Ferill 798. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1552  —  798. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Sjúkrahússins á Akureyri.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Sjúkrahúsið á Akureyri?
    Lögbundið hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri er skilgreint í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Í 21. gr. laganna er kveðið á um að hlutverk þess sé að:
                  a.      veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu slíks sjúkrahúss, m.a. sérfræðiþjónustu í helstu greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heilbrigðisvísinda sem stundaðar eru hér á landi, með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknadeildum,
                  b.      annast starfsnám háskólanema í heilbrigðisvísindagreinum við Háskólann á Akureyri,
                  c.      taka þátt í starfsnámi annarra háskólanema og framhaldsskólanema í grunn- og framhaldsnámi á heilbrigðissviði í samvinnu við Landspítala, Háskóla Íslands og aðrar heilbrigðisstofnanir og skóla,
                  d.      stunda vísindarannsóknir á heilbrigðissviði,
                  e.      gera fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við Háskólann á Akureyri eða eftir atvikum aðra háskóla,
                  f.      vera varasjúkrahús Landspítala.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Sjúkrahússins á Akureyri og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til Sjúkrahússins á Akureyri samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2020 eru 8.449,7 millj. kr. að frádregnum sértekjum að fjárhæð 837,2 millj. kr. Fjárveitingar eru ekki sundurliðaðar eftir lögbundnum verkefnum stofnana í fjárlögum. Eftirfarandi skipting niður á viðföng kemur fram í fylgiriti með fjárlögum:

08-358 Sjúkrahúsið á Akureyri 8.449,7
08-358.101 Sjúkrahúsið á Akureyri 8.241,8
08-358.601 Tæki og búnaður 207,9