Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1363  —  608. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum (sóttvarna- og einangrunarstöðvar).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur og Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Hrund Hólm frá Matvælastofnun, Guðmund Jóhann Árnason frá Skattinum, Herdísi Hallmarsdóttur frá Hundaræktarfélagi Íslands og Guðfinnu Kristinsdóttur og Hallgerði Hauksdóttur frá Dýraverndarsambandi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hundaræktarfélagi Íslands og Skattinum. Þá barst nefndinni minnisblað frá Matvælastofnun.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að Matvælastofnun hafi fullnægjandi úrræði til að framfylgja lögbundnum skyldum sínum við að hefta útbreiðslu dýrasjúkdóma í landinu. Með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á fyrirkomulagi einangrunar dýra og aðgengi Matvælastofnunar að innfluttum dýrum sem eru í einangrun. Þá er lagt til að innflytjendum dýra verði gefinn kostur á að senda dýr úr landi í þeim tilvikum þegar innflutningur er óheimill eða þau sleppa frá flutningsförum í stað þess að þeim sé tafarlaust lógað. Brýnt þótti að gæta meðalhófs í slíkum tilfellum sem var ekki nægilega gætt í lögunum áður.
    Í minnisblaði Matvælastofnunar kom fram að stofnunin teldi ólíklegt að aukning yrði í ólöglegum innflutningi. Vísaði stofnunin í því sambandi til nýlegrar reglugerðar nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta. Eitt þeirra nýju skilyrða fyrir innflutningi sem uppfylla skal er að vottorðið sé áritað af opinberum dýralækni, þ.e. dýralæknayfirvöldum í viðkomandi útflutningslandi. Ætla má að slíkt fyrirkomulag dragi úr líkum á því að lögð verði fram fölsuð gögn og þar með verði jafnvel ólíklegra að dýr sem ekki uppfylla skilyrði reglugerða þar að lútandi verði flutt til landsins.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að meðalhófs sé gætt við ákvarðanir sem teknar eru og að velferð dýra sé tryggð samkvæmt lögum. Margt hefur breyst í innflutningi dýra frá því að lögin voru sett fyrir þrjátíu árum og eðlilegt að ákvæði þeirra séu reglulega tekin til skoðunar í takt við breytta tíma.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „þau send“ í 4. málsl. 1. efnismgr. 1. gr. komi: komið.
     2.      Orðin „1. mgr.“ í inngangsmálsgrein 2. gr. falli brott.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað orðanna „fella dýr“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: lóga dýrum.
                  b.      Á eftir orðunum „rétt á bótum úr ríkissjóði fyrir dýr“ í 1. málsl. 2. efnismgr. komi: sem þarf að lóga.
     4.      4. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson skrifa undir nefndarálit þetta með þeim fyrirvara að það sé gert í trausti þess að milli 2. og 3. umræðu komi fyrir nefndina sérfræðingar sem staðfest geti að með samþykkt frumvarpsins sé í engu ógnað smit- og sóttvörnum vegna innflutnings dýra.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 7. maí 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson,
með fyrirvara.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigurður Páll Jónsson,
með fyrirvara.