Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1719  —  440. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um auknar skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið jukust skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, samkvæmt viðmiðum hans um tryggingafræðilegar úttektir, vegna áhrifa gildistöku laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, nr. 141/2003, á lífeyrisrétt ráðherra annars vegar og hins vegar alþingismanna sem í störfum voru við gildistöku laganna?
     2.      Hversu mikið jókst skuldbinding sjóðsins vegna ráðherra og alþingismanna sem látið höfðu af störfum?
     3.      Hver var meðaltalshækkun á rétti til mánaðarlegs lífeyris við starfslok ráðherra annars vegar og hins vegar alþingismanna sem sæti áttu á Alþingi við gildistöku laganna?
     4.      Hver var fjárhagslegur ávinningur þingmanna og ráðherra sem sátu á þingi eða í ríkisstjórn við samþykkt umræddra laga 15. desember 2003 af setningu þeirra, reiknað sem réttur til aukins mánaðarlegs lífeyris? Þess er farið á leit að þessi ávinningur verði annars vegar tilgreindur sem meðaltal fyrir hópinn en hins vegar greindur í tíundir eftir fjárhæðum.


    Ráðuneytið fékk Talnakönnun hf. til að reikna út fyrir sig umræddar skuldbindingar og réttindi ráðherra og alþingismanna við gildistöku laga nr. 141/2003 og byggist svarið á þeim upplýsingum.
    Í fyrirspurninni er spurt um breytingar á skuldbindingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) en skuldbindingar þessar eru á ábyrgð ríkissjóðs en ekki lífeyrissjóðsins og miðast svarið við það.
    Fyrir setningu laga nr. 141/2003 var ljóst að alþingismanna- og ráðherradeildir innan LSR stóðu ekki undir þeim skuldbindingum sem þær áttu að bera með þáverandi iðgjaldafyrirkomulagi. Ekki virtist gerlegt að gera breytingu þar á nema með miklu framlagi ríkissjóðs og stórhækkuðu iðgjaldahlutfalli. Alþingismanna- og ráðherradeildir voru í raun og veru hreinir gegnumstreymissjóðir úr ríkissjóði. Því var með lögum nr. 141/2003 lagt til grundvallar að falla frá sjóðsmyndun um eftirlaunaskuldbindingar fyrir alþingismenn og ráðherra, svo og aðra sem lögin tóku til, en taka þess í stað upp gegnumstreymiskerfi. Slíkt kerfi gilti á þeim tíma um forseta Íslands og hæstaréttardómara og því þótti rétt að fella saman í ein lög eftirlaunakerfi fyrir æðstu handhafa ríkisvalds. Breytingin með lögum nr. 141/2003 fól því í sér að árlegar greiðslur eftirlauna voru greiddar úr ríkissjóði í stað LSR og eftirlaunadeildir alþingismanna og ráðherra innan LSR voru lagðar niður. Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar greiddu af launum sínum eins og aðrir launþegar í A-deild LSR og mynduðu þannig þar almennan lífeyrisrétt samkvæmt lögum um sjóðinn og komu greiðslur samkvæmt lögum um LSR til frádráttar greiðslum úr ríkissjóði. Í ljósi þess að réttur samkvæmt lögum nr. 141/2003 var nokkru betri en almennt tíðkaðist var iðgjaldahlutfallið hækkað úr 4% af föstum launum í 5% af heildarlaunum.
    Með lögum nr. 12/2009 voru lög nr. 141/2003 afnumin með sólarlagsákvæði fyrir þáverandi forseta Íslands og þá aðila sem voru í störfum hæstaréttardómara við gildistöku laga nr.12/2009. Fyrir gildistöku laga nr. 141/2003 voru hæstaréttardómarar hins vegar sjóðfélagar í LSR, A-eða B-deild, en eftir gildistöku laganna urðu síðar skipaðir dómarar sjóðfélagar í A-deild LSR. Þar sem forseti Íslands, ráðherrar og alþingismenn eru ekki starfsmenn ríkisins í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var með lögum nr. 12/2009 gerð sú breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að þeim var bætt sérstaklega við upptalningu sjóðfélaga í 3. gr. laga nr. 1/1997. Frá og með gildistöku laga nr. 12/2009 hafa því gilt sömu reglur um þessa aðila og samkvæmt lögum nr. 1/1997.
    Í svarinu er miðað við tryggingafræðilegar forsendur í árslok 2003.

    Eftirfarandi tafla er svar við fyrstu tveimur liðum fyrirspurnarinnar:
Skb. ríkis fyrir lög (millj. kr.) Skb. ríkis eftir lög (millj. kr.) Hækkun
(millj. kr.)
Ráðherrar í des. 2003 239 431 192
Ráðherra, fyrrverandi í des. 2003 424 462 38
Alþingismenn í des. 2003 1.266 1.560 294
Alþingism., fyrrverandi í des. 2003 1.419 1.453 35

    Eftirfarandi tafla er svar við lið 3:
Lífeyrir á mánuði (þús. kr.) fyrir lög Lífeyrir á mánuði (þús. kr.) eftir lög Hækkun
Ráðherrar í desember 2003 104,5 109,6 4,9%
Alþingismenn í desember 2003 111,7 118,7 6,2%

    Í lið 4 er spurt um fjárhagslegan ávinning fyrir ráðherra og alþingismenn í desember 2003, annars vegar sem meðaltöl og hins vegar að ávinningurinn verði greindur í tíundir eftir fjárhæðum.
    Meðaltalstölurnar koma fram í svari við lið 3.
    Greining í tíundir var gerð þannig að lífeyrisávinnslu ráðherra var bætt við lífeyrisávinnslu þeirra sem alþingismanna og útkoman flokkuð í tíundir eftir fjárhæð réttindaávinnslu þeirra 63 einstaklinga sem sátu á þingi þegar lagabreytingin var samþykkt. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig ávinnsla skiptist í tíundir:
Lífeyrir fyrir lög Lífeyrir eftir lög Mismunur (kr. á mánuði)
1 184.067 234.196 50.129
2 39.982 61.112 21.130
3 157.986 172.237 14.251
4 110.167 118.574 8.407
5 6.273 9.809 3.537
6 7.755 10.627 2.872
7 141.269 142.247 978
8 302.327 302.327 0
9 193.776 193.776 0
10 172.641 172.641 0