Ferill 689. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1622  —  689. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um samninga samkvæmt lögum um opinber fjármál.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða samninga sem í gildi eru hefur ráðuneytið og stofnanir þess gert skv. 40. og 41. gr. laga um opinber fjármál?
     2.      Samkvæmt hvaða heimild hefur hver þeirra verið gerður, sbr. heimildir í fyrrnefndum lagagreinum?
     3.      Hver er gildistími hvers samnings?
     4.      Fellur gildistími einhvers samnings utan ákvæða 40. og 41. gr. laganna? Sé svo, hvers vegna?
     5.      Hver er samanlögð árleg fjárskuldbinding hvers samnings og hvert er hlutfall hennar af árlegri fjárveitingu þess ríkisaðila sem ber ábyrgð á samningnum?
     6.      Hvaða stefnumörkun samkvæmt gildandi fjármálaáætlun liggur til grundvallar hverjum samningi fyrir sig?
     7.      Hvenær var síðast metið hvort hver samningur uppfyllti kröfur um umfang og gæði eins og gert er ráð fyrir í 5. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál?
     8.      Við hvaða gæðamælikvarða var miðað í tilviki hvers samnings?

    Í meðfylgjandi fylgiskjali má sjá svar við 1.–8. tölul. fyrirspurnarinnar. Þar er yfirlit yfir gildandi samninga á árinu 2020 sem falla undir sjávarútvegs- og landbúnaðarhluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og gerðir eru á grundvelli 40. gr. laga um opinber fjármál. Yfirlitinu er skipt í tvo hluta, annars vegar samninga sem ráðuneytið ber ábyrgð á og hins vegar samninga sem einstakar stofnanir gera og bera ábyrgð á án beinnar aðkomu ráðuneytisins. Í svarinu er ekki gerð sérstök grein fyrir samningum sem eru undir 5 millj. kr. á ári og samninga sem gerðir eru til skemmri tíma en eins árs í senn. Innifalið í tölunum eru skuldbindingar vegna búvörusamninga, samtals um 14,5 milljarðar kr., en þeir falla utan gildistímaákvæðis laga um opinber fjármál þar sem heimild vegna þeirra byggist á sérlögum.
    Varðandi 5. tölul. um það hver samanlögð árleg fjárskuldbinding hvers samnings er og hvert hlutfall þeirrar skuldbindingar er af árlegri fjárveitingu þess ríkisaðila sem ber ábyrgð á samningnum, þá er í tilfelli þeirra samninga sem ráðuneytið ber ábyrgð á viðkomandi samningsskuldbinding tekin sem hlutfall af heildarfjárveitingu allra þeirra fjárlagaliða þar sem greiðslur vegna samninganna fara fram samkvæmt fjárlögum 2020. Í tilfelli stofnana er samningsskuldbindingin að sama skapi reiknuð sem hlutfall af fjárveitingu viðkomandi stofnunar í fjárlögum 2020. Að öðru leyti er vísað í nánara svar í fylgiskjali.

     9.      Hafa verið gerðir samningar um framkvæmdir, rekstur eða afmörkuð verkefni sem falla utan 40. eða 41. gr. laga um opinber fjármál?
    Já, í einhverjum tilvikum hafa verið gerðir samningar sem að falla utan gildissviðs laga um opinber fjármál. Þar er fyrst og fremst um að ræða samninga sem hafa styttri gildistíma en eitt ár en einnig samninga sem byggjast á sérlögum eins og búvörusamningarnir.

     10.      Eru í gildi samningar sem gerðir voru fyrir gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015?

    Já.


Fylgiskjal.


Samningar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 2020.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s1622-f_I.pdf