Ferill 890. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1575  —  890. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna faraldurs kórónuveiru.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, að hafa forgöngu um að ríkisstjórn Íslands í samráði við sveitarfélög undirbúi og hrindi í framkvæmd eftirtöldum aðgerðum. Aðgerðirnar miði að því að styðja sérstaklega sveitarfélög vegna aðstæðna sem rekja má til faraldurs kórónuveiru. Útfærslu þeirra verði lokið fyrir 1. september 2020.
     1.      Auknum fjármunum verði varið til sóknaráætlana landshluta í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga.
     2.      Viðmiðunarfjárhæðir laga um opinber innkaup varðandi útboðsskyldu sveitarfélaga verði rýmkaðar tímabundið.
     3.      Framkvæmdasjóður aldraðra verði styrktur svo að unnt verði að ráðast í viðhaldsframkvæmdir og tryggja stofnkostnað nýrra hjúkrunarheimila.
     4.      Byggðar verði fleiri almennar leiguíbúðir í samvinnu við sveitarfélögin.
     5.      Átak verði gert í íslenskukennslu atvinnuleitenda af erlendum uppruna.
     6.      Ríkissjóður komi til móts við sveitarfélög vegna lækkunar á tekjum þeirra.
     7.      Aukin fjárútlát sveitarfélaga vegna viðbragða við faraldri kórónuveiru verði bætt, t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, í samráði við ráðherra fjármála- og efnahagsmála, verði falið að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin og ráðherra beiti sér fyrir aðgerðum í þágu sveitarfélaga landsins. Aðgerðirnar miði að því að bregðast við tekjufalli sveitarfélaga á sama tíma og þjónustuþörf hefur aukist.
    Sveitarfélög munu bera of miklar byrðar af fjárhagslegum afleiðingum faraldurs kórónuveiru í stað þess að ríkissjóður taki á sig stærri hluta ábyrgðarinnar. Á þessum fordæmalausu tímum er nærþjónusta mikilvæg sem aldrei fyrr. Miklar kröfur hafa þegar verið gerðar til sveitarfélaga um að þau haldi þétt utan um íbúa landsins og þjónusti viðkvæmustu hópa fólks. Ríkisvaldið þarf að koma til móts við sveitarfélög svo að hægt sé tryggja góða nærþjónustu við fólk um allt land til að takast á við kórónuveirufaraldurinn, þau hliðaráhrif sem af honum verða og eftirköst hans.

1. Auknum fjármunum verði varið til sóknaráætlana landshluta í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga.
    Sóknaráætlun landshlutanna er verkefni sem hefur reynst vel. Ljóst er að ráðast þarf í fjölda verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar til þess að styðja við landsvæðin og sveitarfélögin. Innspýting ríkisins dugir skammt til að koma til móts við vanda sveitarfélaganna. Til þess að hægt sé að ná fullri nýtingu fjármuna er hagvænlegt að leggja fjármagn í sóknaráætlun landshluta þar sem heimamenn þekkja best til aðstæðna auk þess sem þar er til staðar mannauður til að vinna áætlanir í samstarfi við ráðuneyti. Við gerð þessara áætlana um hvernig best sé að sækja fram munu sveitarfélög á hverju svæði fyrir sig vinna saman.

2. Viðmiðunarfjárhæðir laga um opinber innkaup varðandi útboðsskyldu sveitarfélaga verði rýmkaðar tímabundið.
    Viðmiðunarfjárhæð laga um opinber útboð er 49 millj. kr. Þýðir það að allar stærri framkvæmdir fara í útboð. Útboðsferlið er tímafrekt og svo að flýta megi aðgerðum á árinu er nauðsynlegt að hækka viðmiðið að minnsta kosti í 350 millj. kr. Til samanburðar er viðmiðunarfjárhæð ríkisins 700 millj. kr.

3. Famkvæmdasjóður aldraðra verði styrktur svo að unnt verði að ráðast í viðhaldsframkvæmdir og tryggja stofnkostnað nýrra hjúkrunarheimila.
    Mikilvægt er að koma af stað framkvæmdum eins hratt og auðið er til þess að viðhalda atvinnustigi í landinu. Líta má til framkvæmdasjóðs aldraðra í þeim efnum. Kanna þarf hvaða verkefni hafa verið skipulögð og sett á framkvæmdaáætlun svo að framkvæmdir geti hafist þegar í stað. Má í því samhengi skoða þau viðhaldsverkefni sem bíða, breytingar á tvíbýli yfir í sérbýli á hjúkrunarheimilum og bætt aðgengi, auk annarra verkefna.

4. Bygging almennra leiguíbúða í sveitarfélögunum.
    Markmið þessara aðgerða er tvíþætt, annars vegar að glæða byggingarframkvæmdir lífi og aðstoða þannig atvinnulífið og hins vegar að bæta húsnæðisöryggi einstaklinga og fjölskyldna sem eru undir lágmarkstekju- og -eignamörkum, með því að auka aðgengi að öruggu og hentugu leiguhúsnæði og tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

5. Átak í íslenskukennslu atvinnuleitenda af erlendum uppruna.
    Mikill fjöldi erlends starfsfólks er hér á landi. Hefur það gegnt veigamiklu hlutverki í uppbyggingu og þeirri velmegun sem hefur ríkt hér síðustu ár. Hinn 1. janúar 2019 voru 50.272 innflytjendur á landinu eða 14,1% mannfjöldans. Má búast við því að stærsti hluti þess fjölda verði hér áfram þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur. Kunnátta í íslenskri tungu er lykillinn að íslensku samfélagi og getur ráðið úrslitum um velgengni innflytjenda í samfélaginu.
    Á þessum tímum er kjörið að aðstoða innflytjendur við að nýta tímann til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með því að læra íslensku. Bætt íslenskukunnátta vinnur gegn félagslegu undirboði því hún auðveldar þessum hópi að kynna sér réttindi sín. Íslenskukennsla fyrir útlendinga fer að mestu leyti fram í tungumálaskólum á höfuðborgarsvæðinu og í fræðslumiðstöðvum á landsbyggðinni. Mikilvægara er en nokkru sinni áður að styðja vel við þessar stofnanir til þess að efla kennslu og auka framboð á íslenskukennslu fyrir útlendinga.

6. Ríkissjóður komi til móts við sveitarfélög vegna lækkunar á tekjum þeirra.
    Styðja þarf við sveitarfélög sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna faraldurs kórónuveiru. Skoða þarf þann möguleika að veita sérstakan stuðning frá ríki til sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög fá yfir 40% tekna sinna frá ferðaþjónustu og hliðstæðum verkefnum henni tengdum. Ómögulegt er að segja til um hvert tekjufall sveitarfélaga verður vegna fækkunar ferðamanna en reikna má með því að beint tekjufall ríkissjóðs verði hið minnsta 6–7%.
    Vegna þessa er lagt til að Vinnumálastofnun verði efld, virkniúrræði verði sett á laggirnar í samvinnu ríkis og sveitarfélaga, svæðisbundin velferðarvakt verði sett af stað af hálfu félagsmálaráðuneytisins, geðheilsuteymi heilsugæslunnar verði efld og félagsþjónusta sveitarfélaganna styrkt. Það er nú sem aldrei fyrr mikilvægt að lögbundin félagsþjónusta sveitarfélaga standi á traustum stoðum og þjónusta verði tryggð.
    Mikilvægt er að huga að málefnum barna, fatlaðra og aldraðra. Koma þarf til móts við sveitarfélög svo hægt sé tryggja að jafnvel þó að tekjufall sveitarfélaga sé verulegt geti þau áfram sinnt nærþjónustu vel. Álag á þjónustuna hefur þyngst mikið tímabundið vegna aðstæðna í samfélaginu.
    Styðja þarf sveitarfélög vegna þjónustu við fatlaða. Fjölmörg stærri verkefni með fötluðum hafa fallið niður hjá sveitarfélögum vegna samkomubanns. Stór hópur fatlaðra hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví í nokkurn tíma og ljóst að áhrif kórónuveirufaraldursins geta haft sérstaklega neikvæð áhrif á þann hóp. Samkomubann og sóttkví kalla á aukna þjónustu og aukinn kostnað fyrir sveitarfélög sem ríkið þarf að mæta.
    Rekstur leikskóla er erfiður á þessum tímum vegna tekjumissis sem hlýst af leiðréttingu á þjónustugjöldum í samræmi við skerðingu á þjónustu. Mörg sveitarfélög brugðu á það ráð að gefa fullan afslátt af leikskóla-, dagforeldra- og frístundagjöldum þar sem þjónusta féll niður. Það sama gildir fyrir þá foreldra sem völdu að halda börnum heima eða þurftu að vera heima vegna veikinda eða í sóttkví. Þá fengu foreldrar víða að greiða aðeins fyrir þá þjónustu sem nýtt var.
    Flestar stofnanirnar hafa dregið úr almennri þjónustu til að skapa svigrúm fyrir þá vinnu sem hefur farið í viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Greiðslur til hjúkrunarheimila og dagdvalarstofnana eru háðar nýtingu á rýmum, hjá sumum samkvæmt samningum og hjá öðrum á grundvelli reglugerða. Þessar aðstæður hafa leitt til þess að tekjufall mun verða hjá sveitarfélögum á næstu vikum og mánuðum vegna faraldurs kórónuveiru á sama tíma og verkefnum hefur fjölgað og rekstrarkostnaður aukist, m.a. vegna veikinda starfsmanna og sóttkvíar, en ekki síður ýmis kostnaður sem hlýst af ytri aðstæðum eins og sóttvörnum og aukinni þjónustuþörf.

7. Aukin fjárútlát sveitarfélaga vegna viðbragða við faraldri kórónuveiru verði bætt, t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Samhliða tekjufalli vegna breytinga á nærþjónustu hafa ný og flókin verkefni bæst á borð sveitarfélaga vegna faraldurs kórónuveiru. Þessum aukna tilkostnaði fylgja ekki neinir tekjumöguleikar fyrir sveitarfélögin. Mikilvægt er að fjármagn verði sett í að styðja sveitarfélög til að mæta þessum nýju verkefnum. Sveitarfélögin tóku að miklu leyti yfir málaflokk fatlaðs fólks árið 2011 og er nú þegar milljarða króna halli á málaflokknum. Að óbreyttu mun þessi halli aukast verulega á næstu árum, m.a. vegna lægra framlags úr ríkissjóði til NPA. Auka þarf fjármuni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til mæta þessum auknu útgjöldum.