Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1661  —  776. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, með síðari breytingum (átak í fráveitumálum).

(Eftir 2. umræðu, 9. júní.)


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á árunum 2020–2030 skal veita framlag úr ríkissjóði sem nemur hlutdeild í kostnaði við fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.
    Styrkhæfar fráveituframkvæmdir skv. 1. mgr. eru framkvæmdir við sniðræsi frá safnkerfum fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Jafnframt eru styrkhæfar framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts. Kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum njóta ekki fjárstuðnings. Sama gildir um hefðbundið viðhald og endurbætur á eldri kerfum. Þó eru endurbætur á eldri kerfum styrkhæfar sé markmið með þeim að uppfylla lög og reglugerðir.
    Ráðherra auglýsir árlega eftir umsóknum frá fráveitum sveitarfélaga um styrkhæf verkefni á vef ráðuneytisins. Umsækjendum er gert að sækja um styrki rafrænt og skulu umsókninni fylgja greinargóðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað. Skilyrði fyrir fjárstuðningi er að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun.
    Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmdina í reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Umhverfisstofnun, þar á meðal um tímafresti, forgangsröðun framkvæmda og nánar um gögn sem þurfa að fylgja umsóknum og uppgjöri.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.