Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1407  —  608. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum
(sóttvarna- og einangrunarstöðvar).


(Eftir 2. umræðu, 12. maí.)


1. gr.

    Í stað 5. mgr. 2. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Dýrum, sem eru flutt inn án heimildar eða sleppa úr flutningsförum, skal tafarlaust lógað og fargað bótalaust á kostnað umráðanda svo eigi stafi hætta af. Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað. Umráðamaður dýrs skal þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Eggjum, sæði eða fósturvísum skal á sama hátt eytt eða komið úr landi á kostnað innflytjanda, svo og dýrum sem sædd kunna að hafa verið eða notuð sem fósturmæður og afkvæmum sem kunna að hafa fæðst eftir ólögmætan innflutning.
    Innflutningi samkvæmt lögum þessum telst lokið þegar öll skilyrði innflutnings hafa verið uppfyllt að mati Matvælastofnunar.

2. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni er heimilt að starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Stöðvarnar skulu hafa leyfi til reksturs og lúta eftirliti Matvælastofnunar. Ráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, hvaða kröfur skuli gerðar til sóttvarna- og einangrunarstöðva. Matvælastofnun getur heimilað innflytjendum að annast einangrun einstakra dýra í þeirra eigu, að uppfylltum skilyrðum um smitvarnir og aðbúnað sem sett eru og undir eftirliti Matvælastofnunar.

3. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur, óeðlileg eða óútskýrð afföll eða ef rökstuddur grunur er um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð er Matvælastofnun heimilt að gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að útrýma sjúkdómi eða hindra útbreiðslu hans og til að afstýra hættu og tjóni, m.a. lóga dýrum ef nauðsyn krefur og gera ráðstafanir til að stöðva dreifingu erfðaefnis. Sama á við um heimasóttkví. Rekstraraðili sóttvarna- eða einangrunarstöðvar ber allan kostnað af slíkum aðgerðum og er skylt að hlíta fyrirmælum Matvælastofnunar.
    Innflytjendur eiga ekki rétt á bótum úr ríkissjóði fyrir dýr sem þarf að lóga eða erfðaefni sem eyða þarf vegna slíkra aðgerða. Sama á við um eigendur dýra sem eru í heimasóttkví.
    Hlíti rekstraraðili eða eigandi ekki fyrirmælum Matvælastofnunar skulu aðgerðir skv. 1. og 2. mgr. framkvæmdar með aðstoð lögreglu. Sé um heimasóttkví að ræða er þó ekki heimilt að fara í þessum tilgangi í íbúðarhús, útihús eða aðra viðlíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði. Fylgja skal ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.