Ferill 790. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1625  —  790. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni embættis landlæknis.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir embætti landlæknis?
    Embætti landlæknis sinnir þeim lögbundnu verkefnum sem talin eru upp í 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum. Lögbundin hlutverk landlæknis eru m.a. eftirfarandi:
                  a.      að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu um málefni á verksviði embættisins,
                  b.      að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni,
                  c.      að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa og styðja við menntun á sviði lýðheilsu,
                  d.      að vinna að gæðaþróun,
                  e.      að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum,
                  f.      að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna,
                  g.      að hafa eftirlit með starfsemi lífsýnasafna og safna heilbrigðisupplýsinga í samræmi við lög um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga,
                  h.      að veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta,
                  i.      að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma,
                  j.      að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu,
                  k.      að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög,
                  l.      að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu,
                  m.      að meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið,
                  n.      að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins,
                  o.      að sinna öðrum verkefnum sem honum er falið að sinna samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Landlækni er enn fremur heimilt að gera samninga við háskólastofnanir og aðrar stofnanir um samstarf á sviði rannsókna, kennslu og þjónustu er tengjast verksviði embættisins.
    Þá skal landlæknir skv. 4. gr. a laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum, setja á fót fagráð á helstu verksviðum embættisins sem skulu vera honum til ráðgjafar, en dæmi um slíkt er fagráð landlæknis um rafræna sjúkraskrá.
    Samkvæmt 8. gr. laganna, skal landlæknir skipuleggja og halda skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Tilgangur skránna er að gera landlækni kleift að sinna framangreindum lögbundnu hlutverkum sínum, þ.e. eftirliti og gæðaþróun, afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu og meta árangur. Þá eru upplýsingar úr heilbrigðisskrám einnig notaðar við áætlunargerð, stefnumótun og önnur verkefni ráðuneytisins.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna embættis landlæknis og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 1.383 millj. kr. til rekstrar embættis landlæknis á þessu ári. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum embættisins og er ekki sundurliðuð sérstaklega.