Ferill 709. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1694  —  709. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum um skráningu raunverulegra eigenda (ráðstafanir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Drífu Sigurðardóttur og Teit Sveinsson frá dómsmálaráðuneyti, Margréti Arnheiði Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Björk Sigurgísladóttur og Helgu Rut Eysteinsdóttur frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands, Önnu Harðardóttur, Ingileif Eyleifsdóttur, Birki Guðlaugsson og Stefán Skjaldarson frá Skattinum og Matthildi Sveinsdóttur og Guðmundu Áslaugu Geirsdóttur frá Neytendastofu.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá dómsmálaráðuneyti, Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna, Neytendastofu, Persónuvernd, Rauða krossinum á Íslandi og Skattinum. Þá barst nefndinni sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Með frumvarpinu er lagt til að ljúka innleiðingu ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 auk nokkurra breytinga sem leiðir af reynslu af fyrri beitingu. Tilskipunin er nefnd fimmta peningaþvættistilskipun ESB.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Fjárhæðarmörk og atvinnugreinar (1. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 1. gr. frumvarpsins um breytingar á 1. mgr. 2. gr. laganna. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á a-lið sem ætlað er að taka af öll tvímæli varðandi eftirlitshlutverk Skattsins gagnvart lánamiðlurum sem eru einnig bifreiðasalar.
    Í öðru lagi er bætt við upptalningu n-liðar. Með viðbótinni er gert ráð fyrir því að undir n-lið falli einnig bifreiðasalar og fasteignafélög.
    Í þriðja lagi er lagt að skartgripa- og gullsölum verði bætt við þá aðila er falla undir gildissvið laganna í samræmi við tillögu Skattsins þar að lútandi.
    Í fjórða lagi eru lagðar til orðalagsbreytingar á r-lið sem ekki er ætlað að fela í sér efnislegar breytingar.
    Í fimmta lagi er lagt til að bætt verði við nýjum staflið sem varðar fríhafnir sem eiga í viðskiptum með listmuni.
    Breytingarnar miða m.a. að því að aðlaga frumvarpið reynslu af beitingu laga nr. 140/2018, um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Undanþága frá skyldu til að framkvæma áhættumat (3. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til að 3. gr. frumvarpsins sem fellir brott 3. mgr. 5. gr. laganna, um heimild til að veita undanþágu frá skyldu til að framkvæma áhættumat, falli brott.

Skrá um bankareikninga (8. gr.).
    Nefndinni barst minnisblað frá dómsmálaráðuneyti þar sem lagðar eru til breytingar á 8. gr. frumvarpsins. Í minnisblaðinu segir m.a.:
    „Í kjölfar nánari athugunar innan dómsmálaráðuneytisins þykir rétt að leggja til að tilvísunin til „annarrar refsiverðrar háttsemi“ í 3. mgr. greinarinnar verði felld brott. Þá þykir rétt að í stað orðalagsins „annarra embætta“ samkvæmt sömu málsgrein verði vísað með beinum hætti til eftirlitsaðila samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Frumvarpið var samið í þeim tilgangi að ljúka við innleiðingu fimmtu peningaþvættistilskipunarinnar. Í tilskipuninni segir að upplýsingar í skrá um bankareikninga skuli vera aðgengilegar bærum stjórnvöldum í þeim tilgangi að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni. Ekki er vísað til annarrar refsiverðrar háttsemi í þessu sambandi, heldur er ákvæðinu ætlað að kveða á um aðgang þar til bærra stjórnvalda, í þeim tilgangi að uppfylla ákvæði peningaþvættistilskipunarinnar.
    Rétt er að geta þess að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 2019/1153 hefur aðgengi að skrá um bankareikninga verið breytt þannig að löggæsluyfirvöld sem rannsaka alvarleg afbrot skuli einnig hafa aðgang að skránni. Sú tilskipun fellur hins vegar ekki að gildissviði EES-samningsins, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.
    Með vísan til framangreinds er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að skýrt verði að tilgangur skrárinnar er eingöngu að veita tilteknum yfirvöldum aðgang að ákveðnum upplýsingum til þess að geta uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um peningaþvætti.
    Að auki þykir rétt að breyta 5. mgr. 8. greinar frumvarpsins þannig að í stað orðsins „stofnun“ komi „starfrækslu“ og að bætt verði við vísun til þess að í reglugerð verði kveðið á um hvaða stofnun skuli starfrækja skrána. Þetta er gert til þess að taka af vafa um það að til skrárinnar um bankareikninga er stofnað með frumvarpinu en ekki með reglugerð. Af þeim breytingum sem lagðar eru til hér að ofan leiðir jafnframt að ekki þarf lengur að kveða á um aðgengi að skrá um bankareikninga í reglugerð og yrði því vísun til þess tekin út. Þá verði bætt við vísun til þess að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir ákvæðum greinarinnar, meðal annars í þeim tilgangi að taka af vafa um það að ákvæðið gangi framar en ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um þagnarskyldu. Að lokum er lagt til að í 3. tölul. 2. mgr. verði gerð breyting þannig að orðið „eigandi“ komi ekki fyrir tvisvar í röð. Ekki er um efnisbreytingu að ræða, heldur minni háttar breytingu á orðalagi.“
    Leggur meiri hlutinn til að 8. gr. frumvarpsins verði breytt í samræmi við þessar athugasemdir ráðuneytisins.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verð samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Oddný G. Harðardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 12. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Jón Steindór Valdimarsson. Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Willum Þór Þórsson.