Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1708  —  687. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um samninga samkvæmt lögum um opinber fjármál.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða samninga sem í gildi eru hefur ráðuneytið og stofnanir þess gert skv. 40. og 41. gr. laga um opinber fjármál?
     2.      Samkvæmt hvaða heimild hefur hver þeirra verið gerður, sbr. heimildir í fyrrnefndum lagagreinum?
     3.      Hver er gildistími hvers samnings?
     4.      Fellur gildistími einhvers samnings utan ákvæða 40. og 41. gr. laganna? Sé svo, hvers vegna?
     5.      Hver er samanlögð árleg fjárskuldbinding hvers samnings og hvert er hlutfall hennar af árlegri fjárveitingu þess ríkisaðila sem ber ábyrgð á samningnum?
     6.      Hvaða stefnumörkun samkvæmt gildandi fjármálaáætlun liggur til grundvallar hverjum samningi fyrir sig?
     7.      Hvenær var síðast metið hvort hver samningur uppfyllti kröfur um umfang og gæði eins og gert er ráð fyrir í 5. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál?
     8.      Við hvaða gæðamælikvarða var miðað í tilviki hvers samnings?
     9.      Hafa verið gerðir samningar um framkvæmdir, rekstur eða afmörkuð verkefni sem falla utan 40. eða 41. gr. laga um opinber fjármál?
     10.      Eru í gildi samningar sem gerðir voru fyrir gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015?


    Í 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er kveðið á um heimild ríkisaðila í A-hluta til að gera samninga um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni. Samningum samkvæmt ákvæðinu má skipta í þrjá flokka:
          Samninga um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en eins árs en þó eigi lengur en til fimm ára, sbr. 1. mgr.
          Samninga um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en fimm ára ef verkkaupi gerir kröfu um að verksali ráðist í kostnaðarsamar fjárfestingar til að uppfylla samningsskilyrði, sbr. 2. mgr.
          Samninga sem heimilt er að gera til eigi lengri tíma en fimm ára, án atbeina fjármála- og efnahagsráðherra og hlutaðeigandi ráðherra, um afmörkuð rekstrarverkefni, enda fari samanlögð árleg fjárskuldbinding vegna þeirra ekki umfram 15% af árlegri fjárveitingu til ríkisaðila eða veltu þeirra ríkisaðila sem fjármagnaðir eru með eigin tekjum, sbr. 3. mgr.
    3. mgr. 40. gr. laga nr. 123/2015 felur í sér undanþágu frá meginreglu 1. mgr. ákvæðisins. Tilgangurinn með undanþágunni er að gera hlutaðeigandi ríkisaðilum kleift að gera minni háttar rekstrarsamninga, jafnvel þótt þeir séu til nokkurra ára, án þess að það þurfi að bera þá undir tvo ráðherra til samþykktar. Um er að ræða samninga um smærri rekstrarverkefni sem fela í sér óverulegar fjárhæðir og unnt er að segja upp með stuttum fyrirvara og snúa að daglegum rekstri og skrifstofuhaldi ríkisaðilans sjálfs, svo sem samningar um rekstur vatns- og kaffivéla og þess háttar. Í því skyni að takmarka umfang vinnu við að svara fyrirspurn um þessa samninga var talið rétt að miða svar ráðherra við samninga sem stofnanir gera til lengri tíma en eins árs og árleg fjárskuldbinding samnings nemur yfir fimm millj. kr. Þá tekur svarið jafnframt mið af samningum sem ná því fjárhæðarviðmiði og gerðir hafa verið til eins árs en tekin hefur verið ákvörðun um að endurnýja eða framlengja og samanlögð tímalengd er því lengri en eitt ár, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 643/2018 um undirbúning, gerð og eftirfylgni samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni.
    Undir 41. gr. laganna heyra samningar við ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir. Ráðuneytið lítur svo á að með samningum eða verkefnum samkvæmt ákvæðinu sé aðallega verið að horfa til ýmiss konar alþjóðlegra rannsókna- eða átaksverkefna, t.d. í mennta- og menningarmálum, upplýsingatækni eða á öðrum fræðasviðum. Slík verkefni eru þá jafnan styrkt af samtökum ríkja eða alþjóðastofnunum eða fjármögnuð að hluta eða mestu leyti af erlendum samningsaðilum og ákvörðun um þátttöku í slíkum verkefnum oft tekin á alþjóðlegum vettvangi.
    Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá stofnunum ráðuneytisins út frá framangreindum forsendum og byggjast svör hvað þær varðar á upplýsingum sem bárust frá þeim. Vakin er athygli á því að Seðlabanki Ísland lítur svo á að ákvæðin eigi ekki við um bankann sem ríkisaðila í C-hluta og taka svör ráðherra mið af því.

1.–5.     

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eftirfarandi töflur sýna samninga sem ráðuneytið og stofnanir hafa gert skv. 40. og 41. gr. laga nr. 123/2015, gildistíma þeirra, samanlagða árlega fjárskuldbindingu og hlutfall árlegrar fjárskuldbindingar af árlegri fjárveitingu, miðað við framangreindar forsendur:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samanlögð árleg fjárskuldbinding samnings og hlutfall hennar af árlegri fjárveitingu ríkisaðila tekur mið af fjárskuldbindingu og fjárveitingum aðila á árinu 2020. Samningarnir eru allir gerðir innan þess gildistíma sem kveðið er á um í 40. gr. laga nr. 123/2015, sbr. og reglugerð nr. 643/2018.

6.     
    Um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið er getið í gildandi fjármálaáætlun. Ráðuneytið hefur í tengslum við verkefnið gert samning við Hellur og lagnir ehf. um fornleifagröft á lóð hússins vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda. Verkefnið er unnið á grundvelli þingsályktunar um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og er liður í því að leysa áralangan húsnæðisvanda ráðuneytisins og nýta hina sögulegu byggingu áfram sem aðsetur forsætisráðuneytis, fundarstað ríkisstjórnar Íslands, ráðherranefnda og móttökustað vegna heimsókna erlendra ráðamanna og annarra gesta.
    Eins og fram kemur í gildandi fjármálaáætlun fer forsætisráðuneytið með forystu og samhæfingu innan Stjórnarráðs Íslands og annast eftirfylgni með framgangi sáttmála ríkisstjórnar. Þá annast ráðuneytið fræðslu fyrir ráðherra og veitir faglega ráðgjöf um þau málefni sem heyra undir ráðuneytið á hverjum tíma. Með samningi ráðuneytisins við Siðfræðistofnun tekur stofnunin að sér að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í siðfræðilegum efnum. Samkvæmt sáttmála ríkisstjórnar er það eitt af markmiðum hennar að beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og hefur hún í því skyni meðal annars sett sér siðareglur og yfirfarið reglur um hagsmunaskráningu ráðherra. Siðareglur ráðherra voru samþykktar í desember 2017, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Hver og einn ráðherra gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 115/2011 getur ráðherra leitað ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu í vafatilvikum.
    Með fjármálaáætlun 2018–2022 og fjárlögum fyrir árið 2018 samþykkti Alþingi að hækka árleg fjárframlög til óbyggðanefndar í því skyni að flýta fyrir verklokum hjá nefndinni. Hið aukna framlag sem nefndin fékk árið 2018 var veitt á þeirri forsendu að með því væri nefndinni gert kleift að kveða upp síðustu úrskurði árið 2023 og ljúka frágangi snemma árs 2024, sbr. fjármálaáætlun 2019–2023. Sú vinna sem óbyggðanefnd felur Þjóðskjalasafni Íslands að vinna samkvæmt samningnum er liður í því að nefndin uppfylli þá gagnaöflunar- og rannsóknarskyldu sem á henni hvílir, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Með samningnum tekur Þjóðskjalasafn að sér að afla heimilda og gagna fyrir nefndina um eignar- og afnotaréttindi, sem og landamerki, á þeim landsvæðum sem til meðferðar eru hjá óbyggðanefnd og láta henni þau í té, auk þess að rita sögulegar greinargerðir um þau gögn sem koma í leitirnar.
    Samningar ráðuneytisins við Samtökin ´78, Kvenréttindafélag Íslands og Félag kvenna í atvinnurekstri eru í samræmi við áherslur stjórnvalda um jafnrétti kynjanna, jafna meðferð og bann við mismunun og fram koma í fjármálaáætlun. Í áætluninni er þess getið að ríkisstjórnin leggur áherslu á markviss skref til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði og útrýma kynbundnum launamun og hyggst koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði. Stefnt er að því að styrkja stöðu málaflokks jafnréttismála á áætlunartímabilinu.
    Hvað varðar stefnumörkun í tengslum við minni háttar samninga ráðuneytis og stofnana um afmörkuð rekstrarverkefni er til þess að líta að slíkir samningar eru hluti af daglegum og eðlilegum rekstri þeirra og liður í því að tryggja faglega umgjörð þess starfs sem þar er unnið.

7.–8.
    Gerð er grein fyrir þeim gæðamælikvörðum sem lagðir eru til grundvallar við framkvæmd verkefna og við úttekt samninga í ákvæðum eða viðauka hlutaðeigandi samninga, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 643/2018, í lögum og reglugerðum, sem og í útboðsgögnum. Í samningum ráðuneytisins er alla jafna ákvæði um skyldu viðsemjanda til að veita ráðuneytinu upplýsingar um framvindu og stöðu verkefnis eftir ákveðinn tíma í formi framvinduskýrslu. Kröfur um umfang og gæði samninga eru því metnar jafnóðum, sem og við verklok við framkvæmd úttektar, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 643/2018. Þá er algengt að greiðslum til viðsemjanda sé skipt upp og þær tengdar við framvindu verksins og hvort þjónustan uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar eru.

9.     
    Í athugasemdum við frumvarp til laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, segir í skýringum við 1. mgr. 40. gr. að með gagnályktun frá ákvæðinu megi gera ráð fyrir að ef samningur er til styttri tíma en eins árs sé ekki þörf á samþykki þess ráðherra sem fer með ríkisfjármál og hlutaðeigandi ráðherra að öðrum skilyrðum uppfylltum, svo sem ef veittar fjárveitingar dugi fyrir útgjöldum vegna samnings. Í samræmi við framangreint hefur ráðuneytið gert samninga um afmörkuð verkefni til skemmri tíma en eins árs.

10.     
    Í gildi er samningur við Hugvit hf. um afnot af hugbúnaði fyrir óverulega fjárhæð sem gerður var fyrir tíma laga nr. 123/2015.