Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1696  —  436. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (viðaukar).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ingvarsson og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Höllu Einarsdóttur og Margréti Bragadóttur frá Umhverfisstofnun, Þórólf Guðnason frá embætti landlæknis, Pétur Halldórsson frá Landvernd, Þorgerði Maríu Þorbjarnardóttur frá Ungum umhverfissinnum, Árnýju Sigurðardóttur, Ara Jóhann Sigurðsson og Hörð Þorsteinsson frá Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða, Stefán Pálsson og Sigrúnu Daníelsdóttur Flóvenz frá húsfélaginu Eskihlíð 10 og 10a, Benedikt S. Benediktsson og Lárus M. K. Ólafsson fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, og Guðjón Bragason og Eygerði Margrétardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust umsagnir frá embætti landlæknis, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, húsfélaginu Eskihlíð 10 og 10a, Ísafjarðarbæ, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Skagafirði, Umhverfisstofnun og Ungum umhverfissinnum. Auk þess barst nefndinni sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að fækka flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld samkvæmt viðaukum IV og V við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og þeir viðaukar jafnframt sameinaðir sem viðauki IV. Enn fremur eru lagðar til aðrar breytingar á viðaukum við lögin sem snúa annars vegar að verkaskiptingu stjórnvalda við útgáfu starfsleyfa, sbr. viðauki I, II og IV, og hins vegar að því að viðauki III hafi að geyma lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum.
    Við meðferð málsins komu fram umfangsmiklar athugasemdir við efni frumvarpsins og ljóst er að ekki ríkir einhugur um þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu. Fram komu sjónarmið þess efnis að fækkun flokka ætti frekar að vera áfangaskipt og lögð var áhersla á að lögin þörfnuðust heildarendurskoðunar til skýringar og einföldunar. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og telur nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, enda sé lagaumhverfið flókið og torskilið. Slík heildarendurskoðun þurfi að fara fram í víðtæku samráði við hlutaðeigandi aðila, þ.e. heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, sveitarfélögin sjálf, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og atvinnulífið. Auk þess skuli við þá vinnu hafa samráð við önnur ráðuneyti eða stofnanir, sérstaklega í þeim tilvikum þegar starfsemi er háð eftirliti fleiri aðila eða þar sem sækja þarf um fleiri en eitt starfsleyfi fyrir sömu starfsemina, og tryggja aðkomu eftirlitsaðila þar sem við á þegar ekki er talin þörf á sérstöku starfsleyfi. Nefndin telur að best fari á því að eftirlit fari fram sem næst starfsemi hverju sinni en hlutverk stofnana ríkisins sé að huga að samræmingu og veita aðstoð þegar með þarf. Þar verði hugað að því hvernig þekking í nærumhverfi nýtist sem best, samskipti við stjórnvöld og upplýsingagjöf sé sem aðgengilegust og atvinnustarfsemi búi við sambærilegar aðstæður óháð staðsetningu um landið. Þá telur nefndin að við endurskoðunina eigi að stefna að því að auka veg rafrænnar stjórnsýslu sem mest.
    Nefndin telur engu að síður skynsamlegt að gera ákveðnar breytingar sem frumvarpið leggur til, í trausti þess að við heildarendurskoðun verði horft til þeirra sjónarmiða sem fram koma í nefndaráliti þessu um fyrirkomulag eftirlits.

Breytingar á viðauka IV.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var einkum fjallað um niðurfellingu starfsleyfis- eða skráningarskyldu fyrir 41 flokk starfsemi við sameiningu viðauka IV og V við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Felur framangreind breyting í sér töluverða fækkun á flokkum starfsemi sem krefst útgáfu starfsleyfa. Við meðferð málsins komu fram efasemdir um að niðurfelling á starfsleyfisskyldu mundi leiða til einföldunar eða hagsbóta í þágu atvinnulífs, íbúa og umhverfis og lýstu umsagnaraðilar áhyggjum af því að breytingarnar gætu aukið flækjustig. Þá væri hætta á að meiri óvissa myndi ríkja en áður um hvaða skilyrði og kröfur opinberir aðilar ættu að gera til viðkomandi atvinnureksturs þegar kæmi að starfsleyfis- og skráningarskyldu sem og eftirlitsskyldu. Því sé mikilvægt að fyrir liggi skýrar leiðbeiningar um hvað felist í breytingunum og að rekstraraðilum sem heyra undir lögin verði áfram skylt að uppfylla ákvæði laganna og reglugerða þótt starfsemi verði ekki lengur starfsleyfisskyld eða háð reglulegu eftirliti. Um leið þurfi að liggja fyrir hvernig eftirliti skuli háttað með umræddri starfsemi og hver skuli sinna því eftirliti.
    Í minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kemur fram að hvorki sé verið að gera breytingu á þeirri skyldu rekstraraðila að uppfylla lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir settar samkvæmt þeim né breytingar á eftirliti heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Þá hafa heilbrigðisnefndir áfram heimildir til þess að bregðast við þegar misbrestur verður á reglufylgni, svo sem með beitingu þvingunarúrræða, og eru þær valdheimildir að mati ráðuneytisins skýrar. Áréttað er að með frumvarpinu sé ekki verið að draga úr kröfum eða eftirliti, einungis lagt til að fækka þeirri starfsemi sem þurfi að vera með starfsleyfi. Ráðuneytið tekur jafnframt fram að við undirbúning frumvarpsins hafi m.a. mat á áhættu einstakrar starfsemi verið haft til hliðsjónar, jafnframt að byggt hafi verið á áhættumati Umhverfisstofnunar um eftirlit sem stofnunin hafi unnið í samráði við heilbrigðiseftirlitssvæði.
    Nefndin áréttar að frumvarp þetta er liður í átaki ríkisstjórnarinnar að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings. Nefndin tekur undir að það verði til einföldunar og auki skilvirkni að sækja um starfsleyfi á einum stað þó starfsemin geti verið háð eftirliti frá fleiri en einum aðila. Í því samhengi verði jafnframt að tryggja að stjórnvöld geti miðlað upplýsingum sín á milli um viðkomandi starfsemi, hvort sem starfsleyfið verði síðan háð samþykki annarra eftirlitsaðila eða ekki. Hins vegar er ljóst að fram hafa komið ákveðnar efasemdir um það hvort fyrirliggjandi frumvarp nái umræddu markmiði ríkisstjórnarinnar og hvort tilefni sé til að vinna með nánari hætti þann hluta málsins sem snýr að niðurfellingu starfsleyfis- eða skráningarskyldu. Að vissu leyti getur nefndin tekið undir að í greinargerð frumvarpsins er þörf á frekari rökstuðningi, og nánari greiningu og mati á því að fækka og/eða sameina flokka sem og nánara mati á því hver séu kostnaðaráhrifin. Þannig er til að mynda óljóst hvaða áhrif það hefur að fella niður umrædda flokka, hver sé fjöldi þeirra fyrirtækja sem heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með á grundvelli þeirra flokka sem lagt er til að fella niður, hvers konar starfsemi er um að ræða og þess háttar. Enn fremur þurfi að tryggja að löggjöfin sé með þeim hætti að hún geti mætt þeirri þróun sem verður á atvinnulífinu. Nefndin telur, líkt og áður segir, æskilegt að framangreint mat fari fram við yfirstandandi heildarendurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til breytingar á 12. gr. frumvarpsins. Þannig verði viðaukar IV og V áfram sameinaðir en við 12. gr. verði bætt við að nýju þeirri starfsemi flokka (samtals 26 flokkar) sem fyrirhugað var að fella niður starfsleyfis- eða skráningarskyldu að undanskildum eftirfarandi flokkum; sögunarmyllur, biðstöðvar leigubifreiða, bið- og endastöðvar strætisvagna, gámastöðvar, rekstur aðstöðu í atvinnuskyni, þ.m.t. útleiga rýmis, fyrir hávaðasama starfsemi sem veldur truflun eða óþægindum, ýmiss konar tímabundin aðstaða, svo sem farandsalerni, farandeldhús og vinnubúðir sem tengjast tímabundnum framkvæmdum, frístundahúsasvæði og almenningssamgöngutæki. Framangreindir flokkar skuli vera undanþegnir starfsleyfisskyldu þar sem af starfseminni sé ýmist óveruleg eða takmörkuð áhætta eða hún falli undir önnur ákvæði laganna eða reglugerða. Nefndin leggur jafnframt til breytingu á flokknum virkjanir og orkuveitur yfir 2 MW þess efnis að hann taki til orkuvinnslu frá 1 MW. Tilefni breytingarinnar er samræming milli tilskipunar 2010/75/ESB sem tekin hefur verið upp í íslenskan rétt og tilskipunar (ESB) 2015/2193, sem fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn á næstunni og gildir um orkuvinnslu frá 1 MW. Nefndin felur hins vegar ráðuneytinu að taka hinn sameinaða IV. viðauka til frekari vinnslu með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og þeim umsögnum sem borist hafa um málið. Í ljósi þeirrar breytingar sem lögð er til á 12. gr. frumvarpsins er lagt til að fella brott 15. gr. frumvarpsins.
    Þar til heildarendurskoðun á lögunum er lokið er að mati nefndarinnar þó mikilvægt að verkefnaskipting stjórnvalda við útgáfu starfsleyfa verði nægjanlega skýr. Þannig mun verkefnaskipting fara samkvæmt viðaukum I, II og IV en viðauki III geymir lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum, sbr. IV. kafla laganna, og mun því ekki kveða á um skiptingu á útgáfu starfsleyfis milli heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar.

Önnur sambærileg starfsemi.
    Í 12. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að safnliðir um ótilgreinda starfsemi verði felldir á brott. Í umsögnum kom fram að sú breyting gerði það að verkum að ýmis starfsemi yrði eftirlitslaus ásamt því að skapa óvissu um hvort tiltekin starfsemi skuli háð eftirliti eða ekki. Enn fremur kom fram að sameining og breyting á heitum flokka í viðaukum IV og V drægi úr svigrúmi til að finna starfsemi stað sem og að fella brott flokkinn „önnur sambærileg starfsemi“. Til að mynda hafi eitt heilbrigðiseftirlit sveitarfélags eftirlit með a.m.k. 400 fyrirtækjum sem falla einvörðungu undir þann flokk. Ómögulegt væri að ákvarða í eitt skipti fyrir öll hvaða starfsemi væri starfsleyfisskyld og því væri nauðsynlegt að hafa einhvers konar safnlið til að bregðast við nýrri starfsemi. Að öðrum kosti þyrfti að breyta lögum í hvert skipti sem ný starfsemi kallaði mögulega á starfsleyfi.
    Nefndin bendir á að framangreindri breytingu hafi verið ætlað að auka skýrleika laganna en telur í samræmi við fram komin sjónarmið að frekari vinnu þurfi til að ná því markmiði. Nefndin leggur því til að safnliður um aðra sambærilega starfsemi verði hluti af IV. viðauka og bendir í því samhengi á að ákvörðun heilbrigðisnefndar um útgáfu á starfsleyfi fyrir aðra sambærilega starfsemi er stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 65. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nefndin beinir því samt sem áður til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að tilgreindur safnliður verði tekinn til skoðunar við heildarendurskoðun á lögunum.
    Þá leggur nefndin leggur til minni háttar breytingu á 7. gr. frumvarpsins til leiðréttingar á tilvísun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      7. gr. orðist svo:
                      Í stað tilvísunarinnar „I–V“ í 1. mgr. 40. gr., 1., 3. og 4. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 55. gr. laganna kemur: I–IV.
     2.      12. gr. orðist svo:
                      Viðauki IV með lögunum, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Starfsemi sem heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir.

                      1.      Aksturs- og/eða kennslubraut.
                      2.      Almenningssalerni.
                      3.      Baðstaður í náttúrunni, flokkur 1 og 2.
                      4.      Bensínstöð.
                      5.      Bifreiða- og vélaverkstæði.
                      6.      Bifreiðasprautun.
                      7.      Bón- og bílaþvottastöð.
                      8.      Brenna, stærri en 100 m3.
                      9.      Daggæsla hjá dagforeldrum með sex börn eða fleiri.
                      10.      Dvalarheimili.
                      11.      Dýragarður.
                      12.      Dýragæsla.
                      13.      Dýralæknastofa.
                      14.      Dýrasnyrtistofa.
                      15.      Dýraspítali.
                      16.      Efnalaug.
                      17.      Eldi alifugla, annað en í viðauka I.
                      18.      Eldi svína, annað en í viðauka I.
                      19.      Endurnýting úrgangs.
                      20.      Endurvinnsla skipa undir 500 brúttótonnum, sbr. 64. gr. a laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
                      21.      Fangelsi og fangagæsla.
                      22.      Fjallaskáli, nema sæluhús.
                      23.      Flugeldasýning.
                      24.      Flugvöllur, þ.m.t. flugstöð, sem er áætlunarflug til.
                      25.      Flutningur úrgangs.
                      26.      Framköllun, t.d. á ljós-, röntgen- og kvikmyndum.
                      27.      Framleiðsla á aukefnum og hjálparefnum fyrir matvælaiðnað.
                      28.      Framleiðsla á áfengi, gosdrykkjum og vatni.
                      29.      Framleiðsla á hreinsi- og þvottaefnum.
                      30.      Framleiðsla á ilmvatni og snyrtivörum.
                      31.      Framleiðsla á olíu og feiti.
                      32.      Framleiðsla á spónaplötum, límtré og þess háttar, önnur en í viðauka I.
                      33.      Framleiðsla fóðurs.
                      34.      Framleiðsla glers, önnur en í viðauka I.
                      35.      Framleiðsla leirvara með brennslu, önnur en í viðauka I.
                      36.      Framleiðsla plasts, önnur en í viðauka I.
                      37.      Garðaúðun.
                      38.      Geymsla gass og annarra hættulegra efna.
                      39.      Geymsla olíumalarefna og lagning utan fastra starfsstöðva, önnur en í viðauka II.
                      40.      Gististaður, að undanskilinni heimagistingu.
                      41.      Gæludýraverslun.
                      42.      Hársnyrtistofa.
                      43.      Heilsugæslustöð.
                      44.      Heilsuræktarstöð.
                      45.      Heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga með sex börn eða fleiri.
                      46.      Heitloftsþurrkun fiskafurða, önnur en í viðauka I.
                      47.      Hestahald.
                      48.      Hestaleiga og/eða reiðskóli.
                      49.      Hreinsivirki fráveitu sem meðhöndlar meira en 50 pe.
                      50.      Hundahótel.
                      51.      Húðflúrsstofa og stofa þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr.
                      52.      Íþróttahús.
                      53.      Íþróttamiðstöð.
                      54.      Íþróttavöllur.
                      55.      Jarðborun.
                      56.      Kaffivinnsla.
                      57.      Kanínurækt.
                      58.      Kartöfluvinnsla, önnur en í viðauka I.
                      59.      Kírópraktor.
                      60.      Kjötvinnsla, önnur en í viðauka I.
                      61.      Lauksteikingarverksmiða.
                      62.      Leðurvinnsla, önnur en í viðauka I og II.
                      63.      Leiksvæði.
                      64.      Líkbrennsla.
                      65.      Loðdýrarækt.
                      66.      Meðhöndlun asbests.
                      67.      Meðhöndlun seyru, þ.m.t. flutningur, notkun og hreinsun.
                      68.      Meðhöndlun, blöndun og mölun á korni, önnur en í viðauka I.
                      69.      Meindýravarnir.
                      70.      Mjólkurbú og ostagerð, önnur en í viðauka I.
                      71.      Mjöl- og lýsisvinnsla, önnur en í viðauka I.
                      72.      Móttökustöð fyrir úrgang, aðrar en í viðauka I og II.
                      73.      Nálastungustofa.
                      74.      Niðurrif bifreiða og bílapartasala.
                      75.      Niðurrif mannvirkja.
                      76.      Nuddstofa.
                      77.      Pappírsvöru- og pappakassaframleiðsla, önnur en í viðauka I.
                      78.      Prentun þar sem er notkun á mengandi efnum.
                      79.      Ryðvarnarverkstæði.
                      80.      Saltvinnsla.
                      81.      Sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhringinn.
                      82.      Samgöngumiðstöð.
                      83.      Samkomuhús.
                      84.      Sjúkrahús.
                      85.      Sjúkrastofnun.
                      86.      Sjúkraþjálfun.
                      87.      Skemmti- og þemagarður, þ.m.t. tívolí.
                      88.      Skotvöllur.
                      89.      Skólahúsnæði.
                      90.      Sláturhús, önnur en í viðauka I.
                      91.      Smurstöð.
                      92.      Snyrtistofa.
                      93.      Sólbaðsstofa.
                      94.      Spennistöð þar sem spennar innihalda yfir 2.000 lítra af olíu.
                      95.      Starfsemi þar sem notað er kælikerfi sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða ósoneyðandi efni sem og þjónusta við þau kerfi.
                      96.      Starfsmannabúðir.
                      97.      Starfsmannabústaðir.
                      98.      Steypueiningaverksmiðja.
                      99.      Steypustöð.
                      100.      Stofa þar sem gerðar eru aðgerðir, svo sem læknastofa og fótaaðgerðastofa.
                      101.      Sund- og baðstaður.
                      102.      Tannlæknastofa.
                      103.      Tjald- og hjólhýsasvæði.
                      104.      Trésmíðaverkstæði, önnur en í viðauka I.
                      105.      Útihátíð.
                      106.      Vefnaðar- og spunaverksmiðja.
                      107.      Veitingastaður.
                      108.      Verslunarmiðstöð.
                      109.      Vinnsla á hrájárni eða stáli, önnur en í viðauka I.
                      110.      Vinnsla fisks og annarra sjávarafurða, önnur en í viðauka I.
                      111.      Vinnsla gúmmís.
                      112.      Vinnsla jarðefna, þ.m.t. legsteinagerð, önnur en í viðauka I.
                      113.      Vinnsla járnlausra málma, önnur en í viðauka I.
                      114.      Vinnsla málma, önnur en í viðauka I.
                      115.      Virkjun og orkuveita frá 1 MW.
                      116.      Yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða með lífrænum leysum, önnur en í viðauka I.
                      117.      Yfirborðsmeðferð málma eða plastefna, önnur en í viðauka I.
                      118.      Þvottahús, þ.m.t. ullarþvottastöð.
                      119.      Æfingasvæði slökkviliðs.
                      120.      Önnur sambærileg starfsemi.
     3.      15. gr. falli brott.

    Bergþór Ólason, Guðjón S. Brjánsson og Hanna Katrín Friðriksson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Karl Gauti Hjaltason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. júní 2020.

Bergþór Ólason,
form., með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson,
með fyrirvara.
Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Jón Gunnarsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.