Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1671  —  711. mál.




Frumvarp til laga


um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð.

(Eftir 2. umræðu, 9. júní.)


1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

2. gr.
Sérstakur sjóður.

    Starfrækja skal sérstakan sjóð, Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra.
    Ráðherra er heimilt að fela þriðja aðila með samningi faglega umsýslu sjóðsins.

3. gr.
Hlutverk.

    Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóði er heimilt að fjárfesta í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og uppfylla skilyrði laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra. Að hámarki getur eignarhlutur sjóðsins numið 30% í viðkomandi sérhæfðum sjóði, eða 2 milljörðum kr.

4. gr.
Stjórn.

    Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs til fjögurra ára í senn. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, annar samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og þrír án tilnefningar og skal einn þeirra skipaður formaður. Stjórnarmenn skulu hafa haldgóða þekkingu á fjárfestingarstarfsemi og/eða rekstri sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
    Stjórnin hefur yfirumsjón með starfsemi Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs. Verkefni stjórnar eru m.a.:
     1.      gerð starfsreglna sem staðfestar skulu af ráðherra,
     2.      að hafa yfirumsjón með rekstri og umsýslu sjóðsins,
     3.      að auglýsa eftir umsóknum um þátttöku í sérhæfðum sjóðum,
     4.      mat á umsóknum um þátttöku í sérhæfðum sjóðum,
     5.      ákvarðanir um þátttöku í sérhæfðum sjóðum og samningagerð varðandi slíka þátttöku,
     6.      gerð ársreiknings og ársskýrslu um starfsemi og fjárfestingar sjóðsins til ráðherra,
     7.      ávöxtun eigin fjár.
    Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.
    Ákvarðanir stjórnar Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

5. gr.
Rekstur.

    Ráðstöfunarfé Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs er:
     1.      framlag úr ríkissjóði sem veitt er á fjárlögum hverju sinni,
     2.      arður af fé sjóðsins,
     3.      aðrar tekjur.
    Allur kostnaður af rekstri Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs greiðist af fé sjóðsins.

6. gr.
Endurskoðun reikninga.

    Stjórn Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs skal láta semja ársreikning í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun ársreiknings sjóðsins.

7. gr.
Þagnarskylda.

    Stjórnarmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk samkvæmt lögum þessum eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum í tengslum við verk sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir.

8. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um skilyrði fyrir fjárfestingum og hvernig staðið skuli að fjárfestingum að öðru leyti, undirbúning ákvarðana stjórnar, ávöxtun eigin fjár sem er ekki bundið í fjárfestingum og önnur atriði sem nauðsynleg eru til að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.