Ferill 880. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1535  —  880. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um miðlalæsi.


Frá meiri hluta Íslandsdeildar Norðurlandaráðs (SilG, OH, GIK, KÓP, SÞÁ, VilÁ).


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu á sviði miðlalæsis sem nái til allra aldurshópa.
    Verkefni starfshópsins verði:
       a.      að kortleggja dreifingu upplýsingaóreiðu hér á landi,
       b.      að skilgreina ábyrgðarsvið stofnana og hvaða aðili skuli sjá um samþættingu verkefna á þessu sviði,
       c.      að gera úttekt á lagaumhverfinu og leggja til nauðsynlegar lagabreytingar.
    Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2021. Ráðherra kynni stefnu sem byggð verði á tillögum starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóvember 2021.

Greinargerð.

    Aðgangur að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Undanfarin ár hefur borið meira á því að villandi og fölskum upplýsingum, svokölluðum falsfréttum, sé dreift og með tilkomu samfélagsmiðla og aukinni notkun þeirra fer vandinn ört vaxandi. Eftir því sem tækninni fleygir fram reynist sífellt erfiðara að greina milli raunverulegra frétta og falsfrétta. Mikilvægi miðlalæsis hefur því aldrei verið meira, en í hugtakinu felst að einstaklingur geti aðgreint falsfréttir frá raunverulegum fréttum.
    Falsfréttir og áhrif þeirra á kosningaúrslit og lýðræðið almennt hafa verið mikið til umræðu undanfarin ár, einkum í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2016 og þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit í Stóra-Bretlandi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að erlendir aðilar hafa reynt að hafa áhrif á kosningar með ýmsum aðferðum, þar á meðal með því að dreifa falsfréttum.
    Megináherslan hér á landi hefur verið lögð á það að efla upplýsinga- og tæknilæsi barna og ungmenna. Erlendar rannsóknir hafa þó sýnt að fólk 65 ára og eldra er líklegast til að deila falsfréttum á samfélagsmiðlum. Hætta er á að notendur samfélagsmiðla festist í vítahring þar sem margvíslegum upplýsingum um notendur miðlanna er safnað og sérsniðnum falsfréttum og áróðri beint að þeim.
    Upplýsingaóreiða kemur helst til tals þegar fjallað er um umdeild samfélagsleg málefni. Markmiðið er að dreifa áróðri eða hafa villandi áhrif á samfélagslega umræðu. Upplýsingaóreiða hefur áhrif á getu almennings til að afla sér réttra upplýsinga um stefnu og ákvarðanir stjórnvalda og annað sem varðar hagsmuni hans. Hún eitrar samfélagslega umræðu, eykur spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa og grefur undan kosningakerfum, sem haft getur alvarleg áhrif á þjóðaröryggi.
    Í ljósi skaðlegra áhrifa upplýsingaóreiðu á lýðræði og upplýsingarétt almennings hafa nágrannaríkin mörg hver tekið þessi mál til gagngerrar skoðunar undanfarin ár. Fyrir kosningar til Evrópuþingsins árið 2019 hvatti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til aðgerða í aðildarríkjunum og kynnti verkáætlun til að minnka áhrif upplýsingaóreiðu í álfunni og vernda grundvallargildi lýðræðisins. Settar voru reglur til að draga úr upplýsingaóreiðu sem stærstu samfélagsmiðlar, auglýsendur og samtök auglýsenda skuldbundu sig til að fylgja. Þá er starfandi starfshópurinn East StratCom Task Force sem hefur metið og kortlagt upplýsingaóreiðu frá Rússlandi í aðildarríkjum ESB. Einnig má nefna að í Svíþjóð hefur ríkisstjórnin lagt til að unnin verði hvítbók þar sem skoðað verði hvort koma eigi á fót nýrri stofnun sem ætlað yrði að auka mótstöðuafl þjóðarinnar gegn utanaðkomandi vá ( Myndighet för psykologist försvar). Stofnuninni yrði m.a. ætlað að kortleggja upplýsingaóreiðu í aðdraganda kosninga í Svíþjóð.
    Ein árangursríkasta leiðin til að bregðast við upplýsingaóreiðu er að efla vitund, fræðslu og þjálfun almennings á sviði miðla- og upplýsingalæsis. Íslensk stjórnvöld hafa aftur á móti enn ekki mótað heildstæða stefnu sem nær til allra aldurshópa. Þörf er á vitundarvakningu og aukinni fræðslu í þessum málaflokki. Samkvæmt lögum um fjölmiðla er fjölmiðlanefnd ætlað að stuðla að fjölmiðlalæsi. Í því samhengi er jákvætt að í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, er gert ráð fyrir auknu hlutverki fjölmiðlanefndar hvað þetta varðar.
    Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2020 og hafa í formennskuáætlun sinni beitt sér fyrir umræðu um dreifingu falskra og villandi upplýsinga með það að markmiði að auka meðvitund og þekkingu almennings. Ljóst er að mun minna er vitað um hversu mikil upplýsingaóreiða er hérlendis en víða erlendis þar sem dreifingin hefur verið kortlögð í meira mæli. Nauðsynlegt er að stemma stigu við þessu og kortleggja dreifinguna hér á landi. Í því samhengi er rétt að líta til þeirrar aðferðafræði sem best hefur reynst erlendis. Skilgreina þarf ábyrgðarsvið stofnana hérlendis og hvaða aðili skuli sjá um samþættingu verkefna á þessu sviði. Þá þarf að gera úttekt á gildandi lagaumhverfi hérlendis á þessu sviði og skilgreina hvaða lagabreytinga er þörf svo að stofnanir geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað.