Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1637  —  329. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna.

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


Stöðugildi.
    Í minnisblaði mennta- og menningarmálaráðuneytis til nefndarinnar kemur fram að gert er ráð fyrir að Menntasjóðurinn fái aukið rekstrarfé til að mæta auknum kröfum um þjónustuhlutverk sjóðsins samkvæmt frumvarpinu. Jafnframt er gert ráð fyrir 10–15 stöðugildum til viðbótar hjá Menntasjóðnum.
    Við meðferð málsins hafa að mati 1. minni hlutans ekki verið veittar viðhlítandi skýringar á fjölgun starfsmanna sjóðsins. Þá skýtur það skökku við að í frumvarpinu er gert ráð fyrir auknum umsvifum annarra stofnana en samhliða því er þó ekki gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna hjá þeim stofnunum. Í ljósi þess hefði verið æskilegt að gera nánari grein fyrir þessum kostnaðarlið við mat á áhrifum lagasetningarinnar.

Flokkun Menntasjóðs námsmanna.
    Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur reikningsskilaráð haft flokkun lánasjóðsins til umfjöllunar með hliðsjón af því hvort breyta eigi flokkun stofnunarinnar frá því að vera í B-hluta yfir í A-hluta stofnun. Niðurstaða ráðsins væri að sennilega beri að flokka stofnunina til A-hluta. Við meðferð málsins kom hins vegar fram að lánasjóðurinn félli frekar undir skilgreiningu C-hluta stofnunar, sbr. 50. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.
    Með hliðsjón af því að svo virðist sem ekki ríki einhugur um flokkun lánasjóðsins ásamt því að óvissa ríkir um áhrif frumvarpsins á ríkisfjármálin telur 1. minni hluti ástæðu til að árétta að þessi flokkun verði tekin til sérstakrar skoðunar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Alþingi, 8. júní 2020.

Anna Kolbrún Árnadóttir.