Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1367  —  362. mál.
3. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um málið að nýju. Nefndin hefur fengið á sinn fund Önnu Lúðvíksdóttur, Birnu Guðmundsdóttur og Bryndísi Bjarnadóttur frá Amnesty International og Odd Þorra Viðarsson frá forsætisráðuneytinu. Umsögn barst frá Amnesty International.

Skilyrðið um góða trú.
    Í umsögn Amnesty International var aðallega gerð athugasemd við notkun hugtaksins „góð trú“ sem eitt skilyrði fyrir verndinni sem frumvarpið mælir fyrir um. Samtökin telja að orðalagið geti verið umdeilt og að notkun þess geti leitt til þess að sjónir beinist aðallega að hvötum uppljóstrara og ásetningi að baki uppljóstruninni í stað efnislegs inntaks upplýsinganna sem ljóstrað var upp um.
    Meiri hlutinn bendir á að sambærilegar athugasemdir komu fram við meðferð málsins á fyrri stigum og hefur meiri hlutinn bent á að í hugtakinu „góð trú“ felist í meginatriðum að starfsmaður hafi haft góða ástæður til að telja þær upplýsingar sem hann miðlar sannar, en jafnframt að hann hafi talið í þágu almennings að miðla þeim og að hann hafi ekki átt annan kost til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi. Þá bendir meiri hlutinn enn fremur á að flestar umsagnir framangreinds eðlis virðast vera til komnar vegna kafla 2.2. í greinargerð með frumvarpinu sem ráðuneytið áréttaði í umsögn sinni að væri ekki í samræmi við efnisatriði frumvarpsins og fjallað var um í fyrra nefndaráliti meiri hlutans við málið. Meiri hlutinn telur þrátt fyrir framangreint að skynsamlegt sé að taka af allan vafa og leggur því til að við 1. mgr. 1. gr. verði bætt skilgreiningu á skilyrðinu um góða trú. Þá skilgreiningu skuli jafnframt leggja til grundvallar við túlkun skilyrðisins í öðrum ákvæðum laganna.
    Einnig var við meðferð málsins lagt til að hugtakið góð trú yrði fellt brott úr ákvæðum frumvarpsins og í staðinn yrði inntak þess skýrt. Meiri hlutinn leggur, líkt og áður segir, til að skýringu á inntaki hugtaksins verði bætt við lögin en telur ekki tilefni til að fella hugtakið sjálft úr lögunum. Því til stuðnings vísar meiri hlutinn til þess að skilyrðið um góða trú sé viðtekið í íslenskum rétti og er til að mynda rótgróið í gildandi ákvæðum um uppljóstraravernd á Íslandi. Meiri hlutinn telur því ekki að skilyrðið sé til þess fallið að valda vafa í dómaframkvæmd. Jafnframt gengur frumvarpið, greinargerð og skýringar við einstök ákvæði út frá því að góð trú sé skilyrði fyrir vernd en með því að fjarlægja það úr ákvæðum frumvarpsins yrði ákveðið samhengisleysi milli greinargerðar og ákvæðanna að þessu leyti.

Hugtakið starfsmaður, vernd tengdra aðila og vernd gegn líkamlegum skaða eða áreitni.
    Í umsögn Amnesty International kom jafnframt fram að rýmka þyrfti frekar skilgreiningu 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins á hugtakinu starfsmenn og lögðu samtökin til að skilgreiningunni yrði breytt á þann hátt að hún næði til einstaklinga utan hefðbundins vinnusambands starfsmanns og vinnuveitanda. Meiri hlutinn hefur tekið athugasemd samtakanna til skoðunar og bendir á að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar í fyrra nefndaráliti tekur einnig til þeirra hópa sem samtökin telja að verndin skuli ná yfir en þar er lagt til að starfsmaður í skilningi laganna teljist sá sem hefur aðgang að upplýsingum eða gögnum um starfsemi vinnuveitanda vegna hlutverks síns, þ.m.t. ráðinn, settur, skipaður, sjálfstætt starfandi verktaki, stjórnarmaður, starfsnemi, tímabundinn starfsmaður og sjálfboðaliði.
    Samtökin lögðu enn fremur til að vernd samkvæmt frumvarpinu og gegn hefnd skyldi ekki takmarkast við uppljóstrara heldur ætti hún einnig að ná til annarra tengdra einstaklinga. Meiri hlutinn áréttar að vernd uppljóstrara samkvæmt frumvarpinu felur aðallega í sér að þeir beri ekki refsi- eða skaðabótaábyrgð vegna miðlunar upplýsinganna, sem og vernd gegn óréttlátri meðferð vinnuveitanda. Þá bendir meiri hlutinn á að einstaklingar sem aðstoða við uppljóstrun eða veita upplýsingar til stuðnings uppljóstrunar geta notið verndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, að öðrum skilyrðum uppfylltum, séu þeir þátttakendur í að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum.
    Að lokum bentu samtökin á að vernda beri uppljóstrara sem og ætlaða uppljóstrara auk tengdra einstaklinga fyrir hefndaraðgerðum, ógnunum, áreitni, hótunum, árásum og annars konar líkamlegum skaða. Meiri hlutinn bendir á að framangreindir verknaðir eru refsiverðir samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, og njóta allir einstaklingar verndar gegn slíku óháð uppljóstrunum.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Með góðri trú er átt við að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar sem miðlað er réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir.

Alþingi, 8. maí 2020.

Páll Magnússon,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.