Ferill 769. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1677  —  769. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Póst- og fjarskiptastofnun?
    Um verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar er fjallað í 3. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Þar segir eftirfarandi:
     1.      Að annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Stofnunin skal framfylgja lögunum og stuðla að því að markmið þeirra náist.
     2.      Að stuðla að samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti með því m.a. að vinna gegn röskun eða takmörkun samkeppni á mörkuðum fjarskipta- og póstþjónustu, hvetja til skilvirkra fjárfestinga í innviðum fjarskipta, stuðla að nýbreytni og ýta undir hagnýta notkun tíðna og númera og viðhafa skilvirka stjórn á notkun þessara gæða.
     3.      Að taka þátt í þróun markaðar fyrir fjarskipta- og póstþjónustu og upplýsingatækni með því m.a. að vinna gegn hindrunum í vegi framboðs á fjarskiptanetum, aðstöðu og þjónustu sem þeim tengist og fjarskipta- og póstþjónustu, hvetja til uppsetningar og þróunar fjarskiptaneta og gagnvirkni þjónustu sem nær til allra ríkja innan EES, stuðla að því að gætt sé jafnræðis við meðhöndlun fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda sem búa við sömu aðstæður, eiga samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir í EES og Eftirlitsstofnun EFTA í þeim tilgangi að koma á samræmdum eftirlitsháttum og samræmdri túlkun löggjafar, stuðla að samruna fjarskiptatækni og upplýsingatækni og stuðla að þróun upplýsingasamfélagsins með markvissri innleiðingu nýrrar tækni og vinnubragða.
     4.      Að gæta hagsmuna almennings með því m.a. að vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu, stuðla að vernd neytenda í viðskiptum þeirra við fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur, vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs, stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæi gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar fjarskipta- og póstþjónustu, tryggja hag notenda, þ.m.t. einstakra þjóðfélagshópa, svo sem öryrkja, sem best að því er varðar val, verð og gæði og tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið.
     5.      Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála. Skal stofnunin beina tilmælum um breytingar á lögum og reglugerðum til ráðherra ef þess gerist þörf.
     6.      Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála.
     7.      Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Póst- og fjarskiptastofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Í fjárlögum fyrir árið 2020 nemur fjárheimild til Póst- og fjarskiptastofnunar 494,7 millj. kr. árið 2020 að meðtalinni heimild til fjárfestinga. Í fjárlögum er kostnaður ekki áætlaður niður á lögbundin verkefni.
    Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er gróf áætlun Póst- og fjarskiptastofnunar um hlutfallsskiptingu kostnaðar ársins 2020 vegna lögbundinna verkefna eftirfarandi:

Að annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Stofnunin skal framfylgja lögunum og stuðla að því að markmið þeirra náist. 22%
Að stuðla að samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. 43%
Að taka þátt í þróun markaðar fyrir fjarskipta- og póstþjónustu og upplýsingatækni. 19%
Að gæta hagsmuna almennings […] og tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið. 12%
Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála. 1%
Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála. 3%