Ferill 843. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1745  —  843. mál.
2. umræða.



Nefndarálit

um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins,
nr. 61/1997 (mótframlagslán).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson og Sigríði Valgeirsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Ágúst Karl Guðmundsson, Ásgeir Skorra Thoroddsen og Ásu Kristínu Óskarsdóttur frá KPMG ehf.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, KPMG ehf., Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands auk minnisblaðs frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um mótframlagslán til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Frumvarpið er þáttur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Umfjöllun nefndarinnar.
Ábendingar umsagnaraðila.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust var m.a. bent á að tilefni gæti verið til að bregðast við óvissu varðandi skattalega meðferð breytanlegra skuldabréfa og hugsanlegum áhrifum mótframlagslána á möguleika fyrirtækja til að hljóta annars konar stuðning, svo sem skattfrádrátt á grundvelli laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Nefndin óskaði af þessu tilefni eftir afstöðu ráðuneytisins og barst minnisblað þar sem þessum sjónarmiðum var svarað. Telur nefndin ekki þörf á að bregðast frekar við ábendingunum.

Samningur um framkvæmd.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að  lánin verði veitt af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins á grundvelli sérstaks samnings sem ráðherra gerir við sjóðinn þar sem m.a. verði kveðið á um skilyrði fyrir veitingu lánanna, um kjör þeirra og málsmeðferð ákvarðana um veitingu lánanna. Nefndin undirstrikar nauðsyn þess að í slíkum samningi verði skýrt kveðið á um úthlutunarreglur, lágmarks- og hámarksfjárhæðir mótframlagslána og vaxtakjör auk annarra atriða og að samningurinn verði unninn í samráði við sérfræðinga sjóðsins og aðila með víðtæka þekkingu á fjármögnun sprotafyrirtækja. Ákvæði samningsins taki mið af aðstæðum sprotafyrirtækja og verði með þeim hætti að úrræðið nýtist sem best til að aðstoða efnileg og lífvænleg sprotafyrirtæki í erfiðu ástandi.

Tímabundið úrræði.
    Áætlað er að fjármagna þá aðgerð sem lögð er til með frumvarpinu með 500 millj. kr. af stofnframlagi Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs á árinu 2020. Þessi fjárhæð verði veitt til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til að fjármagna mótframlagslán í samvinnu við fjárfesta. Í samningi sjóðsins við ráðherra verði kveðið á um kostnað sjóðsins af verkefninu sem greiðist af framlaginu.
    Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvert umfang eftirspurnar á mótframlagslánum verður en mikilvægt er að hrinda aðgerðinni í framkvæmd sem fyrst. Fram hefur komið að mat ráðuneytisins sé að umfangið kunni að liggja á bilinu 500–700 millj. kr. Í umsögn Viðskiptaráðs koma fram efasemdir um að 500 millj. kr. dugi til en samkvæmt mati þess kunna 30–40 fyrirtæki að nýta sér úrræðið. Nefndin telur óheppilegt ef grípa þarf til pro rata afgreiðslu umsókna en það kann að hafa neikvæð áhrif á forsendur fjárfesta fyrir því að nýta úrræðið. Nefndin bendir á að nauðsynlegt sé að meta úrræðið að nýju komi í ljós að eftirspurn frá lífvænlegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum verði meiri en gert er ráð fyrir og gefi tilefni til að veita aukið fé til verkefnisins.

Aðgerðir stjórnvalda.
    Með frumvarpinu er kveðið á um sérstakan stuðning við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki í formi mótframlagslána. Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru. Meðal annarra aðgerða sem með beinum eða óbeinum hætti hafa og geta nýst þeim fyrirtækjum sem þetta frumvarp lýtur að má nefna stuðningslán og viðbótarlán, hlutabótaleiðina og fjárstuðning vegna launa á uppsagnarfresti. Auk þessa hefur Tækniþróunarsjóður verið efldur og fjárhæða- og hlutfallsmörk endurgreiðslna vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun hækkuð verulega, fjárfestingarheimild lífeyrissjóða í vísisjóðum verið aukin og Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður verið settur á fót.
    Nefndin áréttar það sem kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins um að reglur um styrkhæfi og hlutfall styrkja taki m.a. mið af reglugerð (ESB) nr. 651/2014. Samkvæmt henni gildir skilyrði um neikvætt eigið fé aðeins um fyrirtæki sem teljast vera stór, þ.e. fyrirtæki sem hafa fleiri en 250 starfsmenn og ársveltu yfir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning yfir 43 milljónum evra. Sprotafyrirtæki hér á landi eru jafnan lítil eða meðalstór fyrirtæki. Skilyrði um að eigið fé sé ekki neikvætt á því ekki við um þau fyrirtæki sem stendur til boða að sækja um mótframlagslán samkvæmt frumvarpinu.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verð samþykkt.
    Jón Steindór Valdimarsson og Oddný G. Harðardóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Þau telja að fjármögnun úrræðisins ætti að taka mið af efri mörkum mats ráðuneytisins á hugsanlegu umfangi verkefnisins. Mikilvægt sé að úrræðið verði þannig úr garði gert í samningum við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að það nýtist sem flestum lífvænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem lent hafa í fjármögnunarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Jón Steindór Valdimarsson,
með fyrirvara.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson. Willum Þór Þórsson.