Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1431  —  611. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, með síðari breytingum (óbyggt víðerni).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og rætt við Ásu Ögmundsdóttur og Jón Geir Pétursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristínu Lindu Árnadóttur og Jón Ingimarsson frá Landsvirkjun, Sif Konráðsdóttur frá Ófeigu náttúruvernd, Tryggva Felixson frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands og Eldvötnum – samtökum um náttúruvernd í Skaftárhreppi.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ófeigu náttúruvernd, Landvernd, Landsvirkjun, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands og Eldvötnum – samtökum um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku.

Efni og markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins „óbyggt víðerni“ í 19. tölul. 5. gr. laganna þess efnis að orðin „að jafnaði“ bætist fyrir framan orðin „í a.m.k. 5 km fjarlægð“. Verði frumvarpið samþykkt mun sú viðmiðun því bæði eiga við um stærðarafmörkun óbyggðra víðerna og fjarlægðarmörk svæðisins.
    Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins voru í umhverfis- og samgöngunefnd gerðar breytingar á skilgreiningu hugtaksins við vinnslu frumvarps til laga um náttúruvernd sem varð að lögum nr. 60/2013. Skilgreiningin var færð úr efnisákvæði 46. gr. í skilgreiningarákvæði 5. gr. Við þá breytingu færðust orðin „að jafnaði“ til innan hugtaksins þannig að þau standa fyrir framan lýsingu á stærðarmörkum óbyggðra víðerna en ekki fyrir framan fjarlægðarmörk svæðisins líkt og var í 46. gr. Þetta hefur leitt til þess að ekki er hægt að friðlýsa svæði undir friðlýsingarflokknum óbyggð víðerni ef mannvirki eru innan 5 km fjarlægðar frá mörkum svæðis þótt þau sjáist ekki vegna landfræðilegra aðstæðna. Er frumvarpinu ætlað að skapa svigrúm til friðlýsingar á óbyggðum svæðum við þessar aðstæður.

Áhrif friðlýsingar á svæði utan friðlýsingarmarka.
    Fram komu athugasemdir við þá umfjöllun í greinargerð frumvarpsins að með breytingunni gætu opnast möguleikar á framkvæmdum innan 5 km fjarlægðar frá mörkum friðlýsts svæðis, svo framarlega sem þær hefðu ekki áhrif á verndargildi þess. Bent var á að það þyrfti að vera skýrt af texta laganna að ekki væri gert ráð fyrir 5 km mannvirkjalausu belti utan við svæði sem friðlýst eru sem óbyggð víðerni og framkvæmdir á því svæði bannaðar. Nefndin bendir á að við ákvörðun friðlýsingarmarka svæðis sem óbyggðs víðernis er litið til þessara fjarlægðar- og stærðarmarka 19. tölul. 5. gr. og gilda þau friðlýsingarmörk með hefðbundnum hætti. Hvað varðar framkvæmdir og starfsemi utan svæðisins gildir 54. gr. líkt og um önnur friðlýst svæði. Samkvæmt henni skal taka mið af því ef leyfisskyldar framkvæmdir geta haft áhrif á verndargildi friðlýsta svæðisins við ákvörðun um veitingu leyfis. Þá má setja skilyrði til að koma í veg fyrir skaða af starfseminni eða framkvæmdunum á hinu friðlýsta svæði. Um aðra starfsemi og framkvæmdir, þ.e. sem ekki eru háðar leyfi, gildir aðgæsluskylda skv. 6. gr. laganna en í því felst að rekstrar- eða framkvæmdaraðila er skylt að taka tilhlýðilegt tillit til verndargildis hins friðlýsta svæðis við reksturinn eða framkvæmdirnar. Því er ekki um að ræða afdráttarlaust bann við framkvæmdum á 5 km svæði utan friðlýsts svæðis. Að mati nefndarinnar er löggjöfin skýr um þetta og þarfnast ekki frekari breytinga en lagt er til í frumvarpinu. Nefndin áréttar að breytingin sem frumvarpið kveður á um snýr einungis að fjarlægðarmörkum svæðis sem skilgreina má sem óbyggt víðerni, þ.e. að svæði geti talist óbyggt víðerni að uppfylltum almennum skilyrðum 19. tölul. 5. gr. laganna þótt mannvirki séu til staðar innan við 5 km frá mörkum svæðisins eða þótt ný mannvirki verði byggð á því svæði.
    
Orkurannsóknir og orkuvinnsla.
    Fram kom að mikilvægt væri að sú breyting sem frumvarpið felur í sér hefði ekki áhrif á orkurannsóknir eða orkuvinnslu og flutning. Nefndin vísar að þessu leyti til 53. gr. laganna en við vinnslu frumvarps til laga um náttúruvernd í umhverfis- og samgöngunefnd á 141. löggjafarþingi (429. mál, þskj. 1113) var bann við orkurannsóknum á svæðum sem falla í verndarflokk samkvæmt rammaáætlun fellt brott úr ákvæðinu. Í 53. gr. er því einungis kveðið á um bann við orkuvinnslu á svæðinu. Í nefndaráliti kom fram um þá breytingu að eðlilegt væri að gefa öllu rannsóknarstarfi eins mikið svigrúm og mögulegt er en að auki gæti verið um að ræða rannsóknir sem beinast að orkuvinnslu utan friðlýsta svæðisins. Við orkurannsóknir þurfi eins og við aðrar rannsóknir að hlíta almennum takmörkunum friðlýsingarákvæða og afla nauðsynlegs leyfis hjá stjórnvöldum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að frumvarpið breytir í engu efni 53. gr. Sama á við um 6. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.
    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.
    Nefndin telur frumvarpið til bóta og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. maí 2020.

Bergþór Ólason,
form.
Ari Trausti Guðmundsson, frsm. Guðjón S. Brjánsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.