Ferill 813. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1427  —  813. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (framlenging hlutabótaleiðar).

Frá félags- og barnamálaráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XIII í lögunum:
     a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr.:
                  1.      Á eftir fyrri málslið kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir framangreint skal launamaður halda að lágmarki 50% starfshlutfalli frá og með 1. júlí 2020.
                  2.      Í stað orðsins „Atvinnurekanda“ í síðari málslið kemur: Vinnuveitanda.
                  3.      Við bætist nýr málsliður ásamt fjórum nýjum stafliðum, svohljóðandi: Með tímabundnum samdrætti í starfsemi vinnuveitanda er átt við að meðaltal mánaðartekna vinnuveitanda frá 1. mars 2020 og til þess dags er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu, eða staðfestir hjá Vinnumálastofnun áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, hafi dregist saman um a.m.k. 25% í samanburði við eitt af eftirtöldum tímabilum:
                      a.      meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið 2019,
                      b.      meðaltal mánaðartekna frá 1. júní 2019 til 31. ágúst 2019,
                      c.      meðaltal mánaðartekna frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 eða
                      d.      meðaltal mánaðartekna frá 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020.
     b.      Á eftir 3. málsl. 2. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Launamanni er þó heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði tekjuárið 2019. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á fyrrnefndu þriggja mánaða tímabili, eða á þriggja mánaða viðmiðunartímabili skv. 6. málsl., sem meðaltal heildarlauna skal miðast við, er launamanni heimilt að óska eftir að tekið verði mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við. Hafi launamaður verið í foreldraorlofi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, á þriggja mánaða viðmiðunartímabilinu, sbr. 3. málsl., er launamanni heimilt að óska eftir að tekið verði mið af meðaltali heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en viðkomandi hóf töku foreldraorlofs. Í slíkum tilvikum er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir tilkynningu frá vinnuveitanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, um tilhögun foreldraorlofs viðkomandi launamanns.
     c.      Á eftir 5. mgr. koma átta nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Þeir launamenn sem nýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skulu staðfesta hjá Vinnumálastofnun fyrir 10. júní 2020 áframhaldandi nýtingu á þeim rétti.
                      Um leið og launamenn staðfesta hjá Vinnumálastofnun áframhaldandi nýtingu á rétti samkvæmt ákvæðinu skal vinnuveitandi staðfesta að skilyrði 1. mgr. um samdrátt í starfsemi vinnuveitanda séu uppfyllt og að hann hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða staðfestir áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, sbr. 6. mgr. Jafnframt skal vinnuveitandi staðfesta að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, síðastliðin þrjú ár, eftir því sem við á. Þá skal vinnuveitandi staðfesta að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf, inna af hendi aðra greiðslu til eigenda á grundvelli eignaraðildar þeirra, greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga, veita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins, eftir því sem við á. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Hið sama á við varðandi staðfestingu vinnuveitanda, sbr. framangreint, sæki launamaður í fyrsta skipti um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020.
                      Vinnumálastofnun er heimilt að krefjast nánari staðfestingar eða gagna frá vinnuveitanda um framangreind atriði, sbr. 7. mgr., svo sem samdrátt í starfsemi, og er vinnuveitanda skylt að verða við slíkri kröfu tafarlaust. Komi til þess á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 að vinnuveitandi uppfyllir ekki lengur skyldur skv. 7. mgr. skal hann endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi.
                      Leiði skoðun í ljós að framangreind skilyrði skv. 7. mgr., svo sem um samdrátt í starfsemi vinnuveitanda, hafi ekki verið uppfyllt eða ef vinnuveitandi afhendir ekki nánari staðfestingu eða gögn samkvæmt beiðni Vinnumálastofnunar er stofnuninni heimilt að krefja viðkomandi vinnuveitanda um endurgreiðslu þeirra atvinnuleysisbóta sem launamenn hans hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi hafi vinnuveitandinn ekki þegar endurgreitt bæturnar, sbr. 8. mgr.
                      Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu atvinnuleysisbóta sem launamenn vinnuveitanda hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020, sbr. 8. og 9. mgr., eru aðfararhæfar.
                      Einstaklingur eða lögaðili sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði skv. 7. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar.
                      Þeir launamenn sem nýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skulu staðfesta hjá Vinnumálastofnun breytt starfshlutfall fyrir 1. júlí 2020 hafi þeir í hyggju að nýta þann rétt eftir 1. júlí 2020.
                      Vinnumálastofnun er heimilt að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur launamanna sem fá greitt samkvæmt ákvæðinu.
     d.      7. mgr., sem verður 15. mgr., orðast svo:
                      Ákvæði þetta gildir frá og með 1. júní 2020 og fellur úr gildi 1. september 2020.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 15. mgr. skal 4.–7. málsl. 2. mgr. gilda frá og með 15. mars 2020 til og með 31. ágúst 2020.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XIV í lögunum:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 32. gr. skulu sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu á tímabilinu 15. mars 2020 til 31. maí 2020 öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2020 að öðrum skilyrðum uppfylltum.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                      Ákvæði þetta gildir frá og með 1. júní 2020 og fellur úr gildi 1. september 2020.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum.

3. gr.

    3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Ákvæði þetta gildir frá og með 1. júní 2020 og fellur úr gildi 1. september 2020.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu en í því eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa. Breytingarnar fela meðal annars í sér framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem og framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og frumvarpi dómsmálaráðherra um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þess að frumvarpið er lagt fram er að 20. mars síðastliðinn voru samþykkt á Alþingi lög nr. 23/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall). Lög þessi voru meðal annars sett til að bregðast við þeim breyttu aðstæðum sem ríkja á íslenskum vinnumarkaði vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum en markmið þeirra var meðal annars að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þrátt fyrir tímabundnar þrengingar á vinnumarkaði.
    Ljóst er að frá því að kórónuveiran barst til Íslands hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu, þ.m.t. flugrekstri, meðal annars vegna ferðatakmarkana sem tekið hafa gildi með lokun landamæra margra ríkja og skyldu einstaklinga til að sæta sóttkví í tiltekinn tíma komi þeir frá öðrum ríkjum. Jafnframt hefur orðið samdráttur í ýmsum greinum sem tengjast ferðaþjónustu en sem dæmi má nefna veitinga- og þjónustugreinar.
    Til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar hefur heilbrigðisráðherra virkjað heimildir sóttvarnalaga, nr. 19/1997, að fengnum tillögum sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, til að setja reglur um tímabundna takmörkun á samkomum. Hinn 16. mars síðastliðinn tóku í fyrsta sinn gildi reglur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar, sbr. auglýsingu nr. 217/2020, en reglurnar fólu meðal annars í sér að bannaðir voru skipulagðir viðburðir þar sem fleiri en 100 einstaklingar kæmu saman, auk þess sem ávallt þarf að tryggja að fjarlægð á milli einstaklinga sé í það minnsta tveir metrar. Ljóst er að þessar takmarkanir hafa haft veruleg áhrif á innlendan vinnumarkað. Í kjölfarið tók við hert samkomubann 24. mars 2020, sbr. auglýsingu nr. 243/2020, þar sem einungis 20 einstaklingum var heimilað að koma saman í stað 100 áður auk þess sem ákveðið var að sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, söfnum og skemmtistöðum yrði lokað sem og allri starfsemi sem krefðist innan við tveggja metra nálægðar einstaklinga. Hert samkomubann hafði þar af leiðandi í för með sér að ýmiss konar starfsemi, ótengd ferðaþjónustu, varð óheimil, svo sem starfsemi tannlæknastofa, sjúkraþjálfarastofa, nuddstofa, hárgreiðslu- og snyrtistofa og önnur sambærileg starfsemi. Hinn 4. maí síðastliðinn tóku gildi nýjar reglur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar sem munu gilda til 1. júní næstkomandi, sbr. auglýsingu nr. 360/2020, en þær fela í sér tilslökun á fyrri reglum. Hefur það orðið til þess að ýmiss konar starfsemi hefur komist í eðlilegt horf á ný þar sem fjöldatakmarkanir miðast nú við 50 manns í stað 20 og starfsemi sem áður var gerð óheimil varð heimil að nýju og undanskilin tveggja metra reglu. Fyrir vikið hefur launafólk, sem starfaði hjá vinnuveitendum sem gert var að loka starfsemi sinni í fyrra samkomubanni og minnkuðu því starfshlutfall sitt samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta, farið í fullt starfshlutfall að nýju. Stjórnvöld munu endurmeta þörf á þeim takmörkunum sem gilt hafa eftir því sem efni standa til, svo sem hvort unnt verði að aflétta framangreindum takmörkunum fyrr en áætlað er eða hvort þörf verði á að framlengja gildistíma þeirra.
    Tilefni þess að frumvarp þetta er lagt fram má einnig rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 28. apríl 2020 um stuðning við launafólk og fyrirtæki með það að markmiði að draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot vegna kórónuveirunnar geta valdið með því að standa vörð um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verði að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar kemur meðal annars fram að greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli verði haldið áfram en sú heimild myndi að óbreyttu falla úr gildi 1. júní 2020, sbr. lög nr. 23/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall). Jafnframt kemur fram í framangreindri samþykkt að afkoma tugþúsunda launafólks hafi verið varin frá því að úrræðið um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli tók gildi en leiða má að því líkur að efnahagshorfur hafi breyst umtalsvert til hins verra á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá gildistöku laganna. Ljóst er að tímabundnar þrengingar á vinnumarkaði hafa orðið umfangsmeiri og kunna að vara í lengri tíma en gert var ráð fyrir þegar framangreind lög nr. 23/2020 voru sett og því þykir mikilvægt að framlengja heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1 Framlenging ákvæða til bráðabirgða sem sett voru með lögum nr. 23/2020.
    Lög nr. 23/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, voru meðal annars sett til að bregðast við þeim breyttu aðstæðum sem ríkja á íslenskum vinnumarkaði vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Markmið þeirra laga var meðal annars að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þrátt fyrir tímabundnar þrengingar á vinnumarkaði. Með lögunum var tveimur ákvæðum til bráðabirgða bætt við lög um atvinnuleysistryggingar og einu ákvæði til bráðabirgða við lög um Ábyrgðasjóð launa. Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabilið sem framangreind ákvæði til bráðabirgða taka til verði framlengt þannig að ákvæðin gildi áfram frá og með 1. júní 2020 og falli úr gildi 1. september 2020 með nánar tilgreindum breytingum. Gildandi lög gera hins vegar ráð fyrir að ákvæðin falli úr gildi 1. júní 2020.

3.2 Skilyrði um 25% samdrátt í starfsemi vinnuveitanda.
    Lagt er til að gerð verði breyting á ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar þannig að skýrt verði kveðið á um að með tímabundnum samdrætti í starfsemi vinnuveitanda sé átt við að meðaltal mánaðartekna vinnuveitanda frá 1. mars 2020 og til þess dags er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu, eða staðfestir hjá Vinnumálastofnun áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, hafi dregist saman um a.m.k. 25% í samanburði við eitt af fjórum nánar tilgreindum tímabilum.

3.3 Skilyrði um 50% starfshlutfall frá og með 1. júlí 2020.
    Lagt er til að frá og með 1. júlí 2020 til og með 31. ágúst 2020 skuli launamaður sem fær greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar halda að lágmarki 50% starfshlutfalli.

3.4 Viðmiðunartekjur.
    Lögð er til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar að launamanni verði heimilt að óska eftir að við útreikning á fjárhæð atvinnuleysisbóta verði miðað við mánaðarleg meðallaun tekjuársins 2019 í stað þess að miðað sé við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við hafi launamaður fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því þriggja mánaða tímabili sem líta skal til þegar finna á út meðaltal heildarlauna. Hafi launamaður verið í foreldraorlofi á því þriggja mánaða tímabili sem líta skal til þegar finna á út meðaltal heildarlauna er jafnframt gert ráð fyrir að launamaður geti óskað eftir að litið verði til þriggja mánaða tímabils áður en viðkomandi hóf töku foreldraorlofs.

3.5 Frestur til að staðfesta áframhaldandi nýtingu.
    Gert er ráð fyrir að launamenn sem hafa nýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu skuli staðfesta hjá Vinnumálastofnun fyrir 10. júní 2020 áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu. Þá er lagt til að þeir launamenn sem nýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu skuli staðfesta hjá Vinnumálastofnun breytt starfshlutfall fyrir 1. júlí 2020 hafi þeir í hyggju að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu eftir 1. júlí 2020.

3.6 Auknar heimildir Vinnumálastofnunar til gagnaöflunar og viðurlög við brotum.
    Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að krefjast nánari staðfestingar eða gagna frá vinnuveitanda um að skilyrði hvað varðar starfsemi hans séu uppfyllt vegna umsóknar launamanns hans um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar og að vinnuveitanda verði skylt að verða við slíkri kröfu tafarlaust. Þá er lagt til að leiði skoðun í ljós að skilyrðið hafi ekki verið uppfyllt, eða gögn eru ekki afhent samkvæmt beiðni, verði Vinnumálastofnun heimilt að krefja viðkomandi vinnuveitanda um endurgreiðslu þeirra atvinnuleysisbóta sem greiddar hafa verið starfsfólki hans á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi. Enn fremur er lagt til að einstaklingar eða lögaðilar sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veita Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar, svo sem um samdrátt í rekstri, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar.

3.7 Aukin skilyrði sett hvað varðar starfsemi vinnuveitenda.
    Lagt er til að um leið og launamaður staðfestir áframhaldandi nýtingu á rétti sínum samkvæmt ákvæðinu skuli vinnuveitandi staðfesta að tiltekin skilyrði hvað varaðar starfsemi hans séu uppfyllt, svo sem að hann hafi staðið í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða staðfestir áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til bóta samkvæmt ákvæðinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 og hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, síðastliðin þrjú ár, eftir því sem við á.
    Þá er gert ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf, inna af hendi aðra greiðslu til eigenda á grundvelli eignaraðildar þeirra, greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga, veita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins, eftir því sem við á. Loks er gert ráð fyrir að hið sama eigi við varðandi staðfestingu vinnuveitanda sæki launamaður í fyrsta skipti um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2020.

3.8 Heimild Vinnumálastofnunar til að birta lista yfir vinnuveitendur.
    Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur launafólks sem fær greitt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar.

3.9 Lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Sú breyting er lögð til á ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um atvinnuleysistryggingar að sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu á tímabilinu 15. mars 2020 til 31. maí 2020 öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að öðrum skilyrðum uppfylltum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirra þrenginga sem eru á vinnumarkaði vegna kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi. Frumvarpið hefur þó verið unnið í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands.

6. Mat á áhrifum.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu fela meðal annars í sér framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda sem og framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri. Mat á mögulegum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs, verði frumvarpið óbreytt að lögum, byggist meðal annars á mögulegri þróun fjölda umsækjenda um umræddar atvinnuleysisbætur en erfitt er að spá fyrir um hver sú þróun verður. Ljóst er að í frumvarpinu eru lögð til þrengri skilyrði hvað varðar starfsemi vinnuveitenda en kveðið er á um í lögum nr. 23/2020. Jafnframt er ýmis starfsemi sem lá tímabundið niðri vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum komin í fyrra horf auk þess sem slakað hefur verið á kröfum í tengslum við samkomubann sem verið hefur í gildi. Með vísan til framangreinds má ætla að færri launamenn muni nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli en hafa gert það á grundvelli laga nr. 23/2020. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur launamönnum sem fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði samhliða minnkuðu starfshlutfalli farið fækkandi og var talan komin niður í um 29 þúsund einstaklinga um miðjan maí 2020 en um var að ræða rúmlega 36.000 einstaklinga þegar mest var. Enn fremur má ætla að hluti þeirra fyrirtækja sem gert hafa samning við starfsmenn sína um minnkað starfshlutfall muni segja starfsfólki upp störfum þar sem starfsemi þeirra uppfyllir ekki þau skilyrði sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir í tengslum við starfsemina. Að teknu tilliti til alls framangreinds má gera ráð fyrir að fjöldi einstaklinga sem sækja mun um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á gildistíma frumvarpsins verði á bilinu 20 til 25 þúsund og áætlaður kostnaður við lengingu úrræðisins því frá 12,9 ma.kr. til 16,1 ma.kr.
    Markmið frumvarpsins er að aðstoða fyrirtæki við að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þrátt fyrir tímabundnar þrengingar á vinnumarkaði. Sem slíkt hefur frumvarpið jákvæð áhrif á erfiðum tímum og bein áhrif á lýðheilsu þess hóps sem ella hefði misst starf sitt með tilheyrandi erfiðleikum. Ætla má að frumvarpið, verði það að lögum, muni meðal annars hafa þau áhrif að fleiri launamenn muni geta haldið lengur virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn en ella eða haldið virku ráðningarsambandi áfram í framhaldi af nýtingu úrræðisins. Frumvarpi þessu fylgir talsverður kostnaður. Verði á hinn bóginn ekki brugðist við má gera ráð fyrir að kostnaður komi fram annars staðar í samfélaginu, svo sem í auknum framfærslukostnaði sveitarfélaga. Hinn 14. maí 2020 var fjöldi umsækjenda um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar alls 36.788. Þar af voru konur alls 43% umsækjenda og karlar 57% umsækjenda. Að því gefnu að konur og karlar nýti áfram rétt sinn samkvæmt ákvæðinu í sambærilegum hlutföllum og áður eftir 1. júní 2020 má ætla að frumvarpið hafi almennt meiri áhrif á karla en konur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

     Um a-lið.
    Til að gæta samræmis í lögunum er lagt er til að í stað orðsins atvinnurekandi í síðari málsl. 1. mgr. komi orðið vinnuveitandi. Jafnframt er lagt til að við 1. mgr. bætist nýr málsliður ásamt fjórum nýjum stafliðum þar sem kveðið er á um að með tímabundnum samdrætti í starfsemi vinnuveitanda sé átt við að meðaltal mánaðartekna vinnuveitanda frá 1. mars 2020 og til þess dags er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu, eða staðfestir hjá Vinnumálastofnun áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, hafi dregist saman um a.m.k. 25% í samanburði við tiltekið tímabil. Gert er ráð fyrir að um verði að ræða fjögur mismunandi tímabil sem vinnuveitandi getur valið að leggja til grundvallar við mat á því hvort um tímabundinn samdrátt í starfseminni hafi verði að ræða í ljósi meðaltals mánaðartekna. Í fyrsta lagi geti viðkomandi vinnuveitandi valið hvort meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið 2019 liggi til grundvallar útreikningum um samdrátt í starfseminni. Með öðrum orðum er átt við að ef launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu 1. maí 2020 er viðmiðunartímabil 1. mars 2019 til 1. maí 2019. Í öðru lagi getur vinnuveitandi valið að meðaltal mánaðartekna frá 1. júní 2019 til 31. ágúst 2019 liggi til grundvallar útreikningum um samdrátt í starfseminni. Í þriðja lagi getur vinnuveitandi valið að meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 liggi til grundvallar og í fjórða lagi að meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020 liggi til grundvallar útreikningum um samdrátt í starfseminni.
    Lagt er til að framlengd verði heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli á þann hátt að um óbreytt fyrirkomulag verði að ræða í júní 2020 þannig að launamaður haldi að lágmarki 25% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda þann mánuð. Hins vegar er gert ráð fyrir að frá 1. júlí til og með 31. ágúst 2020 haldi launamaður að lágmarki 50% starfshlutfalli meðan viðkomandi fær greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þannig er gert ráð fyrir að launamaður eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt ákvæði þessu sé hann í minna en 50% starfshlutfalli frá og með 1. júlí til og með 31. ágúst 2020. Áfram er þó gert ráð fyrir að starfshlutfall launamanns þurfi að minnka í það minnsta um 20% til að launamaður getir átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli ákvæðisins.
     Um b- og e-lið.
    Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að til að finna út meðaltal heildarlauna launamanns skuli miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Lagt er til í b-lið frumvarpsins að á eftir 3. málsl. 2. mgr. komi fjórir nýir málsliðir þar sem kveðið verði á um að launamanni sé heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði tekjuárið 2019 í stað framangreinds þriggja mánaða tímabils. Ljóst þykir að í einhverjum tilvikum geti það komið sér illa fyrir launamenn að miðað sé við framangreint þriggja mánaða tímabil þegar fundið er út meðaltal heildarlauna samkvæmt ákvæðinu, svo sem ef tekjur launamanns eru mismiklar eftir mánuðum. Þykir því rétt að launamenn geti óskað eftir því sérstaklega að miðað sé við mánaðarleg meðallaun tekjuársins 2019.
    Einnig er lagt til í b-lið frumvarpsins að heimilt verði að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við hafi launamaður fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því þriggja mánaða tímabili sem líta skal til þegar finna á út meðaltal heildarlauna samkvæmt ákvæðinu. Vinnumálastofnun er þannig heimilt samkvæmt ákvæðinu að líta til þess tímabils sem viðmiðunartekjur vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við komi það betur út fyrir launamann að miða við það tímabil frekar en tekjur síðustu þriggja mánaða áður en viðkomandi missti starf sitt að hluta eða áður en hann hóf töku foreldraorlofs. Í því sambandi má nefna að í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, kemur fram að viðmiðunartímabil greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skuli miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að hafi launamaður verið í foreldraorlofi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, á viðmiðunartímabilinu sé honum heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna á þriggja mánaða tímabili áður en viðkomandi hóf töku foreldraorlofs. Er þá við það miðað að hafi launamaður verið í fæðingarorlofi á því þriggja mánaða tímabili sé Vinnumálastofnun heimilt að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við þegar finna á út meðaltal heildarlauna samkvæmt ákvæði þessu. Launamaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda skriflega og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 95/2000. Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir framangreindri tilkynningu um foreldraorlof viðkomandi launamanns frá vinnuveitanda þegar það á við.
    Í e-lið er lagt til að heimild launamanna til að óska eftir að Vinnumálastofnun taki mið af öðru viðmiðunartímabili, til að finna út meðaltal heildarlauna en þriggja mánaða tímabili áður en launamaður missti starf sitt að hluta, gildi frá 15. mars 2020 til og með 31. ágúst 2020. Er þannig jafnframt gert ráð fyrir að beiðni um endurútreikning á grundvelli breytts viðmiðunartímabils, sbr. framangreint, skuli berast Vinnumálastofnun fyrir 31. ágúst 2020.
     Um c-lið.
    Gert er ráð fyrir að þeir launamenn sem nýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu skuli staðfesta hjá Vinnumálastofnun fyrir 10. júní 2020 áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu. Þykir þetta nauðsynlegt í ljósi þess að gildistími ákvæðisins eins og hann var ákveðinn með lögum nr. 23/2020 er til og með 31. maí 2020. Jafnframt er lagt til að um leið og launamaður staðfestir áframhaldandi nýtingu á rétti samkvæmt ákvæðinu skuli vinnuveitandi staðfesta að skilyrði um samdrátt í starfsemi vinnuveitanda séu uppfyllt og að hann hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða staðfestir áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu. Er þetta lagt til svo að tryggt sé að vinnuveitendur hafi staðið skil á launatengdum gjöldum og opinberum gjöldum áður en þeir geti lækkað kostnað vegna launagreiðslna til starfsfólks með því að semja við starfsfólkið um að fara í minnkað starfshlutfall. Jafnframt er gert ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, síðastliðin þrjú ár, eftir því sem við á.
    Þá er gert ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf, inna af hendi aðra greiðslu til eigenda á grundvelli eignaraðildar þeirra, greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga, veita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins, eftir því sem við á. Þess ber að geta að framangreind fjárhæð tekur mið af fjórföldum reglulegum heildarlaunum að meðaltali fyrir launamenn í fullu starfi samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands, að teknu tilliti til breytinga á launavísitölu Hagstofunnar. Þá er gert er ráð fyrir að með nákomnum aðilum sé átt við þá aðila sem taldir eru upp í 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Loks er gert ráð fyrir að hið sama eigi við varðandi staðfestingu vinnuveitanda sæki launamaður í fyrsta skipti um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2020. Atvinnuleysisbótum samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt ákvæðinu er ætlað að stuðla að því að fyrirtæki geti dregið út launakostnaði en samt sem áður haldið ráðningarsambandi við launamenn sína þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í starfsemi. Er því talið óeðlilegt að greiddur sé samhliða út arður eða ráðist í aðrar svipaðar ráðstafanir á sama tíma og opinbers stuðnings nýtur við.
    Gengið er út frá því að Vinnumálastofnun verði heimilt að krefjast nánari staðfestingar eða gagna frá vinnuveitanda um framangreind atriði, svo sem samdrátt í starfsemi, og að vinnuveitanda verði skylt að verða við slíkri kröfu tafarlaust. Í þessu sambandi er jafnframt gert ráð fyrir að komi til þess á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 að vinnuveitandi uppfyllir ekki lengur skyldur hvað varðar framangreind atriði skv. 7. mgr. ákvæðisins skuli hann endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi.
    Lagt er til að í þeim tilvikum er skoðun Vinnumálastofnunar leiðir í ljós að framangreind skilyrði, sbr. 7. mgr. ákvæðisins, hafi ekki verið uppfyllt eða ef vinnuveitandi afhendir ekki nánari staðfestingu eða gögn samkvæmt beiðni Vinnumálastofnunar verði stofnuninni heimilt að krefja viðkomandi vinnuveitanda um endurgreiðslu þeirra atvinnuleysisbóta sem launamenn hans hafi fengið greiddar á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi hafi vinnuveitandi ekki þegar endurgreitt bæturnar, sbr. 8. mgr. ákvæðisins.
    Jafnframt er lagt til að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu atvinnuleysisbóta sem launamenn vinnuveitanda hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020, sbr. 8 mgr. og 9. mgr. ákvæðisins, verði aðfararhæfar.
    Gert er ráð fyrir að einstaklingur eða lögaðili sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði skv. 7. mgr. skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar. Í þessu sambandi er meðal annars átt við þá háttsemi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um samdrátt í starfsemi. Jafnframt má nefna sem dæmi að vinnuveitandi hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga, veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi eða greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins, eftir því sem við á, og ekki endurgreitt Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans fengu greiddar á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020. Telji Vinnumálastofnun að háttsemi vinnuveitenda geti varðað sektum eða fangelsi er gengið út frá því að stofnunin kæri málið til lögreglu. Ljóst þykir að greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu geti numið umtalsverðum fjárhæðum og þykir tveggja ára refsirammi því hæfilegur. Af sömu ástæðu þykir rétt að kveðið sé sérstaklega á um heimild Vinnumálastofnunar til að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur launamanna sem fá greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu en ætla má að það geti í tilteknum tilvikum varðað hagsmuni almennings að fá vitneskju um hvaða vinnuveitendur hafa nýtt sér úrræðið með samkomulagi við sína launamenn. Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um þá heimild Vinnumálastofnunar í 13. mgr. ákvæðisins.
    Lagt er til að þeir launamenn sem nýtt hafa rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt ákvæðinu skuli staðfesta hjá Vinnumálastofnun breytt starfshlutfall fyrir 1. júlí 2020 hafi þeir í hyggju að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu eftir 1. júlí 2020. Í a-lið er lagt til að frá og með 1. júlí 2020 skuli launamaður halda að lágmarki 50% starfshlutfalli sem er breyting á skilyrðum ákvæðisins frá því sem var og því er talið nauðsynlegt að launamaður staðfesti breytt starfshlutfall hafi launamaður í hyggju að nýta úrræðið frá 1. júlí 2020.
     Um d-lið.
    Lagt er til að ákvæðið gildi frá og með 1. júní 2020 og falli úr gildi 1. september 2020. Heimildin til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hefði að óbreyttu fallið úr gildi 1. júní 2020 en nauðsynlegt þykir að framlengja úrræðið þar sem enn eru þrengingar á vinnumarkaði auk þess sem þær hafa orðið meiri en áætlað var þegar úrræðinu var komið á laggirnar fyrr á árinu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa fengið greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIV í lögum um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 15. mars til 31. maí 2020 öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2020 uppfylli þeir önnur skilyrði laganna.
    Samkvæmt lögum nr. 23/2020 getur sjálfstætt starfandi einstaklingur sótt um atvinnuleysisbætur enda þótt viðkomandi hafi ekki tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um lok starfsemi (RSK 5.04) heldur nægir að viðkomandi hafi tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra (RSK 5.02). Markmið ákvæðisins er að koma til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna þeirra aðstæðna sem nú eru á innlendum vinnumarkaði en ætla má að þeir finni margir fyrir samdrætti í rekstri. Sjálfstætt starfandi einstaklingi ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi verkefni og á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili. Tekjur viðkomandi fyrir tilfallandi verkefni koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum að framangreindum skilyrðum uppfylltum. Hér eru ekki lagðar til breytingar hvað þetta varðar.
    Þá er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XIV í lögum um atvinnuleysistryggingar verði framlengdur frá og með 1. júní 2020 og að ákvæðið falli úr gildi 1. september 2020.

Um 3. gr.

    Lagt er til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, verði framlengdur frá og með 1. júní 2020 og að ákvæðið falli úr gildi 1. september 2020. Heimildin til greiðslu hlutabóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hefði að óbreyttu fallið úr gildi 1. júní 2020 en nauðsynlegt þykir að framlengja úrræðið vegna þrenginga á vinnumarkaði, sbr. 1. og 2. gr. frumvarpsins. Því er einnig talið nauðsynlegt að framlengja undanþágu frá a-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa þannig að í þeim tilvikum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda verði miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað við útreikning á kröfum skv. a-lið 5. gr. laganna. Enn fremur er lagt til að sams konar framlenging á undanþágu gildi um greiðslur til launamanns úr Ábyrgðasjóði launa vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi. Því er gert ráð fyrir að tekið verði mið af þeim tekjum sem launamaður hafði fyrir það starfshlutfall sem hann var í áður en starfshlutfall var lækkað við útreikning á kröfum skv. b-lið 5. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að önnur skilyrði a- og b-liðar 5. gr. laganna gildi að öðru leyti og að þessar undanþágur verði tímabundnar í ljósi sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði og gildi um kröfur launamanna sem fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli til greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa frá og með 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.