Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1623  —  776. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, með síðari breytingum (átak í fráveitumálum).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ingvarsson og Stefán Einarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Guðjón Bragason og Eygerði Margrétardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurjón Norberg Kjærnested og Gyðu Mjöll Ingólfsdóttur frá Samorku, Pál Björgvin Guðmundsson og Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Aðalbjörgu Birnu Guttormsdóttur frá Umhverfisstofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Akureyrarbæ, Fljótsdalshéraði, Norðurorku, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samorku, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Skagafirði, Umhverfisstofnun og Vestmannaeyjabæ.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkið styrki fráveituframkvæmdir fráveitna sveitarfélaga á árunum 2020–2030 með sambærilegum hætti og gert var með lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga til þess að uppfylla lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lög um stjórn vatnamála og reglugerð um fráveitur og skólp. Gert er ráð fyrir að fjárveiting til þessa verkefnis verði ákveðin af Alþingi, miðað verði við fasta fjárhæð í fjármálaáætlun og fjárlögum hverju sinni og ráðherra falin úthlutun.
    Á fundum nefndarinnar og í umsögnum sem nefndinni bárust var almennt mikilli ánægju lýst með frumvarpið, hvatt til samþykktar þess og lögð rík áhersla á að verkefninu yrði tryggt nægjanlegt fjármagn til að áform um framkvæmdir næðu fram að ganga. Nefndin telur frumvarpið til mikilla bóta en með því er stuðlað að verulegum og tímabærum úrbótum á fráveitum sveitarfélaga, íbúum og umhverfinu til góðs.

Styrkir til þegar hafinna framkvæmda.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að styrkir vegna fráveituframkvæmda yrðu einnig að ná til þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa hafið kostnaðarsamar framkvæmdir á undanförnum árum en ekki eingöngu til þeirra sveitarfélaga sem dregið hafa að fara í slíkar framkvæmdir. Á grundvelli sanngirnissjónarmiða væri rétt að styrkir til fráveituframkvæmda næðu til framkvæmda á árinu 2020 hvort sem þær hófust á árinu eða fyrir þann tíma. Nefndin áréttar að framkvæmdir frá og með 1. janúar 2020 falla undir 1. gr. frumvarpsins og eru þar af leiðandi styrkhæfar að öðrum skilyrðum uppfylltum. Með frumvarpinu er lagt til að á árunum 2020–2030 skuli styrkja fráveituframkvæmdir með framlögum úr ríkissjóði og eðlilegt að stuðningur ríkisins taki til framkvæmda innan hvers árs á því tímabili. Er það sameiginlegur skilningur nefndarinnar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Framkvæmd við úthlutun styrkja.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um mikilvægi fyrirsjáanleika og gagnsæis í umsóknarferlinu og við afgreiðslu styrkbeiðna. Æskilegt væri að umsóknir og styrkir á grundvelli þeirra næðu til nokkurra ára í senn til að auðvelda fráveitum sveitarfélaga skipulagningu framkvæmda í heild sinni. Tryggja yrði nægjanlegt fjármagn í fjármálaáætlun og fjárlögum meðan á átakinu stendur og gera raunhæfar kröfur um verklok í því sambandi þar sem ætla má að í mörgum tilvikum verði um viðamiklar, tímafrekar og kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða. Þá komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að sveitarfélög gætu gert áætlanir út frá væntingum um styrki og fyrirsjáanlegu greiðsluflæði og ráðist í framkvæmdir óháð samkomulagi um forgangsröðun framkvæmda í trausti þess að eiga von á styrk vegna framkvæmdanna síðar á tímabilinu. Með því móti gæfist tækifæri til að dreifa verkþáttum yfir tímabilið. Enn fremur var á það bent að gera þyrfti hóflegar kröfur til áætlanagerðar sveitarfélaga og umsóknarferlis þar sem of þröng skilyrði væru til þess fallin að tefja framkvæmdir.
    Nefndin áréttar að í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er fjallað um umsóknarferlið og það skilyrði sett fyrir fjárstuðningi að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun. Nánar er fjallað um fyrirkomulag styrkveitingar í athugasemdum greinargerðar við 1. gr. frumvarpsins. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að skapa fyrirsjáanleika við úthlutun fjármuna til fráveitna sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir samkomulagi um röð og tímasetningu einstakra framkvæmda, með hliðsjón af áætlunum fráveitna, til að framkvæmdir dreifist sem jafnast á árin 2020–2030 í samræmi við gildandi fjármálaáætlun hverju sinni.
    Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að umhverfis- og auðlindaráðherra útfæri nánar þau atriði, framkvæmdarlegs eðlis, sem sjónarmiðin lúta að við setningu reglugerðar á grundvelli 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Breytilegt hlutfall af heildarkostnaði.
    Fram kom að við undirbúning málsins var lagt upp með að styrkhlutfall gæti ráðist af heildarkostnaði á hvern íbúa viðkomandi sveitarfélags í þeim tilgangi að jafna svo sem kostur er kostnað einstakra sveitarfélaga. Þar sem heildarkostnaður á hvern íbúa reynist sérstaklega hár væri gert ráð fyrir að styrkhlutfallið gæti orðið hærra, allt að 30%. Var í því sambandi vísað til fyrri framkvæmdar á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995, þar sem styrkhlutfall hefði verið á bilinu 15–30%.
    Í athugasemdum greinargerðar við 1. gr. frumvarpsins kemur fram að almennt sé gengið út frá því að stuðningur ríkisins geti numið allt að 20% af heildarkostnaði framkvæmda sveitarfélaga, háð fjárlögum hverju sinni.
    Umfjöllun um atriði þetta á fundum nefndarinnar gefur ástæðu til að ætla að gott samkomulag sé um þá framkvæmd á meðal sveitarfélaga að styrkhlutfall taki mið af heildarkostnaði á hvern íbúa. Nefndin áréttar að almennt skuli styrkhlutfallið miðast við 20% af heildarkostnaði, þó þannig að tryggður verði sveigjanleiki til að mæta erfiðustu tilfellunum. Að því sögðu leggur nefndin áherslu á að umhverfis- og auðlindaráðherra útfæri nánar viðmið þess efnis í reglugerð.

Styrkhæfar framkvæmdir.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að skýra frekar í reglugerð hvaða framkvæmdir teljist styrkhæfar á grundvelli 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Í því sambandi var sérstaklega bent á að samkvæmt ákvæðinu væri hefðbundið viðhald og endurbætur á eldri kerfum ekki styrkhæft nema markmið þeirra framkvæmda væri að uppfylla lög og reglugerðir. Tryggja yrði styrkhæfni endurbóta sem rekja mætti til aukinna skyldna sem lagðar væru á sveitarfélög með hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum eða krafna sem leiddu af Evrópureglum. Þá yrði jafnframt að skýra hvers kyns framkvæmdir gætu talist til hreinsunar ofanvatns samkvæmt ákvæðinu.
    Nefndin telur sjónarmið þessi góðra gjalda verð og beinir því til umhverfis- og auðlindaráðherra að skýra inntak 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins nánar í reglugerð.

Samráð við setningu reglugerðar.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarpið er bent á mikilvægi samræmingar þegar kemur að vinnslu aðgerðaáætlunar undir lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, þar sem fram fer vinna um forgangsröðun fráveituframkvæmda sveitarfélaga sem ekki uppfylla hreinsikröfur reglugerðar um fráveitur og skólp. Fram kemur að stofnunin hafi verið í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samorku og Samband íslenskra sveitarfélaga um þær útfærslur og að sú vinna standi enn. Þar af leiðandi sé rétt að stofnunin hafi aðkomu að því samráði sem gert er ráð fyrir í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins við setningu reglugerðar um framkvæmdina.
    Nefndin telur eðlilegt og til þess fallið að bæta framkvæmd laganna að haft verði áframhaldandi samráð við Umhverfisstofnun líkt og gert var við undirbúning frumvarpsins, sbr. 5. kafla greinargerðar. Leggur nefndin því til að stofnuninni verði bætt inn í ákvæði 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Þá leggur nefndin til orðalagsbreytingu í 3. mgr. 1. gr. sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðsins ,,stafrænt“ í 3. efnismgr. komi: rafrænt.
     b.      Í stað orðanna ,,Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku“ í 4. efnismgr. komi: Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Umhverfisstofnun.

    Karl Gauti Hjaltason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan áliti þessu.

Alþingi, 4. júní 2020.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Vilhjálmur Árnason. Karl Gauti Hjaltason.