Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1710  —  439. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (þjónustustig, fagráð o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 15. júní.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „almenn og sérhæfð“ í 1. tölul. falla brott.
     b.      2. tölul. orðast svo: Fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta: Heilsugæsla, heilsuvernd og forvarnir, bráða- og slysamóttaka og önnur heilbrigðisþjónusta á vegum heilsugæslustöðva. Þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum, í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana og í dagdvöl.
     c.      3. tölul. orðast svo: Annars stigs heilbrigðisþjónusta: Heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna samkvæmt ákvörðun ráðherra eða samningum sem gerðir eru í samræmi við ákvæði VII. kafla og lög um sjúkratryggingar og önnur þjónusta sem að jafnaði er ekki veitt á heilsugæslustöðvum og fellur ekki undir 4. tölul.
     d.      4. tölul. orðast svo: Þriðja stigs heilbrigðisþjónusta: Heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsi og krefst sérstakrar kunnáttu, háþróaðrar tækni, dýrra og vandmeðfarinna lyfja og aðgengis að gjörgæslu.
     e.      5. og 6. tölul. falla brott og breytist númeraröð annarra töluliða samkvæmt því.

2. gr.

    Orðið „almenna“ í 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Heilbrigðisstofnanir.

    Í hverju heilbrigðisumdæmi skal starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem sjá um að veita og skipuleggja fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum og/eða sjúkrahúsum, m.a. á göngu- og dagdeildum.
    Heilbrigðisstofnanir skv. 1. mgr. skulu taka að sér kennslu heilbrigðisstétta á grundvelli samninga við menntastofnanir, kennslusjúkrahús og háskólasjúkrahús.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um starfsemi heilbrigðisstofnana, sem reknar eru af ríkinu eða á grundvelli samnings skv. VII. kafla og lögum um sjúkratryggingar, og þá heilbrigðisþjónustu sem þeim ber að veita.

4. gr.

    7. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Heilsugæslustöðvar.

    Heilsugæslustöðvar sinna fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um starfsemi heilsugæslustöðva og þá þjónustu sem þeim ber að veita.

5. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, 7. gr. a – 7. gr. e, ásamt fyrirsögnum, er orðast svo:

    a. (7. gr. a.)

Landspítali.

    Á Landspítala er veitt annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta, m.a. á göngu- og dagdeildum. Hlutverk Landspítala er m.a. að vera aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús, annast kennslu nema í grunn- og framhaldsnámi og veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum. Landspítali stundar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og gerir fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við háskóla auk þess að stunda og veita aðstöðu til vísindarannsókna og starfrækja blóðbanka.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um hlutverk og starfsemi Landspítala og þá heilbrigðisþjónustu sem þar skal veitt.

    b. (7. gr. b.)

Sjúkrahúsið á Akureyri.

    Á Sjúkrahúsinu á Akureyri skal veitt annars stigs heilbrigðisþjónusta en að auki þriðja stigs heilbrigðisþjónusta, m.a. á göngu- og dagdeildum. Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali skulu hafa með sér samráð um veitingu þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri er m.a. að vera kennslusjúkrahús, varasjúkrahús Landspítala, annast kennslu nema í grunn- og framhaldsnámi, taka þátt í að veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum í samstarfi við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir og gera fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við háskóla auk þess að stunda og veita aðstöðu til vísindarannsókna.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um hlutverk og starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri og þá heilbrigðisþjónustu sem þar skal veitt.

    c. (7. gr. c.)

Hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými.

    Í hjúkrunarrýmum heilbrigðisstofnana og hjúkrunar- og dvalarheimila skal veitt hjúkrunarþjónusta fyrir einstaklinga sem metnir hafa verið í þörf fyrir þjónustu í hjúkrunarrými. Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir dvöl samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

    d. (7. gr. d.)

Dvalarrými.

    Í dvalarrýmum skal vera aðstaða fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu fyrir einstaklinga sem metnir hafa verið í þörf fyrir þjónustu í dvalarrými. Enginn getur dvalið til langframa í dvalarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir dvöl skv. 15. gr. laga um málefni aldraðra.

    e. (7. gr. e.)

Dagdvöl.

    Í dagdvöl skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Um frekari þjónustu í dagdvöl fer skv. 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um málefni aldraðra. Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs inntökuteymis samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

6. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „10. og 12. gr.“ í 8. gr. laganna kemur: 10. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                  Forstjórar heilbrigðisstofnana eru umdæmisstjórar heilbrigðismála innan síns heilbrigðisumdæmis og skulu hafa með sér reglulegt samráð um heilbrigðisþjónustu.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                  Um skyldur og ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnana gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

8. gr.

    Orðið „Aðrir“ í 4. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Forstjóri heilbrigðisstofnunar skal í samráði við framkvæmdastjórn, sé slík starfandi samkvæmt skipuriti, gera skipurit stofnunar. Skipurit skal kynnt ráðherra áður en það tekur gildi.

10. gr.


    12. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Á heilbrigðisstofnunum sem reknar eru af ríkinu skal starfa sérstakt fagráð sem forstjóri heilbrigðisstofnunar skipar.
    Forstjóra ber að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipan og verklag fagráða heilbrigðisstofnana.

12. gr.

    IV. og V. kafli laganna falla brott.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „laga um fjárreiður ríkisins“ í 1. mgr. kemur: laga um opinber fjármál.
     b.      Orðið „almenna“ í 2. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „sérhæfðum“ og „sérhæfðu“ í 3. mgr. falla brott.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra getur veitt sjúkrahúsum og öðrum sérhæfðum heilbrigðisstofnunum, sem reknar eru af ríkinu, heimild til að skipuleggja heilbrigðisþjónustu á einkaréttarlegum grundvelli fyrir ósjúkratryggða einstaklinga sem koma til landsins gagngert í því skyni að gangast undir tiltekna aðgerð eða meðferð, enda skerði það ekki lögbundna þjónustu stofnunarinnar. Um gjaldtöku af ósjúkratryggðum einstaklingum fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt ákvæði þessu fer samkvæmt ákvæðum laga um sjúkratryggingar.

14. gr.

    Á eftir orðinu „heilsugæslustöðva“ í 1. málsl. 32. gr. laganna kemur: í eigu ríkisins.

15. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal skipa starfshóp sem falið verði að leggja fram tillögur að skilgreiningu á hugtakinu „fjarheilbrigðisþjónusta“ í lögum. Starfshópurinn skal skila niðurstöðum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2021 og ráðherra skal í kjölfarið flytja þinginu munnlega skýrslu um niðurstöður starfshópsins.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.