Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1646  —  640. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörumerki, nr. 45/1997, með síðari breytingum (EES-reglur).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson og Brynhildi Pálmarsdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Ásdísi Magnúsdóttur og Einar Karl Friðriksson frá Árnason Faktor ehf.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Árnason Faktor ehf. og Sigurjónsson og Thor ehf. og minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Efni frumvarps og markmið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vörumerki, nr. 45/1997, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 frá 16. desember 2015 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki (vörumerkjatilskipunin). Markmið tilskipunarinnar er aukin samræming vörumerkjareglna innan Evrópu og þær færðar til nútímahorfs í samræmi við nýjustu tækni. Tilskipunin felur í sér gagngera endurskoðun á fyrri tilskipunum á sviði vörumerkja og því er nauðsynlegt talið að endurskoða ákvæði laga um vörumerki og laga um félagamerki með tilliti til þeirra breytinga. Auk þess eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um vörumerki sem er ætlað að auka skýrleika og samræmingu við önnur sérlög á sviði hugverka- og einkaréttinda. Þá er lagt til að ákvæði laga um félagamerki, nr. 155/2002, verði felld inn í lög um vörumerki, nr. 45/1997, við innleiðingu tilskipunarinnar, líkt og hefur verið gert í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.
    Um markmið og efni frumvarps að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að frekari samræming á vörumerkjareglum innan Evrópusambandsins væri til bóta fyrir íslensk fyrirtæki sem hyggja á markaðssetningu erlendis og gæti auðveldað þeim að vernda hugverkaréttindi sín.
    Með 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til umtalsverðar breytingar á vörumerkjahugtakinu. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er verið að falla frá kröfunni um að vörumerki verði að vera sýnilegt tákn (e. graphically represented), eins og eldri tilskipun tilgreinir. Nægilegt verður að hægt sé að setja merki fram þannig að skráningaryfirvöld og neytendur geti áttað sig á merkinu og umfangi þeirrar verndar sem óskað er eftir. Nokkur umræða varð í nefndinni um hina rýmkuðu afmörkun, m.a. um skráningu á lykt eða bragði sem vörumerki. Í greinargerð segir að við mat á sérkenni óhefðbundins merkis sé litið til niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-2703/00, svokölluðu Sieckmann-máli. Þar eru sett fram viðmið sem notast á við þegar skráningarhæfi óhefðbundinna vörumerkja er metið. Miðað sé við að framsetning merkis sé skýr, nákvæm, heildstæð, aðgengileg, skiljanleg, endingargóð og hlutlaus. Meiri hlutinn telur jákvætt að þessi möguleiki á skráningu á lykt og bragði, sem líta má á sem hluta af nútímavæðingu vörumerkjalöggjafarinnar, sé til staðar þó í reynd geti orðið erfitt að fá slíka skráningu samþykkta.
    Í umsögn Árnason Faktor ehf. til nefndarinnar er sett fram það sjónarmið að bæta hefði mátt í frumvarpið ákvæði til breytingar á 14. gr. laganna í þá átt að hægt sé að banna að skrá vörumerki „ brjóti það á eldra vel þekktu merki“. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að litið hefur verið svo á að fullnægjandi sé fyrir vörumerkjaeigendur að beita fyrir sig 4. gr. laganna um vernd vel þekktra vörumerkja þegar andmæla á skráningu vörumerkis og andmælandi telur merki sitt svo vel þekkt að það skuli njóti víðtækari verndar. Í slíkum málum eru lögð fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að merkið sem um ræðir sé vel þekkt. Ekki sé því nauðsynlegt að vernd vel þekktra vörumerkja sé sett fram bæði í 4. gr. laganna og 14. gr. þeirra og leggur meiri hlutinn ekki til breytingar þar að lútandi.
    Með 2. mgr. 21. gr. frumvarpsins er lagt til það nýmæli, sbr. 2. mgr. 49. gr. tilskipunar, að Hugverkastofan skuli tilkynna eiganda vörumerkis að skráningartímabil sé að renna út og að það skuli gert að minnsta kosti sex mánuðum áður en tímabili lýkur. Sigurjónsson & Thor gera í umsögn sinni um málið athugasemd við það fyrirkomulag og telja m.a. að skýra þurfi hvort Hugverkastofan hyggist senda umboðsmönnum slíka tilkynningu þegar þeir eru til staðar eða sendi þess í stað eigendum skráninga slíka tilkynningu beint, þrátt fyrir umboðsmenn. Meiri hlutinn telur að svo komnu máli ekki ástæðu til að leggja til breytingu þar að lútandi en beinir því til ráðuneytisins að skýrt verði kveðið á um ferli slíkra tilkynninga í reglugerð.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að í frumvarpinu væri mikilvægt að gæta að bæði hugtakanotkun og samræmi í orðalagi við ákvæði laganna. Í umsögn Árnason Faktor ehf. er lagt til við nefndina að orðalagi í ákvæðum 7. , 8. og 9. gr. sé breytt til samræmis við 4. gr., með því að orðasambandið „ef hætt er við ruglingi“ sé notað í stað „ef villast má á“ m.a. með hliðsjón af innra samræmi laganna. Meiri hluti nefndarinnar fellst á þau sjónarmið og leggur til viðeigandi breytingar þar um, með hliðsjón af því að um er að ræða orðfæri sem hefur fest sig í sessi á þessu afmarkaða réttarsviði.
    Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu eru að kveðið sé skýrar á um stjórnsýslulegt ferli við niðurfellingu skráðra vörumerkja, sbr. ákvæði 28. og 30. gr. a í lögunum. Gert er ráð fyrir að því ferli sé skipt í tvennt til samræmis við ákvæði tilskipunar. Annars vegar ógildingu vörumerkjaskráningar, svo sem vegna notkunarleysis, og hins vegar niðurfellingu skráningar, svo sem ef vörumerki telst ekki hafa uppfyllt skilyrði skráningar. Í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til nefndarinnar eru lagðar til breytingar er varða heimild ráðherra til þess að setja nánari reglur um andmæla- og ógildingarmál, sbr. 65. gr. laganna. Í því ákvæði er ekki gert ráð fyrir hinu tvískipta ferli og því nauðsynlegt að breyta ákvæðinu til að sú heimild ráðherra endurspegli það. Meiri hlutinn fellst á það sjónarmið og leggur til viðeigandi breytingu á frumvarpinu.

Gildistökuákvæði og lagaskil.
    Í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til nefndarinnar er lagt til að gildistökuákvæði frumvarpsins, 33. gr., verði breytt þannig að lögin taki gildi 1. september 2020, í stað þess að þau öðlist þegar gildi. Slík breyting veiti Hugverkastofunni svigrúm til þeirra tæknilegu aðlagana sem nauðsynlegar eru verði frumvarp þetta að lögum. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur því til breytingar til samræmis. Jafnframt leggur meiri hlutinn, að höfðu samráði við ráðuneytið, til breytingu á 34. gr. er kveður á um lagaskil, þar sem gert er skýrar að ákvæði 20. gr. tekur aðeins til umsókna sem berast Hugverkastofu eftir gildistöku laganna, verði frumvarp þetta að lögum.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans en þær sem að framan er getið eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 5. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigurður Páll Jónsson.