Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1720  —  539. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um eignarhald erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum.


     1.      Hvaða reglur gilda um heimildir erlendra aðila til að festa fé í sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi (veiðum og vinnslu)?
    Í 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, er að finna ákvæði um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna mega eftirtaldir aðilar einir stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi:
    „a.    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
    b.    Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
        i.        Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
        ii.    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
        iii.    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.“
    Vinnsla sjávarafurða er nánar skilgreind þannig í ákvæðinu að átt sé við frystingu, söltun, herslu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þ.m.t. bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi teljist hins vegar ekki reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Í 2. mgr. 4. gr. laganna er að finna skilgreiningu á því hverjir teljast vera íslenskri aðilar í skilningi 4. gr. en átt er við ríkissjóð og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóði hér á landi í fullri eigu þeirra, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu opinberra aðila hér á landi, íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða annarra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Með íslenskum lögaðila er í ákvæðinu átt við lögaðila með heimili hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi eða eignarhaldi er háttað. Lögaðili telst eiga heimili hér á landi ef hann er skráður hér á landi, ef hann telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi. Með íslenskum lögaðila undir yfirráðum íslenskra aðila er í ákvæðinu átt við íslenskan lögaðila þar sem íslenskir aðilar eiga meiri hluta hans, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, og hafa meiri hluta atkvæðisréttar og hafa raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi lögaðila.

     2.      Hvernig er háttað eftirliti með óbeinni fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi (veiðum og vinnslu)?
    Eftirlit með fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi samkvæmt lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, byggist á lögboðinni tilkynningarskyldu aðila og heimildum ráðherra til að afla gagna, úrskurða um skyldu aðila til að selja eignarhlut og stöðva fjárfestingu, telji hann að tiltekin fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði, eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi.
    Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri ber að tilkynna ráðherra um erlenda fjárfestingu sem fellur undir ákvæði 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, en ákvæði 1. tölul. tekur til fiskveiða í íslenskri efnahagslögsögu og vinnslu sjávarafurða. Tilkynningarskyldan hvílir á atvinnufyrirtækinu sem fjárfest er í eða ef fyrirhuguð fjárfesting er gerð í eigin nafni erlends aðila þá hvílir tilkynningarskyldan á honum. Undanþegnir tilkynningarskyldu eru einstaklingar og lögaðilar þeirra ríkja sem eru aðilar að EES-samningnum, aðilar að stofnsamningi EFTA, einstaklingar og lögaðilar í Færeyjum eða þeir sem eru búsettir í framangreindum ríkjum, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna.
    Samkvæmt 5. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri ber stjórnendum fyrirtækis sem starfar hér á landi og hefur rétt til að stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands, stjórnendum fiskvinnslufyrirtækis eða stjórnendum íslensks lögaðila sem á með beinum eða óbeinum hætti hlut í slíku fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki, ef þeir telja að farið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. um hámark erlendrar fjárfestingar og innlend yfirráð í íslenskum lögaðila sem með beinum eða óbeinum hætti á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki, að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tilkynningu þar að lútandi. Ráðuneytið skal þá afla upplýsinga frá hlutaðeigandi lögaðila um hverjir eigendur hans eru, atkvæðamagn hvers þeirra, stjórnarmenn og önnur atriði sem máli þykja skipta varðandi raunveruleg yfirráð hans. Ráðherra getur að eigin frumkvæði óskað eftir slíkum upplýsingum ef grunsemdir eru um brot gegn ákvæði þessu. Ráðuneytinu skal senda þær upplýsingar sem það óskar eftir innan fjögurra vikna frá því að beiðni þess berst.

     3.      Í hvaða fyrirtækjum í sjávarútvegi (veiðum og vinnslu) eiga erlendir aðilar eignarhlut og hver er sá eignarhlutur, sundurliðað eftir fyrirtækjum?
    Opinberir aðilar halda ekki hlutaskrá eða skrá yfir eigendur félaga en hægt er að nálgast upplýsingar um hluthafa í hlutafélögum og einkahlutafélög í fylgiskjali með ársreikningi viðkomandi félags. Í ársreikningum sameignarfélaga og samlagsfélaga, sem ber að skila ársreikningi samkvæmt lögum um ársreikninga, er einnig að finna upplýsingar um eigendur viðkomandi félaga. Þá er hægt að nálgast upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila hjá fyrirtækjaskrá sem starfrækt er af Skattinum en um er að ræða raunverulega eigendur eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
    Í tilefni af fyrirspurninni voru skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðilar sem fengu úthlutað aflamarki í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020, en miðað var við þá aðila sem fengu úthlutað 50.000 kg þorskígilda eða meira. Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili sem var skráður eigandi að yfir 1% hlut í slíku félagi. Tekið skal fram að upplýsingarnar byggjast á ársreikningum félaganna fyrir reikningsárið 2018 (þ.e. lista yfir hluthafa sem fylgja á með ársreikningum félaga) og er hér um að ræða hluthafa eða eigendur félaganna hvort sem um er að ræða einstakling eða lögaðila.
    Vinnsla sjávarafurða er hvorki leyfis- né skráningarskyld sem slík. Hins vegar má vinnsla eingöngu fara fram í húsnæði sem hlotið hefur samþykkisnúmer Matvælastofnunar. Matvælastofnun heldur skrá yfir vinnslustöðvar sjávarafurða sem hlotið hafa samþykkisnúmer og þar má finna upplýsingar um rekstraraðila en þær upplýsingar varða ekki eignarhald fyrirtækjanna.

     4.      Liggur fyrir hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra erlendu aðila sem eiga óbeinan eignarhlut í fyrirtækjum í sjávarútvegi og ef svo er, hverjir eru þeir?
    Í fyrirtækjaskrá eru haldnar upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, með þeim takmörkunum sem greinir í lögunum. Einnig eru þar haldnar upplýsingar um raunverulega eigendur fjárvörslusjóða eða sambærilegra aðila. Ekki eru haldnar upplýsingar um raunverulega eigendur erlendra lögaðila í fyrirtækjaskrá.
    Á grundvelli tilkynningarskyldu í 1. mgr. 7. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hafa ráðuneytinu á síðustu tíu árum borist eftirfarandi fimm tilkynningar um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi:
          20. júlí 2010 var tilkynnt um fjárfestingu Nautilus Fisheries Ltd., Hong Kong, í Storm Seafood ehf. í gegnum einkahlutafélögin Skiphól ehf. og Austmann ehf.
          29. maí 2013 var tilkynnt um fjárfestingu Agatha's yard ehf. í Nóntanga ehf. Agatha's yard ehf. er í eigu tveggja erlendra aðila en tilgangur Nóntanga ehf. er m.a. vinnsla sjávarafurða, fiskveiða og skyldur rekstur.
          14. desember 2015 barst tilkynning frá HB Granda hf. á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 34/1991 um að í hlutaskrá félagsins væru skráðir eftirtaldir erlendu aðilar:
            Global Macro Absolute Return Ad, Boston MA, hlutafjáreign 0,55% af heildarhlutafé félagsins.
            Global Macro Portfolio, Boston MA, hlutfall af heildarhlutafé félagsins 0,45%.
            Danske Bank A/S, hlutfall af heildarhlutafé félagsins 0,002744%.
            JNL/Eaton Vance Global Macro Ab, hlutfall af heildarhlutafé félagsins 0,11%.
          3. janúar 2016 barst tilkynning frá HB Granda hf. á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 34/1991 annars vegar um að annar erlendur aðili hefði bæst við í hlutaskrá félagsins og hins vegar um að erlendur hluthafi hefði bætt við eignarhlut sinn í félaginu:
            Global Macro Capital Opportunit, hlutfall af heildarhlutafé félagsins 0,06%.
            Global Macro Portfolio, hlutfall af heildarhlutafé félagsins 0,6%.
          4. nóvember 2019 var tilkynnt um fjárfestingu K&B ehf. í Samherja hf. en K&B ehf. er að 49% hluta í eigu erlends aðila samkvæmt lögum nr. 34/1991. Samherji hf. stundar hvorki fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands né rekur fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi í eigin nafni en á að fullu eða að hluta fyrirtæki í slíkri starfsemi.

     5.      Eru tiltækar upplýsingar um þróun hlutdeildar óbeins eignarhalds erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og ef svo er, hvernig hefur það breyst síðustu 10 ár?
    Hvorki er fylgst með né haldnar upplýsingar um þróun hlutdeildar óbeins eignarhalds erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

     6.      Telur ráðherra tilefni til að setja frekari skorður við óbeinu eignarhaldi erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og ef svo er, hvað líður undirbúningi tillagna þar um?
    Ekki er til sérstakrar skoðunar að setja frekari skorður við óbeinu eignarhaldi erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum umfram það sem þegar er að finna í lögum.