Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1635  —  468. mál.
3. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum (hleðslubúnaður fyrir rafbíla).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að lögfestar verði reglur um hvernig skal hátta ákvarðanatöku um og kostnaðarskiptingu við uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús. Í frumvarpinu er lögð til veruleg breyting á réttarstöðu húseigenda sem þurfa að bera kostnað af uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir aðra íbúa fjöleignarhússins og jafnvel að kröfu einungis eins eiganda. Ákvæði frumvarpsins geta því haft í för með sér veruleg óvænt útgjöld fyrir húseigendur. Minni hlutinn telur of langt gengið í að binda hendur eigenda til að taka þátt í kostnaði við uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir rafbíla og telur ákvæði frumvarpsins jafnvel geta orðið til að valda ósætti milli húseigenda. Þá eru ýmis matskennd og óljós atriði í frumvarpinu sem skýra hefði mátt betur, svo sem í d-lið 5. gr. sem verður ný 33. gr. d um heimildir minni hluta til að fresta framkvæmdum ef sameiginlegur kostnaður telst „óvenju hár“. Í sömu grein er kveðið á um að húsfélagi sé heimilt að krefjast „hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar“ sem ekki er skýrð nánar.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að því er m.a. ætlað að liðka fyrir rafbílavæðingu í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum. Ef stefnt er að aukinni rafbílavæðingu er vissulega mikilvægt að fjölga hleðslumöguleikum og auka aðgengi að hleðslubúnaði. Minni hlutinn telur þó að sú leið sem valin er í fyrirliggjandi frumvarpi sé ekki best til þess fallin að ná þessu markmiði.
    Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu er bent á að efnahagslegir hvatar í formi fjárhagsstuðnings opinberra aðila til húseigenda, sem hafa það markmið að hraða uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús, séu mun skynsamlegri leið en valin hefur verið með frumvarpinu. Vísað er til þess að Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir slíkum styrkveitingum og sett nokkuð ítarlegar reglur um hana.
    Fyrir nefndinni kom fram að styrkveitingar Reykjavíkurborgar hafi það að markmiði að örva og flýta fyrir orkuskiptum. Styrkveitingar byggjast á samningi Reykjavíkurborgar, OR og Veitna en OR og Reykjavíkurborg leggja árlega 20 millj. kr. hvor í þrjú ár í styrktarsjóð árin 2019–2021. Styrkurinn er veittur til fjöleignarhúsa með fimm íbúðum eða fleiri og er hámarksstyrkveiting til hvers húsfélags 1,5 millj. kr. Fyrir nefndinni kom fram að ásókn hefur verið nokkuð mikil og að þegar hefur verið sótt um styrki fyrir um 989 íbúðir. Þar af hafa 265 þegar sett upp hleðslubúnað. Minni hlutinn telur að ræða hefði þurft lögfestingu sambærilegra styrkja ríkisins fyrir uppsetningu hleðslubúnaðar frekar en að leggja kostnað af uppsetningu hans á aðra húseigendur.
    Telur minni hlutinn að nefndin hafi ekki gefið sér nægilegt svigrúm til að fjalla um ýmsar hliðar málsins, m.a. möguleika á að breyta ákvæðum um kostnaðarskiptingu, leiðir til að tryggja réttindi allra húseigenda og möguleika á að tryggja húseigendum styrki til uppsetningar á hleðslubúnaði. Þá eru ýmis óljós atriði í frumvarpinu sem skýra hefði mátt nánar. Minni hlutinn getur ekki stutt samþykkt málsins að óbreyttu.

Alþingi, 5. júní 2020.

Anna Kolbrún Árnadóttir.