Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1537  —  811. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar (OGH).


     1.      1. mgr. 1. gr. orðist svo:
                 Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi á Íslandi og hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020. Lögin gilda ekki um einstaklinga eða lögaðila sem á undanförnum þremur árum hafa átt í fjárhagslegum samskiptum, beint eða í gegnum félag sem þeir eiga ráðandi hlut í, við hvers kyns félag, sjóð eða stofnun, sem telst hafa heimilisfesti í lágskattaríki, sbr. 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki heldur um lögaðila ef raunverulegur eigandi hans hefur heimilisfesti á lágskattasvæði samkvæmt skilgreiningu sömu laga eða hefur á undanförnum þremur árum átt í fjárhagslegum samskiptum, beint eða í gegnum félag sem hann á ráðandi hlut í, við hvers kyns félag, sjóð eða stofnun á slíku svæði. Umsókn um stuðning samkvæmt lögunum skal fylgja yfirlýsing viðkomandi einstaklings eða félags eða eftir atvikum raunverulegs eiganda um að skilyrði þessa ákvæðis séu uppfyllt.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „greitt óumsaminn kaupauka“ í 3. tölul. komi: greitt sér, eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til eins launamanns.
                  b.      Við 4. tölul. bætist: Þá skal hann, óski hann stuðnings vegna 10 launamanna eða fleiri, skila losunarbókhaldi samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði fyrir árið 2019 ásamt upplýsingum um hvernig hann hyggist draga úr losun á næstu 5 árum.
     3.      8. gr. orðist svo:
                 Atvinnurekandi sem hlýtur fjárstuðning samkvæmt lögum þessum skal greiða 10% álag á þann tekjuskatt sem honum hefði ella borið að greiða samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, frá og með því rekstrarári þegar hann fékk stuðning fyrst greiddan þar til hann hefur með álagsgreiðslunum að fullu endurgreitt veittan fjárstuðning ásamt verðbótum og vöxtum. Verðbætur og vextir reiknast frá þeim tíma sem fjárstuðningur var veittur og taka mið af breytingum á vísitölu neysluverðs og vöxtum af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands. Þó skal álag samkvæmt þessu ákvæði að hámarki greiðast í tíu ár. Uppsafnað skattalegt tap hefur ekki áhrif á tekjuskattsálag samkvæmt þessu ákvæði.
     4.      9. gr. orðist svo:
                 Atvinnurekandi sem hlotið hefur fjárstuðning samkvæmt lögum þessum getur hvenær sem er losað sig undan þeim skuldbindingum sem hann gekkst undir samhliða viðtöku fjárstuðnings, sbr. 3. tölul. 4. gr. og 8. gr., með endurgreiðslu þess hluta heildarfjárstuðnings hans sem ekki hefur verið endurgreiddur með álagi á tekjuskatt skv. 8. gr. ásamt verðbótum og vöxtum.