Ferill 742. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1730  —  742. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni ráðuneytisins.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir ráðuneytið?
    Forsætisráðuneytið fer á hverjum tíma með stjórnarmálefni í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og endurspegla þau m.a. lögbundin verkefni ráðuneytisins. Samkvæmt 1. gr. núgildandi úrskurðar, nr. 119/2018, með síðari breytingum, fer ráðuneytið með mál er varða:
     1.      Stjórnskipan lýðveldisins Íslands og Stjórnarráð Íslands í heild, þar á meðal:
                  a.      Embætti forseta Íslands, þ.m.t. ákvörðun kjördags, embættisgengi og embættisbústað.
                  b.      Alþingi.
                  c.      Ríkisráð Íslands.
                  d.      Ríkisstjórn Íslands.
                  e.      Skipun ráðherra og lausn.
                  f.      Skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti.
                  g.      Skiptingu starfa milli ráðherra.
                  h.      Skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta.
                  i.      Ráðherranefndir.
                  j.      Forystu og samhæfingu innan Stjórnarráðs Íslands.
                  k.      Stjórnarfar almennt, þ.m.t. lög um Stjórnarráð Íslands, stjórnsýslulög og upplýsingalög.
                  l.      Framfylgd laga og reglna um undirbúning stjórnarfrumvarpa.
                  m.      Siðareglur fyrir ráðherra og starfsmenn Stjórnarráðs Íslands.
                  n.      Málstefnu fyrir Stjórnarráð Íslands.
                  o.      Ráðstöfun skrifstofuhúsa ráðuneyta og gestahúsa ríkisstjórnarinnar, þ.m.t. Þingvallabæjarins.
                  p.      Ráðgjafa um upplýsingarétt almennings
                  q.      Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
     2.      Þjóðhagsmál, þar á meðal:
                  a.      Hagstjórn almennt.
                  b.      Ráðherranefndir um efnahagsmál og ríkisfjármál.
                  c.      Gjaldmiðil Íslands.
                  d.      Seðlabanka Íslands.
                  e.      Hagskýrslugerð og upplýsingar um landshagi, þ.m.t. málefni Hagstofu Íslands.
     3.      Jafnréttismál, þar á meðal:
                  a.      Jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
                  b.      Jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.
                  c.      Jafna meðferð á vinnumarkaði.
                  d.      Kynrænt sjálfræði.
                  e.      Jafnréttisstofu.
                  f.      Kærunefnd jafnréttismála.
                  g.      Jafnréttissjóð Íslands.
     4.      Þjóðartákn og orður, þar á meðal:
                  a.      Fána Íslands og ríkisskjaldarmerki.
                  b.      Þjóðsöng Íslendinga.
                  c.      Hina íslensku fálkaorðu.
                  d.      Önnur heiðursmerki.
     5.      Skipulag, rekstur og starfsmannahald ráðuneytisins.
     6.      Annað, þar á meðal:
                  a.      Þjóðaröryggisráð.
                  b.      Almannavarna- og öryggismálaráð.
                  c.      Vísinda- og tækniráð.
                  d.      Þjóðlendur og málefni óbyggðanefndar.
                  e.      Embætti ríkislögmanns.
                  f.      Umboðsmann barna.
                  g.      Endurnot opinberra upplýsinga.
                  h.      Hrafnseyri við Arnarfjörð.
                  i.      Greiðslu bóta vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna ráðuneytisins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárveiting til aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins er samkvæmt fylgiriti fjárlaga 930,2 millj. kr. vegna ársins 2020 og er nýtt til að sinna þeim stjórnarmálefnum sem undir ráðuneytið heyra og þeim lögbundnu verkefnum sem þeim fylgja. Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir skiptingu fjárheimilda málefnasviða og málaflokka í fjárlögum niður á stofnanir og sérstök verkefni í fylgiriti fjárlaga. Aðalskrifstofa ráðuneytisins heyrir undir málefnasvið 3 Æðsta stjórnsýsla og málaflokk 03.30 Forsætisráðuneyti í fylgiriti fjárlaga. Ráðuneytið fær að auki fjárveitingar til tiltekinna verkefna sem tilgreind eru undir sama málaflokki sem og til tiltekinna verkefna undir málaflokki 32.20 Jafnréttismál á málefnasviði 32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála. Gerð er grein fyrir fjárveitingum til þeirra stofnana sem heyra stjórnarfarslega undir ráðuneytið samkvæmt fyrrnefndum forsetaúrskurði í svörum forsætisráðherra sem lögð eru fram samhliða þessu, sbr. 743., 744., 745., 746. og 747. mál á yfirstandandi löggjafarþingi.