Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1547  —  791. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Geislavarna ríkisins.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Geislavarnir ríkisins?
    Kveðið er á um lögbundin verkefni Geislavarna ríkisins í 5. gr. laga nr. 44/2002, um geislavarnir. Í 1. mgr. segir að Geislavarnir ríkisins skuli annast:
     1.      Eftirlit og umsjón með að lögum nr. 44/2002 og reglugerðum settum samkvæmt þeim sé fylgt.
     2.      Hvers konar eftirlit og athuganir sem nauðsynlegar eru samkvæmt lögum nr. 44/2002 og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     3.      Eftirlit með geislaálagi starfsmanna vegna jónandi geislunar og halda skrá yfir niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits fyrir hvern einstakan starfsmann.
     4.      Reglubundið mat á heildargeislaálagi almennings af starfsemi og aðstæðum sem lög þessi taka til.
     5.      Reglubundið mat á geislaálagi sjúklinga af læknisfræðilegri geislun hérlendis.
     6.      Vöktun og rannsóknir á geislavirkum efnum í matvælum og umhverfi.
     7.      Fræðslu um geislavarnir fyrir starfsfólk er vinnur við geislun jafnframt því að miðla upplýsingum til almennings og fjölmiðla.
     8.      Rannsóknir á sviði geislavarna.
     9.      Geislunarlegan þátt viðbúnaðar vegna hvers kyns geislavár, m.a. greiningu á ógn af hennar völdum, samhæfingu viðbúnaðar við alþjóðleg viðmið, rekstur viðbúnaðar- og geislamælikerfa og annað því tengt.
     10.      Nauðsynlega mælifræði og varðveislu landsmæligrunna vegna notkunar jónandi geislunar á Íslandi.
     11.      Samvinnu við erlendar stofnanir á sviði geislavarna og kjarnorkumála.
     12.      Önnur atriði er lúta að framkvæmd laga þessara og önnur verkefni á sviði geislavarna eftir nánari ákvörðun ráðherra.
    Þá segir í 3. mgr. að stofnunin skuli undirbúa, sækja um og viðhalda faggildingu vegna tiltekinna þátta rannsókna og eftirlits sem stofnunin annast.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Geislavarna ríkisins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 104,9 millj. kr. til rekstrar Geislavarna ríkisins á þessu ári. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega.