Ferill 782. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1619  —  782. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Matís ohf.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Matís ohf.?
    Hlutafélagið Matís ohf. starfar á grundvelli laga nr. 68/2006, um stofnun Matvælarannsókna hf. Tilgangur félagsins er að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífs, lýðheilsu og matvælaöryggis. Í 7. gr. laganna er jafnframt kveðið á um að Matís sé skylt að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna sem nánar er skilgreind í samningi við félagið. Matís sinnir einnig hlutverki sem tilvísunarrannsóknastofa samkvæmt sérstökum samningi við ráðuneytið.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Matís ohf. og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði við lögbundin verkefni er ekki deilt niður á hvert verkefni í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður í fjárveitingar til einstakra verkefna og ríkisaðila sem birtast í fylgiriti fjárlaga hverju sinni. Ráðuneytið gerir þjónustusamning við Matís vegna lögbundinna verkefna um matvælarannsóknir. Fjárveitingin til Matís ohf. vegna þjónustusamningsins er 401,7 millj. kr. samkvæmt fjárlögum 2020. Þá er samningur vegna hlutverks Matís sem tilvísunarrannsóknastofa að fjárhæð 23,5 millj. kr. vegna ársins 2020.