Ferill 595. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1715  —  595. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um fjármagnstekjuskatt af inneignarvöxtum skuldara vegna endurútreiknings lána.


     1.      Í hve mörgum tilfellum frá og með árinu 2012 hafa inneignarvextir skuldara sem myndast hafa vegna endurgreiðslu fjármálafyrirtækja í kjölfar endurútreiknings lána með ólögmæta gengistryggingu, sbr. ákvæði til bráðabirgða XL í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, verið taldir skuldara til fjármagnstekna? Hver er heildarfjárhæð fjármagnstekjuskatts sem innheimtur hefur verið á þessum grundvelli? Svar óskast sundurliðað eftir tekjuárum.
    Ekki er unnt að svara þessum lið efnislega, hvorki að því er varðar fjölda tilvika né heildarfjárhæðir, þar sem á skilagreinum þeim sem fjármálafyrirtæki senda ríkisskattstjóra vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum er ekki gert ráð fyrir sundurliðun niður á tilefni vaxtatekna.

     2.      Hefur framkvæmd skattheimtu á þessum grundvelli verið breytt í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar í máli nr. 239/2016?
    Vextir teljast til skattskyldra tekna skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. gr. sömu laga. Þegar um vexti af kröfum er að ræða teljast þeir til skattskyldra tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. tekjuskattslaga. Bráðabirgðaákvæði XL í lögunum tekur til inneignarvaxta vegna endurreiknings gengistryggðra húsnæðis- og bílalána utan atvinnurekstrar sem ákvarðaðir voru á árunum 2010 og 2011. Ákvæðið er undantekning frá meginreglu 3. tölul. C-liðar 7. gr. laganna og samkvæmt því teljast vextir af fjárkröfum á hendur fjármálastofnunum vegna ofgreiddra afborgana og vaxta af lánum með ólögmæta gengistryggingu sem ákvarðaðir voru á greindu tímabili, þ.e. 2010 og 2011, ekki til fjármagnstekna. Umræddur birtur úrskurður yfirskattanefndar nr. 239/2016 varðar tilvik þar sem Landsbankinn hf. endurreiknaði lán kæranda og ákvarðaði honum inneignarvexti árið 2013, þ.e. utan gildistíma bráðabirgðaákvæðis XL. Staðfesti yfirskattanefnd með greindum úrskurði framkvæmd ríkisskattstjóra, og vísaði nefndin jafnframt til þess að skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, beri skilaskyldur aðili og skattskyldur aðili óskipta ábyrgð á þeim skatti sem dreginn sé af fjármagnstekjum samkvæmt lögunum. Þá staðfesti nefndin að samkvæmt lögum nr. 94/1996 leysi möguleg vanræksla skilaskylds aðila á skyldum sínum ekki skattskyldan aðila undan framtals- og skattskyldu þegar um skattskyldar tekjur er að ræða. Samkvæmt framangreindum úrskurði var framkvæmd ríkisskattstjóra þannig lögum samkvæm og því ekki forsendur til breytinga á henni.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að breyta lögum í þá veru að fyrrgreindir inneignarvextir teljist ekki til fjármagnstekna, líkt og kveðið er á um fyrir árin 2010–2011 í ákvæði til bráðabirgða XL í lögum um tekjuskatt, og eftir atvikum að endurgreiða skuli fjármagnstekjuskatt sem greiddur hefur verið á framangreindum forsendum?
    Bráðabirgðaákvæði XL í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, var sett í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggðra húsnæðis- og bílalána. Ákvæðinu var ætlaður ákveðinn tímabundinn gildistími og samkvæmt því skyldu inneignarvextir einstaklinga utan atvinnurekstrar sem ákvarðaðir voru af áðurnefndum sökum á árunum 2010 og 2011 ekki teljast til fjármagnstekna. Framlenging ákvæðisins hefur ekki staðið til enda ætti endurreikningi lánanna að mestu að vera lokið nú níu árum frá dómsuppkvaðningu Hæstaréttar.

     4.      Hafa komið upp vandkvæði við framkvæmd ákvæðis til bráðabirgða XL í lögum um tekjuskatt?
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra telur embættið ekki hafa verið meinbugi á framkvæmd bráðabirgðaákvæðis XL í tekjuskattslögum utan þess sem fram kemur undir 2. tölul. þessa svars, og að ekki sé ástæða til að ætla annað en að almennt hafi fjármálastofnanir staðið rétt að meðferð fjármagnstekna sem ákvarðaðar voru við endurreikning lána með ólögmæta gengistryggingu, að svo miklu leyti sem mál þessi varði lögbundið verksvið ríkisskattstjóra.