Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1628  —  329. mál.
3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um það að nýju. Nefndin hefur fengið á sinn fund Ingvar J. Rögnvaldsson, Eddu Símonardóttur og Helgu Valborgu Steinarsdóttur frá Skattinum, Bjarna Frey Rúnarsson frá Persónuvernd og Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Upplýsingagjöf (12. gr.).
    Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins er ríkisskattstjóra skylt að láta Menntasjóðnum eða innheimtuaðila námslána í té upplýsingar um lánþega sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna, þar á meðal upplýsingar um tekjur lánþega og tekjur maka og foreldra lánþega þegar við á.
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir þess efnis að ríkisskattstjóra verði falið að meta hvaða upplýsingar eru nauðsynlegar við framkvæmd laganna. Þess í stað ætti að afmarka ákvæðið með nánari hætti.
    Meiri hlutinn áréttar að 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins er í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Meiri hlutinn fellst hins vegar á að kveða megi á með skýrari og afmarkaðri hætti um hvaða upplýsingar ríkisskattstjóra verði skylt að afhenda við framkvæmd laganna og leggur til breytingar þess efnis.

Útborgun lána, innheimta og önnur dagleg afgreiðsla (30. gr.).
    Samkvæmt 7. mgr. 30. gr. frumvarpsins er sjóðstjórn heimilt að fela bankastofnunum, embættum sýslumanna eða embætti ríkisskattstjóra útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.
    Á fundum nefndarinnar var m.a. bent á að embætti ríkisskattstjóra er innheimtumaður ríkissjóðs á höfuðborgarsvæðinu en utan þess gegna sýslumenn því hlutverki. Útborgun lána eða önnur dagleg afgreiðsla er þó ótengd innheimtuhlutverki þessara embætta og óljóst væri hvernig slík útfærsla yrði.
    Við meðferð málsins kom fram að við vinnslu frumvarpsins hefðu verið skoðaðar ýmsar útfærslur á því hvernig haga ætti endurgreiðslum af námslánum, m.a. með aðkomu ríkisskattstjóra. Með 7. mgr. 30. gr. hefði verið opnað á þann möguleika að embætti sýslumanna eða embætti ríkisskattstjóra tækju að sér verkefni vegna innheimtu og daglegrar afgreiðslu námslána. Þær útfærslur væru þó enn á byrjunarstigi.
    Með hliðsjón af framangreindu liggur ekki fyrir á þessu stigi málsins hver endanleg útfærsla 7. mgr. 30. gr. frumvarpsins verði eða hvort slík útfærsla kalli á frekari lagabreytingar. Meiri hlutinn telur æskilegt að ráðuneytið haldi áfram að skoða þessar útfærslur í samráði við viðkomandi aðila. Þá fari vel á því að sú vinna verði hluti af endurskoðun laganna sem skal fara fram innan þriggja ára frá því að lögin koma til framkvæmda. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að fella brott 7. mgr. 30. gr. frumvarpsins.
    Að auki leggur meiri hlutinn til leiðréttingar á ártali í ákvæði til bráðabirgða VIII sem mælir fyrir um endurskoðun laganna, en af samhengi ákvæðisins sem og umfjöllunar í nefndaráliti meiri hlutans (þskj. 1477) skal ráðherra kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2023 en ekki á haustþingi 2026.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      3. mgr. 12. gr. orðist svo:
                 Ríkisskattstjóra er skylt að láta Menntasjóðnum eða innheimtuaðila námslána í té upplýsingar um tekjur lánþega sem nauðsynlegar eru við ákvörðun á framfærslu og þegar lánþegi velur tekjutengda afborgun námslána skv. 21. gr., sem og upplýsingar um tekjur maka og foreldra lánþega, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     2.      7. mgr. 30. gr. falli brott.
     3.      Í stað ártalsins „2026“ í ákvæði til bráðabirgða VIII komi: 2023.

    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 5. júní 2020.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.