Ferill 800. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1550  —  800. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni vísindasiðanefndar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir vísindasiðanefnd?
    Kveðið er á um lögbundin verkefni vísindasiðanefndar í 10. gr. laga nr. 44/2014, um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Í ákvæðinu segir að hlutverk stofnunarinnar sé meðal annars að:
     1.      Meta vísindarannsóknir á heilbrigðissviði í þeim tilgangi að tryggja að þær samrýmist vísindalegum og siðfræðilegum sjónarmiðum.
     2.      Meta samstarfsverkefni, fjölþjóðlegar rannsóknir, klínískar lyfjarannsóknir og aðrar áætlanir um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem ekki falla undir verksvið siðanefnda heilbrigðisrannsókna skv. 11. gr. laga nr. 44/2014.
     3.      Taka þátt í almennri og fræðilegri umræðu á vettvangi lífsiðfræði, veita ráðgjöf og birta leiðbeinandi álit um viðfangsefni á verksviði nefndarinnar.
    Einnig er það hlutverk vísindasiðanefndar að meta breytingar á eðli og umfangi vísindarannsókna og aðrar meiri háttar breytingar og gefa út viðbótarleyfi við þegar samþykktar rannsóknaráætlanir skv. 20. gr. laga nr. 44/2014. Þá hefur vísindasiðanefnd eftirlit með vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og skal fylgjast með framkvæmd rannsókna sem hún hefur samþykkt skv. 29. gr. laga nr. 44/2014.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna vísindasiðanefndar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 66,5 millj. kr. til rekstrar vísindasiðanefndar á þessu ári. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum nefndarinnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega.