Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1632  —  447. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (skil ársreikninga).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur og Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Ástu Þórðardóttur og Vilhjálm Hilmarsson frá Samtökum iðnaðarins og Halldór Pálsson frá Skattinum. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Endurskoðendaráði, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins auk minnisblaðs frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða skil ársreikninga, nánar tiltekið um þá fresti sem þurfa að líða áður en ársreikningaskrá krefst skipta á búi félags vegna vanskila eða ófullnægjandi skila á ársreikningi eða samstæðureikningi og um meðferð slíkrar kröfu fyrir héraðsdómi. Jafnframt er lagt til að ársreikningaskrá verði heimilt að fella niður stjórnvaldssektir vegna ársreikningsskila samhliða slitum á félagi.
    Í umfjöllun nefndarinnar hafa ekki komið fram athugasemdir við efni frumvarpsins. Þó hefur athygli nefndarinnar verið vakin á öðrum þáttum í lögum um ársreikninga, einkum sem varða skilgreiningu á hugtakinu ársverk annars vegar og stærðarmörk félaga í tengslum við endurskoðunarskyldu hins vegar.

Lítil félög og undanþága frá endurskoðunarskyldu.
Umsögn Samtaka iðnaðarins.
    Í umsögn Samtaka iðnaðarins til nefndarinnar er bent á meginreglu 1. mgr. 96. gr. ársreikningalaga um endurskoðunarskyldu félaga og undanþágu frá þeirri reglu í 98. gr. laganna. Skv. 98. gr. þurfa félög að vera undir tveimur af þremur skilgreindum stærðarmörkum til að falla undir undanþáguheimildina. Telja samtökin að endurskoða þurfi þessi viðmið með það að markmiði að auka samræmi og bregðast við erfiðri stöðu fyrirtækja í framleiðsluiðnaði. Benda samtökin á að eigna- og tekjuviðmið samkvæmt ákvæðinu hafi haldist óbreytt frá 2014 og ekki hækkað í takti við þróun í veltu og eignum íslenskra framleiðslufyrirtækja. Því megi álykta að hlutfall fyrirtækja í framleiðsluiðnaði sem séu endurskoðunarskyld hafi hækkað á undanförnum árum. Endurskoðunarskyldan og kostnaður sem henni fylgir sé íþyngjandi fyrir minni fyrirtæki sem búi við litla arðsemi og eiga í mikilli alþjóðlegri samkeppni.
    Samtökin benda á að samkvæmt aðfararorðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB, sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt, ættu lítil fyrirtæki ekki að sæta endurskoðunarskyldu, sbr. markmið tilskipunarinnar um að draga úr stjórnsýslubyrðum og íþyngjandi kröfum með einföldun regluverks.
    Lítil félög eru skilgreind í b-lið 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga sem þau félög sem eru undir tveimur af þremur stærðarmörkum sem taka mið af eignum, veltu og fjölda ársverka. Séu viðmiðin borin saman við þau sem gilda um undanþágu frá endurskoðunarskyldu skv. 1. mgr. 98. gr. sést að fjárhæðamörk eigna og veltu til að njóta þeirrar undanþágu eru mun lægri en til að skilgreinast sem lítið félag. Viðmiðið um fjölda ársverka er hið sama í báðum tilvikum. Í umsögn sinni leggja Samtök iðnaðarins til að fjárhæðaviðmið í 1. mgr. 98. gr. verði hækkuð til samræmis við skilgreiningu laganna á litlum félögum.

Minnisblað ráðuneytisins.
    Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er bent á undanþágu 4. mgr. 96. gr. laga um ársreikninga frá meginreglunni um endurskoðunarskyldu fyrir örfélög í skilningi a-liðar 11. tölul. 2. gr. Undanþágan felst í svokölluðum „hnappsskilum“, þ.e. ársreikningi sem byggist á skattframtali félags.
    Bendir ráðuneytið á að stærðarmörk endurskoðunarskyldu hafi reglulega verið endurskoðuð í tengslum við breytingar á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur. Hafi sambærileg stærðarmörk annars staðar á Norðurlöndunum verið höfð til hliðsjónar en þar séu mörkin í flestum tilvikum umtalsvert lægri en hér á landi. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins frá 2015–2016 benti könnun ríkisskattstjóra á skattskýrslum félaga til þess að á þeim tíma hefðu 3–4% félaga verið yfir stærðarmörkum undanþáguheimildar 1. mgr. 98. gr. og þar með verið skylt að láta endurskoða ársreikninga sína. Þar sem það hafi verið sambærilegt hlutfall og á við annars staðar í Evrópu hafi ráðuneytið ekki talið ástæðu til að endurskoða fjárhæðarmörkin. Einnig beri í þessu sambandi að hafa í huga ákvæði laganna um yfirferð skoðunarmanna, gæði reikningsskila og þá einföldun sem orðið hafi á ársreikningsskilum örfélaga á undanförnum árum. 80% félaga hér á landi séu örfélög og geti skilað með „hnappnum“. Lítil félög sem þó eru yfir stærðarmörkum endurskoðunarskyldu þurfi að láta skoðunarmann yfirfara ársreikning sinn. Skoða þurfi mörk endurskoðunarskyldunnar og kröfu um yfirferð skoðunarmanna í samhengi.

Endurskoðun stærðarmarka.
    Nefndin hefur skilning á þeim sjónarmiðum sem fram koma í umsögn Samtaka iðnaðarins. Nefndin bendir á að nauðsynlegt er að ráðast í endurskoðun á IX. kafla laga um ársreikninga, m.a. að því leyti sem lýtur að fjárhæðarmörkum í 1. mgr. 98. gr. Telur nefndin rétt að við þá vinnu verði m.a. tekið mið af ákvæðum og aðfaraorðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB og breytinga sem orðið hafa á hlutfalli þeirra félaga sem endurskoðunarskyldan nær yfir síðan fjárhæðarmörkin voru síðast endurskoðuð. Jafnframt verði gætt að innra samræmi laganna með tilliti til skilgreiningar þeirra á litlum félögum. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að endurskoðun að þessu leyti fari fram og að nefndin verði upplýst um framgang hennar.

Tillaga um afgreiðslu.
    Breytingartillaga nefndarinnar er tæknilegs eðlis og hefur ekki efnisáhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað tilvísunarinnar „lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008“ í 1. málsl. 2. mgr. 104. gr. laganna kemur: lögum um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019.
     2.      Í stað „skv. 42. gr.“ í 6. tölul. c-liðar 2. gr. komi: skv. 6. mgr. 42. gr.
     3.      2. málsl. 3. gr. falli brott.

    Jón Steindór Valdimarsson og Brynjar Níelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var viðstaddur í gegnum fjarfundabúnað. Brynjar og Sigmundur Davíð skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 5. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.