Ferill 730. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1430  —  730. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um búningsaðstöðu og salerni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvenær má vænta þess að ráðherra endurskoði lög, reglugerðir og reglur á málefnasviði sínu með hliðsjón af því að ákvæði þeirra um búningsaðstöðu og salerni gera ekki ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, sbr. lög nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði?

    Markmið laga nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði, er m.a. að tryggja að kynvitund einstaklinga njóti viðurkenningar og að standa vörð um rétt einstaklinga til sjálfræðis um eigin líkama og að borin sé virðing fyrir rétti hans til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar. Í lögunum er kveðið á um að einstaklingur sem hefur breytt opinberri skráningu kyns síns njóti allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.
    Ákvæði sem fjalla um búningsaðstöðu og salerni er að finna í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Þörf er á breytingum á þeim reglugerðum í tilefni af framangreindum lögum um kynrænt sjálfræði. Í lögum sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið er hins vegar ekki að finna sérstaka umfjöllun um búningsaðstöðu og salerni og því er ekki tilefni til að gera breytingar á þeim. Ákvæði áðurgreindra reglugerða þurfa að tryggja réttindi fólks óháð kyntjáningu þess.
    Meginreglan er að salerni eru ekki kyngreind en velji rekstraraðilar það er í gildandi reglugerð um hollustuhætti einungis gert ráð fyrir skiptingu í kvenna- og karlasalerni. Heildarendurskoðun hollustuháttareglugerðar er í vinnslu og hefur verið litið til breytinga á henni með markmið laga um kynrænt sjálfræði að leiðarljósi. Gert er ráð fyrir að drög að nýrri hollustuháttareglugerð verði kynnt í samráðsgátt á næstu vikum. Miðað er við að meginreglan verði áfram sú að salerni verði ekki kyngreind en sé það gert verði rekstraraðilum skylt að bjóða upp á einstaklingssalerni fyrir önnur kyn. Víðtækt samráð verður viðhaft við tillögur að breytingum.
    Í framhaldinu stefnir ráðuneytið á að undirbúa og kynna sambærilegar breytingar á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum að því er varðar einstaklingsbúningsklefa og sturtuaðstöðu.