Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1680  —  439. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (þjónustustig, fagráð o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Birgit Ómarsdóttur, Birgi Jakobsson, Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Ástu Valdimarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Önnu Margréti Halldórsdóttur og Theódór Skúla Sigurðsson frá læknaráði Landspítala, Mörtu Jónsdóttur og Þóru Gunnarsdóttur frá hjúkrunarráði Landspítala, Reyni Arngrímsson og Dögg Pálsdóttur frá Læknafélagi Íslands, Arndísi Jónsdóttur og Aðalbjörgu J. Finnbogadóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Unni Pétursdóttur frá Félagi sjúkraþjálfara, Söndru B. Franks frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur frá Landspítala, Bjarna Smára Jónasson frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Laufeyju Hrólfsdóttur frá vinnuhópi Sjúkrahússins á Akureyri, Dagrúnu Hálfdánardóttur frá embætti landlæknis og Önnu Guðrúnu Björnsdóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Nefndinni bárust umsagnir frá embætti landlæknis, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, félagi læknanema, Félagi sjúkraþjálfara, hjúkrunarráði Landspítala, Landspítala, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landspítala, læknaráði Sjúkrahússins á Akureyri, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Sjúkraliðafélagi Íslands og vinnuhópi Sjúkrahússins á Akureyri.
    Með frumvarpinu er lagt til að lög um heilbrigðisþjónustu verði færð til samræmis við þingsályktun nr. 29/149 um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Lagt er til að skilgreiningum laganna á heilbrigðisþjónustu verði skipt í þrjú stig. Þá eru lagðar til breytingar sem ætlað er að skýra hlutverk heilbrigðisstofnana auk þess sem breytingar eru gerðar á ákvæðum laganna um framkvæmdastjórnir og fagráð.

Skilgreiningar (1. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að skilgreiningu á heilbrigðisþjónustu verði skipt í fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að við ákvörðun stigskiptingar verði að horfa til þess hvernig móta eigi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu og að taka afstöðu til þess hvaða heilbrigðisþjónusta verði veitt inni á heimilum fólks. Þá voru gerðar athugasemdir við að endurhæfing væri ekki skilgreind sem hluti af annars stigs heilbrigðisþjónustu. Að auki væri eðlilegt að tilgreina í 12. tölul. 4. gr. laganna það þjónustustig sem veitt er á starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna, þ.e. annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta. Til viðbótar var bent á hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta sem væri orðið tímabært að skilgreina í lögum.
    Meiri hlutinn telur að endurhæfing sé í raun hluti af annars stigs heilbrigðisþjónustu líkt og hún er skilgreind í c-lið 1. gr. frumvarpsins þó að hún geti vissulega fallið undir önnur stig heilbrigðisþjónustu sem skilgreind eru í 1. gr. frumvarpsins. Því sé ekki þörf á að skilgreina hana sérstaklega sem hluta af annars stigs heilbrigðisþjónustu.
    Að mati meiri hlutans getur fjarheilbrigðisþjónusta átt við öll stig heilbrigðisþjónustu að einhverju leyti þótt oftast sé um fyrsta eða annað stig þjónustu að ræða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sett sé fram skilgreining í lögum á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónusta og leggur því til breytingartillögu um nýtt bráðabirgðaákvæði þess efnis að ráðherra skuli skipa starfshóp sem hafi það verkefni að leggja fram tillögur að skilgreiningu á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónusta. Hópurinn skal skila niðurstöðu sinni til ráðherra fyrir 1. júní 2021 og ráðherra skal í kjölfarið flytja þinginu munnlega skýrslu um niðurstöður starfshópsins.

Skipulag heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigðisstofnanir (3. gr.).
    Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heilbrigðisstofnanir skv. 1. mgr. greinarinnar skuli taka að sér kennslu heilbrigðisstétta á grundvelli samninga við menntastofnanir, kennslusjúkrahús og háskólasjúkrahús. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að einnig þyrfti að gera ráð fyrir að starfsstofur sjúkraþjálfara gætu annast klíníska kennslu sjúkraþjálfunarnema.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að í einhverjum tilvikum kunni starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna að taka að sér klíníska kennslu nema. Slíkt geti t.d. átt við um starfsstofur sjúkraþjálfara og á hjúkrunarheimilum hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum og fleirum.
    Meiri hlutinn áréttar þó að 3. gr. frumvarpsins snýr að heilbrigðisstofnunum og skyldu þeirra til að taka að sér kennslu heilbrigðisstétta á grundvelli samninga. Meiri hlutinn fær ekki séð að ákvæðið komi í veg fyrir að klínísk kennsla nemenda geti farið fram á starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna á grundvelli samninga við viðeigandi menntastofnun, heldur er aðeins ítrekað að slíkt sé ekki skylda.

Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri (a- og b-liðir 5. gr.).
    Í a-lið 5. gr. (7. gr. a) frumvarpsins er kveðið á um starfsemi Landspítala og hlutverk hans skilgreint í samræmi við stöðu hans í heilbrigðiskerfinu sem aðalsjúkrahúss landsins og háskólasjúkrahúss. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að kveðið væri skýrt á um að hlutverk spítalans væri jafnframt að annast sérmenntun sem og veita fjármagn og aðstöðu til vísindarannsókna og fræðastarfa.
    Í b-lið 5. gr. (7. gr. b) frumvarpsins er kveðið á um starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri og það skilgreint í samræmi við stöðu þess í heilbrigðiskerfinu sem kennslusjúkrahúss. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að hlutverk þess væri jafnframt að annast sérmenntun. Þá var nefndinni bent á að ef sjúkrahúsið ætti að eiga þess kost að vera háskólasjúkrahús þyrfti að fella brott skilgreiningu þess sem kennslusjúkrahúss í lögum. Þess í stað ætti að skilgreina stöðu sjúkrahússins í reglugerð.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Sjúkrahúsið á Akureyri hefði fengið viðurkenningu sem stofnun fyrir kennslu í framhaldsnámi í heimilislækningum, lyflækningum og samþættu kjarnanámi í bráðagreinum lyflækninga. Þá gætu sérnámslæknar í heimilislækningum klárað sjúkrahúshluta námsins á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en í öðrum greinum væri námið útfært í samstarfi við Landspítalann. Einnig hefðu hjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem öðlast sérfræðileyfi í hjúkrun uppfyllt klínískan hluta viðurkenningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið um að Sjúkrahúsið á Akureyri hafi hlutverki að gegna við sérmenntun heilbrigðisstarfsmanna og leggur meiri hlutinn því til breytingartillögu við b-lið 5. gr. (7. gr. b) frumvarpsins þess efnis að Sjúkrahúsið á Akureyri taki þátt í að veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum í samstarfi við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir.
    Meiri hlutinn bendir á að þörf sé á að skilgreina skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt til að stofnun geti starfað sem háskólasjúkrahús eða háskólaeining. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 komi fram að almennt sé talið að grundvöllur fyrir starfsemi háskólasjúkrahúss sé ein til tvær milljónir íbúa. Það liggi því í augum uppi að ekki sé grundvöllur fyrir fleiri en einu háskólasjúkrahúsi á Íslandi. Aðstæður hér á landi geri það þó að verkum að leita þurfi nýrra leiða við menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks svo að unnt sé að manna heilbrigðisþjónustu á landinu. Í því geti m.a. falist að menntun og þjálfun heilbrigðisstétta flytjist í auknum mæli til menntastofnana á landsbyggðinni. Heilbrigðisstofnanir eða einingar innan heilbrigðisstofnana geti því öðlast háskólastöðu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Slíkar ákvarðanir um heilbrigðisþjónustu sem feli jafnframt í sér hlutverk háskólastarfsemi þurfi þó að vera vel ígrundaðar og miða að því að bæta heilbrigðisþjónustu, efla vísindastarf og menntun heilbrigðisstarfsfólks og aðlaga menntun þess að þörfum íslenskrar heilbrigðisþjónustu.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að kanna hvernig útfærslu slíkra mála sé háttað í nágrannalöndum varðandi viðurkenningu á slíkum stofnunum og hvaða skilyrði séu gerð fyrir slíkri viðurkenningu og hvers konar fyrirkomulag sé heppilegt að taka upp hér á landi.
    Meiri hlutinn áréttar að hlutverk Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri eru ekki tæmandi talin í ákvæðunum og er ráðherra gert að setja reglugerð sem kveður nánar á um hlutverk og starfsemi spítalans og þá heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt.

Hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými, dvalarrými og dagvöl (c-, d- og e-liðir 5. gr.).
    Við meðferð málsins var bent á að í ákvæðum um Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri, sbr. a- og b-lið 5. gr. (7. gr. a og 7. gr. b) frumvarpsins, er vísað til þess hvaða þjónustustig skuli veitt á þeim stofnunum. Til að gæta samræmis þyrfti einnig að vísa til þjónustustigs sem veitt er á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum sem og í dagdvöl, sbr. c-, d- og e-lið 5. gr. (7. gr. c, 7. gr. d og 7. gr. e) frumvarpsins.
    Meiri hlutinn bendir á í þessu sambandi að í b-, c- og d-lið 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til skilgreiningar á þjónustustigum heilbrigðisþjónustu og hvaða starfsemi falli undir hvert og eitt stig. Að mati meiri hlutans er því ekki þörf á að vísa sérstaklega til þjónustustiga sem heyra undir starfsemi sem mælt er fyrir um í c-, d- og e-lið 5. gr. frumvarpsins. Á hjúkrunarheimilum koma á hinn bóginn eðli málsins samkvæmt upp aðstæður þar sem nauðsynlegt getur talist að veita annars stigs heilbrigðisþjónustu þó að starfsemin heyri almennt undir fyrsta stigs þjónustu. Meiri hlutinn áréttar að það eigi ekki að koma í veg fyrir að samningar séu gerðir vegna greiðslna fyrir slíka þjónustu.

Forstjórar heilbrigðisstofnana (7. gr.).
    Í b-lið 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 5. mgr. 9. gr. laganna á þann hátt að um skyldur og ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnana gildi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með þeirri breytingu verður heimild til þess að ráða starfsmenn sem gegna stjórnunarstöðum tímabundið til allt að fimm ára felld brott. Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á að gert væri ráð fyrir að umrædd heimild yrði felld brott án nánari útskýringar.
    Í greinargerð með frumvarpinu er ekki sérstaklega vikið að ástæðum þess að heimildin verði ekki lengur til staðar. Einungis er talið nægjanlegt að vísað sé til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, hvað varðar skyldur og ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnana.
    Meiri hlutinn bendir á að umrædd heimild er frávik frá almennri reglu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en samkvæmt henni er óheimilt að gera tímabundna ráðningarsamninga við ríkisstarfsmenn lengur en í tvö ár. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, kemur fram að ástæður fyrir því að slík heimild var lögð til var annars vegar þörf Landspítalans til að ráða yfirmenn á spítalann, sem jafnframt hafa á hendi starf kennara við háskóla, tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára, og hins vegar var almennt talið að heppilegt gæti verið að heimilt væri að skipta reglulega um stjórnendur á einstökum sviðum innan heilbrigðisstofnana. Að mati meiri hlutans er eðlilegt að almennar reglur gildi um þennan hóp starfsmanna. Ef þörf er á starfsfólki í lengri tíma en til tveggja ára eigi almennar reglur laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að gilda.

Fagstjórnendur (8. gr.).
    Í 8. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til fella brott ákvæði sem kveða á um faglega ábyrgð yfirlækna og deildarstjóra hjúkrunar.
    Við meðferð málsins var því mótmælt að ákvæði þessi féllu brott og forstjóra þess í stað veit vald til að ákveða hvernig faglegri stjórnun yrði háttað. Enn fremur virðist forstjóra ekki vera skylt að fela t.d. hjúkrunarfræðingum faglega ábyrgð á hjúkrun. Þannig væri hætta á að fagleg ábyrgð dreifðist og yrði ekki nægilega vel skilgreind. Í því samhengi var áréttað að í greinargerð frumvarpsins kæmi fram að á forstjóra hvíldi sú skylda að tryggja að skýrt væri hverjir færu með faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem veitt væri innan viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Því væri mikilvægt að sú ábyrgð yrði falin þeim sem hafa mesta faglega hæfni á hverju sviði.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið um að með því að fella brott ákvæði um faglega stjórnendur geti fagleg ábyrgð dreifst og orðið óskýrari. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að a-liður 8. gr. frumvarpsins falli brott og þar með haldist ákvæði gildandi laga sem kveða á um annars vegar stöður yfirlækna sérgreina eða sérdeilda innan heilbrigðisstofnunar og faglega ábyrgð þeirra á læknisþjónustu og hins vegar stöður deildarstjóra hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana og faglega ábyrgð þeirra á hjúkrunarþjónustu.

Skipurit heilbrigðisstofnana (9. gr.).
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir við það að fella brott 11. gr. laganna um skipurit heilbrigðisstofnana og veita þannig forstjóra heilbrigðisstofnana einum umboð til þess að gera grundvallarbreytingar á ábyrgðarsviðum og stjórnun stofnana. Með þessu fyrirkomulagi sé hætta á að ekki verði nógu góð yfirsýn yfir stjórnskipulag heilbrigðisstofnana. Í þessu samhengi var bent á álit umboðsmanns Alþingis, nr. 9841/2018, um eftirlit ráðherra með stjórnskipulagi heilbrigðisstofnana í formi staðfestingar á skipuriti stofnunar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Þá var bent á þann möguleika að í stað staðfestingar ráðherra yrði kveðið á um skipun stjórnar yfir stærri heilbrigðisstofnunum sem hefði m.a. það hlutverk að samþykkja skipurit.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið um að með því að afnema skyldu forstjóra til að gera skipurit stofnunar verði hætta á að yfirsýn tapist yfir skipulag heilbrigðisstofnunar. Meiri hlutinn telur að með því að forstjóri geri skipurit í samráði við framkvæmdastjórn, sé slík stjórn starfandi við heilbrigðisstofnunina samkvæmt skipuriti, og kynni það fyrir ráðherra ásamt rökstuðningi fyrir skipuritinu áður en það tekur gildi fáist aðhald að forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar varðandi stjórnskipulag stofnunarinnar. Meiri hlutinn leggur því til breytingartillögu þess efnis að orðalag 11. gr. laganna breytist til samræmis við framangreint.
    Með 9. gr. frumvarpsins er einnig felld brott 12. gr. laganna sem kveður á um skyldu til að starfrækja framkvæmdastjórn á heilbrigðisstofnun, undir yfirstjórn forstjóra. Telja má að ekki sé alltaf þörf á framkvæmdastjórn á heilbrigðisstofnun enda sé starfsemi slíkra stofnana mismikil að umfangi. Að mati meiri hlutans eigi ákvörðun um það hvort þörf sé á sérstakri framkvæmdastjórn á heilbrigðisstofnun að vera í höndum forstjóra og koma fram í skipuriti viðkomandi stofnunar.

Fagráð (10. gr.).
    Í 13. gr. laganna er kveðið á um skyldu háskóla- og kennslusjúkrahúsa til að vera með starfandi læknaráð og hjúkrunarráð og eftir atvikum önnur fagráð. Með 10. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott úr lögunum ákvæði um slík fagráð en þess í stað komi þverfaglegt ráð allra fagstétta heilbrigðisstarfsfólks innan heilbrigðisstofnana forstjóra til ráðgjafar og stuðnings, og verður skylda til skipunar sérstaks fagráðs almennt bundin við heilbrigðisstofnanir.
    Í þónokkrum umsögnum var því harðlega mótmælt að fella niður læknaráð og hjúkrunarráð, enda gegni þessi ráð mikilvægu hlutverki og myndi ráðin mótvægi við vald forstjóra. Þess í stað ætti að efla enn frekar þau ráð sem nú þegar væru til staðar sem og hvetja aðrar fagstéttir til að stofna fagráð samkvæmt heimild í lögunum. Þá ætti að hvetja til frekara samstarfs og samráðs fagráðanna, t.d. með því að kveða á um samstarfsvettvang fagráða innan stofnunar sé um fleiri en eitt fagráð innan stofnunarinnar að ræða.
    Þá komu fram sjónarmið um að fagráð, sem samsett er úr mörgum stéttum, yrði í besta falli stórt og óskilvirkt og að óljóst væri hvort slíkt geti verið til hagsbóta fyrir þverfaglega samvinnu eða bætt þjónustu við sjúklinginn. Mikilvægt væri að gera a.m.k. ráð fyrir að faghópar gætu haft sínar undirdeildir innan fagráðs heilbrigðisstofnunar. Enn fremur væri óljóst hvernig skyldi skipað í umrætt fagráð.
    Aftur á móti komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að gaumgæfa skipan, verksvið og verklag fagráða heilbrigðisstofnana í ljósi þess að á Íslandi eru samtals 35 heilbrigðisstéttir. Hægt væri að kveða á um slíkt í reglugerð en jafnframt áréttað mikilvægi þess að hafa samráð við þær heilbrigðisstéttir sem um ræðir.
    Að auki var bent á að ákvæði 3. mgr. 13. gr. laganna sé mun afmarkaðra en ákvæði 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu ber forstjóra að leita álits fagráða um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu stofnunarinnar, en samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu ber forstjóra einnig að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða rekstur og skipulag heilbrigðisstofnunarinnar. Þannig megi skilja orðalag 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins á þann hátt að flest eða allt það sem lúti að stjórnun heilbrigðisstofnana þurfi að bera undir fagráð. Afmarka ætti ákvæðið einvörðungu við mikilvægar ákvarðanir sem varði heilbrigðisþjónustu.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að hlutverk fagráða sé mikilvægt. Meiri hlutinn ítrekar að á heilbrigðisstofnunum starfa margar fagstéttir og aðkoma þeirra að skipulagi stofnunar er mikilvæg í nútímaheilbrigðisþjónustu.
    Starfsemi heilbrigðisstofnana er fjölbreytt og ljóst að hlutföll einstakra stétta heilbrigðisstarfsfólks geta verið mismunandi milli stofnana, allt eftir eðli og umfangi starfseminnar. Fagráð innan stofnana geta því verið fjölbreytt og skipuð starfsfólki af ýmsum stéttum, öðrum en læknum og hjúkrunarfræðingum, til að mynda á endurhæfingarstofnunum. Að mati meiri hlutans er ástæða til að kveða á um að ráðherra setji í reglugerð leiðbeiningar um skipan og verklag fagráða heilbrigðisstofnana, líkt og lagt er til í frumvarpinu.
    Þá telur meiri hlutinn að við skipan fagráða sé eðlilegt að forstjóri hafi samráð við þær heilbrigðisstéttir sem starfa á stofnuninni með tilliti til samsetningar þeirra, sem og með tilliti til þess hvort ástæða sé til að skipa fleiri en eitt fagráð eða undirhópa þeirra. Eðlilegt sé að fyrirkomulag fagráða og undirhópa þeirra taki mið af eðli og umfangi starfsemi hverrar heilbrigðisstofnunar og þannig geti til að mynda verið eðlilegt að hafa mörg fagráð á sumum stofnunum.
    Meiri hlutinn tekur einnig undir framangreind sjónarmið um að ekki sé ástæða til að skylda forstjóra heilbrigðisstofnunar til að leita til fagráða um mikilvægar ákvarðanir er varða rekstur stofnunarinnar. Meiri hlutinn hafi skilning á því að oft kunni rekstur, skipulag og veiting heilbrigðisþjónustu heilbrigðisstofnunar að fléttast saman. Því geti verið tilefni til þess að forstjóri beri ákvarðanir sem teljist rekstrarlegar undir fagráð stofnunarinnar. Ekki sé þó talin ástæða til þess að leggja þá fortakslausu skyldu á forstjóra að bera rekstrarlegar ákvarðanir undir fagráð. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að skylda forstjóra til að leita álits fagráða taki einvörðungu til mikilvægra ákvarðana er varða heilbrigðisþjónustu og skipulag.

Annað.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til minni háttar breytingar til leiðréttingar og lagfæringar. Þær breytingar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 8. júní 2020.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.