarpi til fjáraukalaga kemur í ljós að hin eiginlega viðbót er 13 milljarðar kr. Það er einungis rúmlega 1% aukning á ríkisútgjöldunum.

2.
    Þá vekur það mikla furðu að í 36 blaðsíðna glærupakka ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á heimilin. Það segir sína sögu. Þótt fólk vinni hjá fyrirtækjum þá er fólk ekki fyrirtæki og fyrirtæki eru ekki fólk. Það hefði því mátt tefla fram aðgerðum sem myndu mæta tekjutapi heimilanna. Húsnæðismálin eru sömuleiðis ekki nefnd á nafn í þessum aðgerðapakka.
    Alþýðusambandið lýsir í umsögn sinni verulegum vonbrigðum með að í aðgerðunum sé ekki að finna neinar tillögur til að tryggja afkomuöryggi þeirra hópa sem hafa fallið á milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum stjórnvalda, svo sem einstaklinga sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, óléttra kvenna, foreldra sem hafa misst úr vinnu vegna takmarkaðs leikskóla- og skólastarfs og launafólks sem starfar hjá fyrirtækjum sem samkvæmt fyrirmælum sóttvarnayfirvalda var gert að loka starfsemi sinni.

3.
    Mikil vonbrigði eru fólgin í þeirri staðreynd að ekki er gerð tillaga um neina hækkun atvinnuleysisbóta. Atvinnuleysisbætur nema 290.000 kr. og það stefnir jafnvel í að allt að einn fjórði af íslensku þjóðinni sé á leiðinni á atvinnuleysisbætur eða á hlutabætur. Af hverju eru atvinnuleysisbætur ekki hækkaðar í þessum pakka? Tekjur fólks með meðaltekjur munu lækka um meira en 50% eftir að tekjutengdum bótum sleppir.
    Þá ítrekaði ASÍ mikilvægi þess að atvinnuleysistryggingakerfið verði styrkt með hækkun bótafjárhæða, lengingu tímabils tekjutengingar, hækkun stuðnings vegna barna og bættri réttarstöðu námsmanna.

4.
    „Þetta er einhver versta hugmynd sem ég heyrt.“ Þetta sagði formaður Sjálfstæðisflokksins í andsvari við fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd í umræðu þegar hann stakk upp á því að fjölga hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, kennurum, skólaliðum, lögreglumönnum, barnaverndarfólki, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, vísindamönnum og fleiri opinberum starfsmönnum. Að mati Samfylkingarinnar er það góð hugmyndafræði og góð hagfræði að fjölga opinberum störfum, ekki síst í núverandi ástandi.
    Minni hluti fjárlaganefndar er ekki einn um þá skoðun. Þetta fannst Keynes líka, þekktasta hagfræðingi 20. aldar. Ekki hafði Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, heyrt frá Sjálfstæðismönnum fyrir næstum hundrað árum að þetta væri versta hugmynd sem hægt væri að hugsa sér til að bregðast við atvinnuleysi, þegar hann fjölgaði m.a. opinberum starfsmönnum til að bregðast við kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Fjölgun opinberra starfa hefur einnig jákvæð áhrif fyrir konur í landinu.
    Nú stefnir í að fjórða hvern Íslending vanti meiri vinnu og hefur sá fjöldi aldrei verið jafnmikill. Samhliða þessu þarf að fjölga og verja störf í einkageiranum og þar skiptir nýsköpun m.a. miklu máli. Fjölgun opinberra starfa er á valdi stjórnvalda en þau kjósa að fjölga þeim ekki og tala jafnvel um„verstu hugmynd“ allra tíma.
    Það er ágætt að rifja upp hvað opinber starfsmaður gerir fyrir fjármála- og efnahagsráðherra og allan almenning í landinu. Það er opinber starfsmaður sem tekur á móti þér þegar þú fæðist. Það er opinber starfsmaður sem kennir börnunum þínum. Það er opinber starfsmaður sem sér um þarfir fatlaðra og eldri borgara. Það er opinber starfsmaður sem er í framlínunni í viðbrögðum gegn heimsfaraldri. Það er líka opinber starfsmaður sem rannsakar jarðfræði landsins, vaktar snjóflóðahættu, hannar vegina sem þú keyrir, sígur úr þyrlu til að bjarga sjómanni, greiðir þér áunnar bætur og kemur í veg fyrir að á þér sé brotið sem neytanda en líka sem manneskju. Loks er það opinber starfsmaður sem hjúkrar þér á dánarbeði.
    Formaður Sjálfstæðisflokksins nefndi einnig í þessu sambandi að verðmætasköpunin ætti sér fyrst og fremst stað í einkageiranum. Það er einfaldlega rangt. Það er eins og sumir hægri menn átti sig ekki á að opinberir starfsmenn skapa einnig mjög mikil verðmæti og greiða skatta. Það er ekki síst vegna tilstillis opinberra starfsmanna að stór hluti af verðmætasköpun einkageirans getur átt sér stað.
    Einkafyrirtæki reiða sig á að opinberir starfsmenn kenni verðandi starfsmönnum einkageirans, hjúkri starfsmönnum þeirra og komi þeim aftur til vinnu í einkageiranum, byggi upp fjarskiptakerfi og samgönguæðar sem einkageirinn reiðir sig á, haldi uppi röð og reglu, verndi eignarrétt einkafyrirtækja, framfylgi samkeppnislögum svo að hinn stóri svíni ekki á hinum smáa, geri fríverslunarsamninga sem einkageirinn nýtir sér og svona mætti lengi telja. Við eigum ekki að sætta okkur endalaust við að hið opinbera kerfi og starfsmenn þess séu töluð niður af ákveðnum stjórnmálamönnum.
    Það er ekki síst á tímum neyðarástands, þegar einmitt skoðanabræður fjármála- og efnahagsráðherrans til hægri leita í faðm ríkisins og vilja aðstoð frá hinum opinberu starfsmönnum. Sumir hægri menn vilja líka haga hlutum þannig að þeir geti greitt sér arð fyrir að veita almenningi nauðsynlega þjónustu sem ríkið á síðan að borga fyrir.
    Kjarni málsins er þessi. Það er bæði samfélagslega og efnahagslega miklu skynsamlegra að fólk sé með atvinnu frekar en það sé á atvinnuleysisbótum. Við getum og eigum að fjölga opinberum störfum á sama tíma og við bætum þjónustuna við okkur sjálf, hvort sem það er aukin heilbrigðis- eða félagsþjónusta, bætt menntun, nýsköpun og löggæsla eða hvaðeina sem við reiðum okkur á. Við megum ekki og eigum ekki að láta hægri kreddu ráða hér ríkjum því hún er bæði óskynsamleg og kostnaðarsöm.

5.
    Þá hafa litlu fyrirtækin gleymst í þessum seinni aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Ekki síst þau sem eru í ferðaþjónustunni. Úrræðið sem gagnast litlu fyrirtækjunum helst er stuðningslán upp á allt að 6 millj. kr. Þetta er of lág fjárhæð og þetta nær til of fárra fyrirtækja.
    Það þarf því að setja meiri hugsun og kraft í það hvernig við mætum þessum litlu fyrirtækjum, ekki síst í ferðaþjónustunni, sem blæðir. Hvernig getum við hjálpað litlu ferðaþjónustufyrirtækjunum, veitingastöðunum og öðrum þjónustufyrirtækjum? Þetta eru ekki endilega fyrirtæki sem þurftu að hætta starfsemi vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda, því þetta eru fyrirtæki sem þurftu að hætta eða takmarka starfsemi sína vegna tekjufalls, vegna þess að viðskiptavinirnir komast ekki lengur til þeirra. Að niðurgreiða uppsagnir eins og lagt er til í þriðja aðgerðapakkanum er einfaldlega ekki nóg. Sá pakki er þó ekki til sérstakrar umræðu hér enda á þingið enn eftir að sjá útfærslu á honum.
    Hinir svokölluðu lokunarstyrkir upp á 2,5 milljarða kr. samkvæmt þessu frumvarpi til fjáraukalaga renna eingöngu til þeirrar starfsemi sem neyddist til að loka vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda.
    Minni hlutinn veltir þeirri hugmynd upp að láta lokunarstyrki ná til sjö sinnum fleiri fyrirtækja en ríkisstjórnin áætlar að gera. Ríkisstjórnin áætlar að veita 2.000 fyrirtækjum svokallaða lokunarstyrki og er heildarupphæðin um 2,5 milljarðar kr.
    Önnur 14.000 fyrirtæki fá einungis stuðningslánin samkvæmt fyrirætlunum þessarar ríkisstjórnar. Þetta eru lán sem þeim ber að sjálfsögðu að greiða til baka en einnig eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla til að þau get fengið þessi lán, m.a. 40% tekjutap milli ára o.s.frv. Þessi fyrirtæki þurftu mörg hver að loka eða takmarka starfsemi sína, m.a. vegna 2 m reglu sóttvarnayfirvalda. Þetta eru fyrirtæki sem einnig urðu fyrir umtalsverðu tekjutapi vegna ástandsins. Ef t.d. helmingur lokunarstyrkja, sem fyrirhugað var að veita hinum þrönga hóp fyrirtækja sem mátti ekki starfa vegna sóttvarnatilmæla, væri veittur þessum fyrirtækjum myndi það kosta ríkissjóð um 8 milljarða kr.
    Minni hlutinn ítrekar að þennan hóp fyrirtækja hefur ríkisstjórnin nú þegar afmarkað sem þau fyrirtæki sem eiga rétt á ríkistryggðum stuðningslánum. Því væri auðvelt að láta hina svokölluðu lokunarstyrki renna til viðbótar til þessara fyrirtækja.

6.
    Sé litið á hinar félagslegu aðgerðir í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sést að hann kostar 8,5 milljarða kr. Það er allt og sumt. Auðvitað fagnar minni hlutinn hverri krónu sem ríkisstjórnin setur í félagsmál, hvort sem það er geðrækt, aðgerðir gegn heimilisofbeldi eða annað, en það er allt of skammt gengið. Félagslegi pakkinn er lægri upphæð en lækkun veiðileyfagjalda verður á kjörtímabilinu hjá þessari ríkisstjórn.

7.
    Sé litið á verklegar framkvæmdir í þessum aðgerðapakka þá er það fljótgert því þær eru engar. Síðasti fjárfestingarpakki var orðinn of lítill áður en blekið á honum þornaði. Í svona ástandi skiptir svo miklu máli að hið opinbera auki eftirspurn sína eftir þjónustu og framkvæmdum. Því vekur það furðu að ekki sé meira gert.

8.
    Það fjármagn sem nýsköpunarmál fá er enn of lítið. Nýsköpun er töfraorðið í kreppu. Sjóðurinn Kría fær fjármuni en það er of lítið. Auknir fjármunir í rannsóknasjóði og nýsköpunarsjóði skila sér margfalt til baka. Af hverju er t.d. ekki sett enn meira fjármagn í Tækniþróunarsjóð, eða meira í Kvikmyndasjóð, en til stendur?

9.
    Í aðgerðapakkanum er bætt aðeins í listamannalaunin og er það fagnaðarefni. Hins vegar er viðbótin einungis 100 listamenn til sex mánaða. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd hefur lagt til að fjöldi listamanna á listamannalaunum verði frekar tífaldur eða aukinn um meira en 3.000 manns. Nú eru um 3.500 sjálfstætt starfandi listamenn sem eru ekki á föstum launum og er starfsemi þeirra í frosti, m.a. vegna tilmæla frá hinu opinbera. Af hverju er skárra að hafa listamann á atvinnuleysisbótum en listamannalaunum? Þessi tillaga myndi kosta jafnmikið og 1%-stig í atvinnuleysi. Þá er nauðsynlegt að huga betur að íþróttahreyfingunni vegna ástandsins.

10.
    Svo eru fjölmiðlarnir. Í nefndinni var tekist á um hvort 350 millj. kr. stuðningurinn við frjálsa fjölmiðla sem kynntur var í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar væri viðbót við þær 400 millj. kr. sem nú þegar hafði verið ákveðið að verja til fjölmiðla eða ekki. Svarið olli miklum vonbrigðum. Því þetta er ekki viðbótarstuðningur heldur myndi 350 millj. kr. stuðningur koma í staðinn fyrir 400 millj. kr. ef hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp kæmist ekki úr nefnd. Jafnframt kom fram á fundi nefndarinnar að fjölmiðlafrumvarpið yrði ekki afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd, sem verður að teljast mikil tíðindi.
    Fjármála- og efnahagsráðherra sagði skýrt að það þyrfti að taka sérstaka ákvörðun ef ætti að setja samanlagt 750 millj. kr. til fjölmiðla. Í fjáraukalagafrumvarpinu eru því 0 kr. til viðbótar til fjölmiðla. Í öllu þessu ástandi stendur því til að lækka fyrirhugaðan stuðning til fjölmiðla um 50 millj. kr.

11.
    Gæta þarf miklu betur að hagsmunum sveitarfélaga í þeim aðgerðum sem ráðist er í. Sveitarfélögin sjá um nærþjónustu sem er almenningi mikilvæg. Það verður að viðurkennast að hlutur sveitarfélaga er ansi rýr í þessum aðgerðum ríkisins. Sveitarfélögin áætla að tekjutap þeirra geti numið 50 milljörðum kr. og setur slík staða öll uppbyggingaráform sveitarfélaga í uppnám.

12.
    Afar sérstakt var að í upphaflega frumvarpinu var ekki sett króna til heilbrigðisstofnana vegna COVID-faraldursins en það er ljóst þær hafa orðið fyrir miklum kostnaði vegna aukins álags. Sá kostnaður var a.m.k. metinn á yfir 3,5 milljarða kr. þegar nefndin kallaði eftir þeim upplýsingum.

13.
    Það þarf sérstaklega að gæta að stöðu einstakra hópa hvort sem það eru öryrkjar, eldri borgarar, leigjendur eða námsmenn. Þá er það sérstaklega ámælisvert hversu lítið er gert fyrir ákveðnar kvennastéttir og má þar t.d. nefna átakið „Allir vinna“ sem er mjög karllægt. Sú endurgreiðsla á virðisaukaskatti sem felst í átakinu þyrfti einnig að ná til hönnuða, hárgreiðslustofa, snyrtistofa, sauma- og viðgerðarþjónustu líkt og meiri hlutinn bætti bifreiðaverkstæðum við í síðasta fjárauka. Rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta þarf að tryggja.
    Sömuleiðis var athygli nefndarinnar vakin á stöðu SÁÁ, Geðhjálpar og Hugarafls sem minni hluti fjárlaganefndar vill að sérstaklega sé hugað að með auknum fjárstuðningi. Það er hægt að bæta líðan landsmanna verulega með því að hlúa að þessum hópum með fjárveitingum í fjárlögum og fjáraukalögum.

14.
    Að lokum vill minni hlutinn nefna það sem er þó jákvætt í frumvarpinu. Því má fagna að nú fær fólkið í framlínunni í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni álagsgreiðslur (þótt þær mættu vera hærri) en minni hlutinn minnir á að mjög stutt er síðan stjórnarmeirihlutinn felldi slíka tillögu í þingsalnum. Mikilvægt er að þessi álagsgreiðsla nái til víðtæks hóps sem hefur staðið vaktina í þessum heimsfaraldri.
    Aðrar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við síðasta aðgerðapakka, svo sem um hækkun endurgreiðslu þróunarkostnaðar, fjármagn til fjölskyldna langveikra barna, aukinn stuðningur við grænmetisframleiðslu og nýsköpun hafa nú ratað inn og er það gott. Einnig eru aðgerðir vegna námsmanna jákvæðar en meira þarf til.

15.
    Djúpt í greinargerðinni með þessu frumvarpi til fjárauka segir: „Við lausn bráðavandans má ekki missa sjónar á því að á komandi árum mun þurfa að brúa framkomið misvægi tekna og útgjalda ríkissjóðs og bæta skuldastöðuna jafnt og þétt þar til hún verður orðin hófleg að nýju.“
    Í þessari setningu má lesa að eftir að við erum komin út úr þessu neyðarástandi er stefnt að niðurskurði. Þessi setning í frumvarpinu þýðir það á mannamáli. Samfylkingin sættir sig ekki við að hin opinbera þjónusta, sem er svo mikilvæg fyrir fólkið í landinu, verði látin taka höggið þegar hlutirnir hafa jafnað sig.
    Það er hvorki ásættanlegt að láta hjúkrunarfræðinga, kennara, skólaliða, sjúkraliða eða aðra opinbera starfsmenn né þá sem njóta opinberrar þjónustu, svo sem eldri borgara, öryrkja, sjúklinga, nemendur og börn, greiða fyrir aðgerðirnar sem ráðist er í nú til að mæta þessu hruni.

5. maí 2020.

Ágúst Ólafur Ágústsson.