Ferill 839. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1476  —  839. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um ferðagjöf.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


1. gr.

    Ferðagjöf er stafræn 5.000 kr. inneign útgefin af stjórnvöldum til einstaklinga 18 ára eða eldri með íslenska kennitölu.
    Einstaklingur getur notað ferðagjöf til greiðslu hjá fyrirtækjum sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum og hafa starfsstöð á Íslandi:
     1.      Fyrirtækjum með gilt leyfi Ferðamálastofu skv. III. kafla laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018.
     2.      Fyrirtækjum með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
     3.      Fyrirtækjum með gilt starfsleyfi frá viðeigandi heilbrigðisnefnd sem hefur verið gefið út vegna veitingastaða í flokki I, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
     4.      Ökutækjaleigum með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu skv. 1. mgr. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
     5.      Söfnum og fyrirtækjum sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru.
    Einstaklingi er heimilt að gefa eigin ferðagjöf.
    Einstaklingur getur að hámarki greitt með 15 ferðagjöfum.
    Gildistími ferðagjafa er frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020.

2. gr.

    Ferðagjöf er undanþegin skattskyldu skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. gr.

    Hvert fyrirtæki getur að hámarki tekið við samanlagt 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.
    Fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.

4. gr.

    Ferðamálastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í frumvarpinu er kveðið á um heimild stjórnvalda til útgáfu ferðagjafar, sem er stafræn inneign að andvirði 5.000 kr., til einstaklinga sem eru fæddir á árinu 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu. Einnig er kveðið á um skilyrði fyrir notkun ferðagjafar, svo sem hjá fyrirtækjum sem tilgreind eru í 1.–5. tölul. 2. mgr. 1. gr. Þá er lagt til að ferðagjöfin sé undanþegin ákvæðum laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tildrög frumvarpsins má rekja til efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru (SARS-CoV-2) 2020 og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að efla efnahagskerfið og draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið í kjölfar faraldursins.
    Útbreiðsla kórónuveiru hefur þegar haft afdrifarík áhrif á efnahagskerfið og enn ríkir óvissa um hvernig unnið verður úr þeirri miklu niðursveiflu sem fylgt hefur faraldrinum. Líkt og stjórnvöld víðs vegar um heim hafa íslensk stjórnvöld gripið til víðtækra efnahagsaðgerða til að lágmarka neikvæð áhrif á atvinnulífið.
    Áhrif heimsfaraldursins koma sérlega illa við ferðaþjónustufyrirtæki hérlendis, m.a. vegna víðtækra ferðatakmarkana innan flestra ríkja Evrópu og Norður-Ameríku.
    Með ferðagjöf eru einstaklingar hvattir til að ferðast innan lands. Útgáfan er meðal þeirra skilgreindu aðgerða íslenskra stjórnvalda til að veita efnahagslífinu og einkum ferðaþjónustunni viðspyrnu. Þá styður aðgerðin jafnframt við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 um að greinin verði leiðandi í sjálfbærri þróun.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er stjórnvöldum heimiluð útgáfa ferðagjafar að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem eru fæddir árið 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu.
    Einstaklingum er heimilt að greiða með ferðagjöfinni frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020 hjá skilgreindum fyrirtækjum sem hafa starfsstöð á Íslandi og tilgreind eru í 1.–5. tölul. 2. mgr. 1. gr.
    Að undanteknum 5. tölul. 2. mgr. 1. gr. byggist afmörkun fyrirtækja sem heimiluð er þátttaka í verkefninu á útgáfu þar til greindra opinberra leyfa og rennur upphæð ferðagjafar óskipt til þess fyrirtækis sem veitir þjónustuna.
    Ferðagjöfin er útfærð í formi smáforrits í farsíma sem verður hægt að nota á einfaldan hátt til greiðslu. Einnig verður boðið upp á notkun greiðslukóða gegnum internetið. Miðstöð verkefnisins verður vefsvæðið Ferdalag.is sem hýsir jafnframt hvatningarátak um ferðalög innan lands sem Ferðamálastofa annast. Einstaklingi er heimilt að gefa eigin ferðagjöf, en einstaklingur getur að hámarki greitt með 15 ferðagjöfum. Smáforritið býður upp á einfalda lausn við millifærslu ferðagjafar, gefanda og móttakanda að kostnaðarlausu.
    Með hliðsjón af eðli ferðagjafarinnar og fjárhæð er lagt til að ferðagjöfin verði undanþegin skattskyldu skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Ferðagjöfinni svipar til tækifærisgjafa auk þess sem óljóst er hverjir muni nýta sér gjöfina. Með vísan til þess og að um einskiptisaðgerð stjórnvalda er að ræða er lagt til að gjafabréfið verði ekki framtalsskylt.
    Ferðagjöfin felur í sér ríkisaðstoð þar sem not hennar eru afmörkuð við tiltekna atvinnustarfsemi hér á landi. Frumvarpið hefur verið unnið í samræmi við orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 19. mars sl. (tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs). Á grundvelli tímabundinna ríkisaðstoðarráðstafana er heimilt að veita ríkisaðstoð í formi beinna styrkja til fyrirtækja að fjárhæð allt að 800.000 evrum á yfirstandandi ári. Í samræmi við þau skilyrði er í frumvarpinu kveðið á um að fyrirtæki sem fellur undir skilgreiningu 1.–5. tölul. 2. mgr. 1. gr. verði heimilt að taka að hámarki við samtals 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa. Fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 í skilningi hópundanþágureglugerðar (ESB) nr. 651/2014 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa. Tæknileg útfærsla verkefnisins gerir ráð fyrir umræddum hámarksfjárhæðum (25 millj. kr. eða 100 millj. kr. eftir atvikum) og mun einstaklingur ekki geta greitt með ferðagjöf ef fyrirtæki sem hyggst taka við greiðslu hefur náð hámarkinu.
    Ferðamálastofa fer með framkvæmd laganna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Aðgerðin sem lögð er til felur í sér ríkisaðstoð skv. 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Við vinnslu frumvarpsins hefur þess verið gætt að ríkisaðstoðin sé lögmæt á grundvelli c-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins í samræmi við orðsendingu Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins frá 19. mars sl. (tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs). Aðgerðin er tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt kafla 3.1 í orðsendingunni um aðstoð í formi beins fjárstuðnings, endurgreiðanlegrar fyrirgreiðslu eða skattívilnana. Óformlegt samráð var haft við Eftirlitsstofnun EFTA við vinnslu frumvarpsins og tilkynning send stofnuninni 20. maí sl. Gerður er fyrirvari um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA hvað viðkemur lögmætri ríkisaðstoð.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að samræmi við stjórnarskrá sé metið sérstaklega.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, verkefnastofu um Stafrænt Ísland, Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar. Í ljósi þess að um brýna ívilnandi einskiptisaðgerð stjórnvalda er að ræða, sem er meðal skilgreindra aðgerða íslenskra stjórnvalda til að veita efnahagslífinu viðspyrnu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, voru drög að frumvarpinu ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, sbr. 2. mgr. 9 gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2017.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum munu einstaklingar sem hafa íslenska kennitölu og náð hafa 18 ára aldri geta notað ferðagjöf að fjárhæð 5.000 kr. hjá fyrirtækjum sem hafa starfsstöð á Íslandi og falla undir skilgreiningu 1.–5. tölul. 2. mgr. 1. gr. Um er að ræða einskiptisaðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar og er áætlaður kostnaður 1,5 milljarðar króna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er stjórnvöldum heimiluð útgáfa ferðagjafar að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem eru fæddir á árinu 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu.
    Ferðagjöf er bundin við notkun einstaklings til greiðslu hjá fyrirtækjum sem hafa starfsstöð á Íslandi og talin eru upp í 1.–5. tölul. Í frumvarpinu er notað hugtakið „fyrirtæki“ yfir þá aðila sem geta tekið við ferðagjöf fyrir veitta þjónustu. Hugtakið ber að skýra á sama hátt og fyrirtæki í skilningi samkeppnisréttar, sbr. 2. tölul. 4. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, sem getur verið einstaklingur, félag, opinberir aðilar eða aðrir sem stunda atvinnurekstur. Skilgreiningin er óháð tilteknu félaga- eða rekstrarformi. Við skýringu hugtaksins ber því einnig að taka mið af enska hugtakinu „undertaking“ í Evrópurétti sem felur meðal annars í sér að þrátt fyrir endurskipulagningu fyrirtækis geti verið mögulegt, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að hið eldra og yngra fyrirtæki skoðist sem hið sama.
    Í 1. tölul. er vísað til leyfa til að starfa sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða á grundvelli laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, en í 6. gr. laganna kemur fram hvaða starfsemi fellur undir framangreind leyfi.
    Í 2. tölul. er vísað til fyrirtækja sem hafa rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
    Í 3. tölul. er vísað til annarra fyrirtækja en eru rekstrarleyfisskyld á grundvelli 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Átt er við þau fyrirtæki í flokki I sem eru veitingastaðir án áfengisveitinga. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita leyfi til þess reksturs sem fellur hér undir.
    Í 4. tölul. er vísað til ökutækjaleigna sem starfa á grundvelli leyfis og undir eftirliti Samgöngustofu samkvæmt ákvæðum laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2012.
    Í 5. tölul. eru tilgreind söfn og önnur fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er lögð á íslenska menningu, náttúru eða sögu. Annars vegar er vísað til safna sem fallið geta undir ákvæði safnalaga, nr. 141/2011, og teljast eftir atvikum viðurkennd söfn og hins vegar til annarra sýninga án þess að skilyrði sé gert um opinbert leyfi, svo sem söfn sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra á grundvelli 1. mgr. 9. gr. sömu laga eða annarra sýninga þar sem efni þeirra uppfyllir skilyrði um áherslu á íslenska menningu, náttúru eða sögu.
    Einstaklingur getur að hámarki greitt með 15 ferðagjöfum, hvort sem er í einu lagi eða 15 stökum greiðslum sem dreifast yfir gildistíma ferðagjafarinnar.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er ferðagjöf undanþegin skattskyldu skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skv. 3. tölul. A-liðar 30. gr. laganna er heimilt að kveða á um það í sérlögum að tekjur sem falla undir 4. tölul. A-liðar 7. gr. laganna séu skattfrjálsar. Um er að ræða einskiptisaðgerð stjórnvalda og er óljóst hverjir muni nýta ferðagjöfina. Þá svipar eðli og upphæð ferðagjafar til tækifærisgjafa sem eru undanþegnar skattskyldu á grundvelli 4. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga.
    Ferðagjöfin er ekki framtalsskyld.

Um 3. gr.

    Ferðagjöfin felur í sér ríkisaðstoð í samræmi við orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 19. mars 2020 (tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs). Samkvæmt orðsendingunni er fyrirtæki heimilt að taka við samanlagt allt að 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa. Fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 í skilningi hópundanþágureglugerðar (ESB) nr. 651/2014 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa. Tæknileg útfærsla verkefnisins gerir ráð fyrir umræddum hámarksfjárhæðum (25 millj. kr. eða 100 millj. kr. eftir atvikum) og mun einstaklingur ekki geta greitt með ferðagjöf ef fyrirtæki sem tekur við greiðslu hefur náð hámarkinu.

Um 4. gr.

    Ferðamálastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Í því felst meðal annars móttaka umsókna og mat á því hvort starfsemi umsækjanda falli undir einhvern töluliða 2. mgr. 1. gr. og uppfylli skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.