Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1639  —  712. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011 (markmið og hlutverk).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Guðrúnu Dóru Brynjólfsdóttur frá Ferðamálastofu, Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stefán Vilbergsson frá Öryrkjabandalagi Íslands og Berg Þorra Benjamínsson frá Sjálfsbjörgu, landssambandi hreyfihamlaðra.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Markaðsstofu á Norðurlandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Vestfjarðastofu og Öryrkjabandalagi Íslands.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, sem endurskilgreina gildissvið laganna til að leggja áherslu á það markmið þeirra að stuðla að sjálfbærri þróun, jafnvægi og svæðisbundinni þróun í samræmi við skipulag og áætlanir einstakra landshluta, svo sem áfangastaðaáætlanir. Þannig megi stuðla að jafnri dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun hjá sveitarfélögum og einkaaðilum. Lögð er til einföldun á því ákvæði laganna er tilgreinir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til og tekinn af allur vafi um að ferðamannaleiðir, eins og þær eru skilgreindar í lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, eru styrkhæfar.
    Í greinargerð frumvarpsins segir að breytingarnar miði að því að lögin endurspegli stefnu stjórnvalda sem birtist m.a. í Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 þar sem fram kemur sú sýn að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun byggðri á þremur meginstoðum, þ.e. efnahagslegu jafnvægi, samfélagslegu jafnvægi og umhverfislegu jafnvægi, og að ferðaþjónustan verði arðsöm, samkeppnishæf og í sátt við land og þjóð.

Umfjöllun.
    Almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með efni frumvarpsins. Í umsögn Sjálfsbjargar kom þó fram það sjónarmið að ganga þyrfti úr skugga um að aðgengi væri tryggt á þeim stöðum sem fengju úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamanna. Við mat á umsóknum og úthlutunum úr sjóðnum ætti því að líta til algildrar hönnunar. Fyrir því lægju ýmis rök og var m.a. vísað til skuldbindinga íslenska ríkisins á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og jafnræðisraka.
    Að mati meiri hlutans er rétt að taka tillit til sjónarmiða um algilda hönnun þegar teknar eru ákvarðanir um úthlutanir úr sjóðnum og að lögð sé áhersla á aðgengi fyrir alla eftir fremsta megni. Jafnframt áréttar meiri hlutinn það sem fram kemur í samráðskafla frumvarpsins um að ákvæði laga um mannvirki, nr. 160/2010, um algilda hönnun gilda um mannvirkið falli það undir gildissvið laganna.
    Í umsögnum Samtaka ferðaþjónustunnar, Vestfjarðastofu og Markaðsstofu Norðurlands komu fram athugasemdir við skilgreiningu á hugtakinu „ferðamannaleið“, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum nr. 20/2016. Hugtakið er þar skilgreint sem skilgreind leið sem tengir saman ferðamannastaði. Ferðamannaleiðir geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir.
    Töldu þessir umsagnaraðilar rétt að ferðamannavegir féllu undir hugtakið, en ekki eingöngu gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir líkt og væri í núgildandi lögum. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar sagði að með öflugri uppbyggingu ferðamannavega næðist meiri dreifing ferðamanna, lífsgæði heimamanna væru aukin og aðgengi að áfangastöðum yrði bætt. Var í því samhengi bent á uppbyggingu sterks ferðamannavegakerfis í Noregi. Að mati Markaðsstofu Norðurlands yrði takmörkuð uppbygging við útskot eða áningarstaði á vegumráðasvæðum Vegagerðarinnar og nefndi Vestfjarðastofa í sinni umsögn uppbyggingu áfangastaða við akvegi.
    Meiri hlutinn telur rétt í því samhengi að minna á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það er ekki hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða að fjármagna framkvæmdir í samgöngumálum þó svo að þær geti nýst ferðaþjónustunni heldur er um sérstakan málaflokk að ræða sem heyrir undir annað ráðuneyti og sérstaka stofnun. Meiri hlutinn beinir því hins vegar til ráðuneytisins að taka til skoðunar sem fyrst hvernig bæta megi samþættingu opinberra aðila við uppbyggingu á ferðamannaleiðum og akvegum, þar á meðal skilgreina hvaða aðili beri ábyrgð á og fjármagni merkingar, upplýsingaskilti og þjónustu við almenningssalerni og uppbyggingu gönguleiða.
    Meiri hlutinn vill einnig árétta að hann telur mikilvægt að stefnt verði að því að endurskoða úthlutunarreglur sjóðsins með tilliti til möguleika á langtímafjármögnun verkefna, sem sé þá liður í því markmiði að ferðaþjónustan verði arðsöm, samkeppnishæf og sjálfbær í sátt við land og þjóð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 5. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigurður Páll Jónsson.