Ferill 938. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1751  —  938. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um minnisvarða um Hans Jónatan.


Flm.: Vilhjálmur Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta setja upp minnismerki til minningar um Hans Jónatan, þræl, sem kaus frelsið, sem næst verslunarhúsunum á Djúpavogi þar sem hann starfaði. Minnismerkið verði fyrst og fremst ákall um það frelsi sem er göfugast allra mannréttinda og má aldrei gleymast þótt móti blási í erfiðum heimi.

Greinargerð.

    Víða um lönd eru rifjaðar upp afleiðingar þrælasölu og þrælahalds á fyrri öldum. Mótmæli í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á blökkumanninum George Floyd í Minneapolis 25. maí sl. hafa hrundið af stað alþjóðlegri hreyfingu, sem krefst þess að hlutur þeirra er hnepptir voru í þrældóm verði réttur, örlaga þeirra verði minnst og kjör afkomenda þeirra verði bætt. Í Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar er rætt um á hvern veg á að standa að þessu.
    Leysinginn Hans Jónatan, sem fæddist á St. Croix í Dönsku Jómfrúaeyjum árið 1784, tengir Ísland sterkari böndum við sögu þrældómsins á síðustu öldum en nokkur annar.
    Hann var fæddur í þrældóm því móðir hans var ambátt ættuð frá Afríku, faðirinn var hvítur, líklega danskur. Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigenda sinna, Schimmelmannhjóna, sem þá voru flutt til Danmerkur frá St. Croix. Hann gat sér gott orð í orustunni um Kaupmannahöfn árið 1801. Það dugði honum þó ekki til að losna undan ánauð. Eigandi hans höfðaði sögulegt mál til að staðfesta eign sína á Hans Jónatan og vann það mál.
    Hans Jónatan sætti sig ekki við niðurstöðuna, hann kaus frelsi og strauk til Íslands árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum og gerðist bóndi.
    Íslendingar tóku Hans Jónatan vel og hann reyndist góður þegn. Ekkert bendir til að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit eða uppruna sinn í þrældómi. Afkomendur hans og eiginkonu hans, Katrínar Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, eru nú um eitt þúsund. Hér er lagt til að reistur verði minnisvarði á Djúpavogi um Hans Jónatan, fyrsta blökkumanninn sem settist að á Íslandi.