Ferill 720. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1756  —  720. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, plastvörur).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ingvarsson og Guðmund Bjarka Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, Eygerði Margrétardóttur og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Brynhildi Pétursdóttur frá Neytendasamtökunum, Gyðu Mjöll Ingólfsdóttur og Sigurjón Norberg Kjærnested frá Samorku, Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Helga Lárusson frá Endurvinnslunni hf., Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Áslaugu Huldu Jónsdóttur og Sigurð Halldórsson frá Pure North Recycling ehf. og Bjarna Hrafnsson, Loft Bjarna Gíslason og Rafn Steinþórsson frá Bergplasti ehf.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Endurvinnslunni hf., Landvernd, Neytendasamtökunum, Pure North Recycling ehf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum atvinnulífsins. Þá barst nefndinni skýrsla frá Pure North Recycling ehf. um samanburðar lífsferilsgreiningu plastendurvinnslu.

Almennt.
Meginmarkmið og efni frumvarps.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, til samræmis við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks, vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara. Meginefni frumvarpsins snýr að banni við að setja á markað tilteknar einnota plastvörur og að afhenda einnota bolla og matarílát án endurgjalds, kröfum um gerð og samsetningu tiltekinna einnota drykkjaríláta, að komið verði á opinberu eftirliti með eftirfylgni lagaákvæða um plastvörur og að sett verði lagastoð fyrir reglugerðarákvæði um plastvörur.
    Fylgt er ákvæðum tilskipunar (ESB) 2019/904 er varðar þær einnota plastvörur sem rannsóknir og kannanir sýna að valda mestri plastmengun á ströndum Evrópu. Plast á sjávarströndum og í hafi brotnar niður, ýmist vegna oxunar sumra plasttegunda eða við niðurbrot allra plasttegunda vegna áhrifa ytri afla, t.d. brims. Plasthlutir, stórir og smáir, eru alvarleg ógn við vistkerfi hafanna og er plast í hafi skilgreint sem alþjóðlegt vandamál.
    Er því haldið til haga að eitt mikilvægra verkefna samfélagsins felst í að takmarka notkun plasts og samhliða því að auka og bæta endurnýtingu þess með sem umhverfisvænstri endurvinnslu. Einnota plastvörur eru meðal þeirra vara sem eiga sér umhverfisvænni staðgönguvörur, henta illa til endurvinnslu og mynda stærsta hluta plastúrgangs sem fyrnist í hafi og stöðuvötnum, eða á víðavangi og byggðu landi.

Innleiðing Evrópugerða.
    Athugast skal að tilskipun (ESB) 2019/904 hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn heldur er unnið að undirbúningi ákvörðunar þar að lútandi á vettvangi EFTA-ríkja. Með vísan til þess gerir meiri hlutinn ákveðnar athugasemdir er snúa að formhlið málsins. Meiri hlutinn áréttar að reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála eiga lagastoð í lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og er þeim m.a. ætlað að tryggja að frágangur lagafrumvarpa sem innleiða reglur sem byggjast á ESB-gerðum sé með tilteknum og samræmdum hætti.
    Með vísan til framangreinds áréttar meiri hlutinn að ekki er um eiginlega innleiðingu á nefndri tilskipun að ræða. ESB-gerðir lúta formlegu ferli sem styðst við áðurnefndar reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Þannig hefur Alþingi formlega aðkomu að þeim gerðum sem til stendur að taka upp í EES-samninginn og síðar við innleiðingu þeirra. Það er því mikilvægt að gerður sé greinarmunur á þeim tilvikum þar sem verið er að lögfesta efnisreglur Evróputilskipunar, líkt og við á í þessu tilfelli, og því að gerð sé innleidd. Í báðum tilfellum myndast lagastoð fyrir viðkomandi gerð en einungis í því síðara er um eiginlega innleiðingu að ræða í skilningi EES-réttar.
    Þar sem ekki er ráðgert að innleiða tilskipun (ESB) 2019/904 leggur meiri hlutinn til að ákvæði 10. gr. frumvarpsins um innleiðingu falli brott.

Umfjöllun nefndar.
Gildistaka og lögfesting umfram skyldu.
    Með vísan til þess að tilskipun (ESB) 2019/904 hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn komu fram sjónarmið fyrir nefndinni um að óþarft væri að lögfesta efnisreglur tilskipunarinnar á þessum tímapunkti þar sem tilskipunin væri enn til skoðunar á vettvangi EES og EFTA-ríkja og ekki hafi skapast þjóðréttarleg skylda til innleiðingar. Tryggja þyrfti að gildistaka ákvæða frumvarpsins yrði í samræmi við gildistöku ákvæða tilskipunarinnar eins og þau verða innleidd af öðrum EFTA-ríkjum. Þá standi til á vettvangi ESB að birta framkvæmdargerð um ýmis útfærsluatriði er varða einnota plastvörur fyrir 3. júlí nk. sem eðlilegt væri að bíða eftir að lægi fyrir, t.d. um hvað skuli teljast einnota plastvara.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þykir mikilvægt að hefja lögfestingu efnisreglna tilskipunarinnar til að auka fyrirsjáanleika og gefa atvinnulífi og almenningi svigrúm til að aðlagast nýjum reglum áður en þær taka gildi. Flest ákvæði tilskipunarinnar koma til framkvæmda 3. júlí 2021 en frekari gildistaka fer fram á árunum 2023 og 2024. Gildistökuákvæði 11. gr. frumvarpsins samræmist gildistökuákvæðum tilskipunarinnar. Hvorki íslensk né norsk stjórnvöld óskuðu eftir aðlögunum þegar afstöðu þjóðanna til upptöku tilskipunarinnar í EES-samningin var skilað til EFTA-skrifstofunnar. Gera má ráð fyrir að tilskipunin verið tekin upp í EES-samninginn á þessu ári og skapast þá þjóðréttarleg skylda til að uppfylla ákvæði hennar.
    Frumvarpið gengur ekki lengra en tilskipunin gerir og því munu íslensk fyrirtæki þurfa að uppfylla sömu kröfur og fyrirtæki annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Ef til þess kemur að tilskipuninni verði breytt á síðari stigum, t.d. að því er gildistöku ákvæða hennar varðar, munu íslensk stjórnvöld venju samkvæmt hefja vinnu við að aðlaga löggjöf þeim breytingum.

Efnisreglur lögfestar að hluta.
    Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við að með frumvarpinu væri aðeins hluti efnisreglna tilskipunar (ESB) 2019/904 lögfestur en ekki ákvæði hennar um framlengda ábyrgð framleiðenda á plastvörum. Brýnt væri að ákvæði laga um notkun og meðferð plasts næðu til ábyrgðar framleiðenda á plastvörum.
    Meiri hlutinn tekur undir það en bendir jafnframt á að umrædd ákvæði eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en á árunum 2023 og 2024. Skynsamlegt þykir að gefa stjórnvöldum og atvinnulífi aukið svigrúm til undirbúnings fyrir lögfestingu þeirra. Það fer jafnframt vel á því að efnisákvæði tilskipunarinnar um framlengda framleiðendaábyrgð verði lögfest á sama tíma og ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/851 um úrgang til úrgangskerfa sem byggjast á framlengdri framleiðendaábyrgð. Í þeirri tilskipun eru, auk skilyrða um slík úrgangskerfi, ákvæði um þrepaskipt gjöld sem gera það kleift að stilla upphæð gjalda í kerfum sem byggjast á framlengdri framleiðendaábyrgð upp með þeim hætti að notkun umhverfisvænni vara aukist. Vörur sem eru endurnýtanlegar eða endurvinnanlegar bera þá lægri gjöld en vörur sem henta síður til endurvinnslu. Í slíku kerfi eru hagrænir hvatar notaðir til að stuðla að betri umhverfishegðun og framleiðendur og innflytjendur hafa beinan hag af því að setja á markað umhverfisvænni vörur. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu verður frumvarp til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2018/851 lagt fram á haustþingi 2020.

Íþyngjandi kröfur í reglugerð.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með frumvarpinu væru lagðar íþyngjandi kröfur á framleiðendur drykkjarvara um lágmarkshluta innihalds endurunnins plasts í einnota drykkjarvörum úr plasti án þess að sambærilegar kröfur væru lagðar á framleiðendur annarra vara sem nota plastefni í umbúðir. Sömuleiðis væri með frumvarpinu mælt fyrir um kröfur um merkingu tiltekinna einnota plastvara, en ekki allra vara sem innihalda plast.
    Með frumvarpinu er ákvæðum tilskipunar (ESB) 2019/904 fylgt að öllu leyti hvað varðar þær tilteknu plastvörur sem það tekur til enda fyrirsjáanlegt að ákvæði tilskipunarinnar verði innleidd í íslenskan rétt án breytinga. Ísland er aðili að innri markaði EES og því mikilvægt að reglur sem gilda hér á landi um vörur á markaði séu sambærilegar gildandi reglum í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin grundvallast á áhrifamati sem byggist á rannsóknum á plasti á ströndum Evrópu og tekur efni hennar mið af því hvaða plastvörur finnast helst á stöndum. Plast í hafi er alþjóðlegt vandamál og ekkert sem bendir til annars er að plast á íslenskum ströndum eigi sér sama uppruna og plast á ströndum annars staðar í Evrópu.
    Með frumvarpinu eru stigin skref í þá átt að setja lagaákvæði sem auka eiga eftirspurn eftir endurunnu plasti til framleiðslu á vörum. Um er að ræða 2. mgr. c-liðar 5. gr. frumvarpsins til lögfestingar á efnisreglu 5. mgr. 6. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904 sem kveður á um að tilteknar einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur sem settar eru á markað skuli gerðar að tilteknum lágmarkshluta úr endurunnu plasti. Ákvæðið mun taka til flaskna sem rúma 3 lítra eða minna, sbr. ákvæði tilskipunar (ESB) 2019/904. Samkvæmt tilskipuninni skulu flöskur úr pólýetýlentereþalati (PET) innihalda að lágmarki 25% endurunnið plast frá árinu 2025 og frá 2030 skulu allar flöskur sem falla undir ákvæðið innihalda að lágmarki 30% endurunnið plast. Frumvarpið styður þannig við aukin tækifæri til endurvinnslu plasts.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að auka endurvinnslu plasts hér á landi og beinir því til umhverfis- og auðlindaráðuneytis að skoða aðgerðir í þá veru við innleiðingu á næstu skrefum í hringrásarhagkerfinu. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að þess verði gætt að sambærilegar kröfur gildi um endurvinnsluhæfni umbúða úr blöndu af plasti og pappír eða öðrum efnum og gilda um allar einnota plastumbúðir fyrir drykkjarvörur og annars konar vörur.

Reglugerðarheimild ráðherra.
    Fyrir nefndinni kom fram að með frumvarpinu sé lagt til að ráðherra fái víðtæka og opna heimild til að setja reglur um merkingu einnota plastvara, kröfur um lágmarkshluta endurunnins plasts í einnota drykkjarvörum og kröfur til gerðar og samsetningar einnota drykkjaríláta og setja fram töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast. Viðmið vegna reglugerðarsetningar ráðherra þurfi að liggja fyrir með skýrum hætti. Með reglugerðarheimild frumvarpsins sé ráðherra í raun framselt löggjafarvald til setningar stjórnvaldsfyrirmæla sem geti haft verulega íþyngjandi áhrif. Gæta verði þess að reglugerðarheimildir ráðherra verði ekki rýmri en nauðsyn krefur með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar (ESB) 2019/904.
    Meiri hlutinn tekur undir slík almenn sjónarmið um reglugerðarheimildir ráðherra en minnir á, hvað efni þessa frumvarps varðar, að reglugerðarheimild ráðherra snýr fyrst og fremst að því að setja tæknilega stoð fyrir útfærslu ákvæða frumvarpsins. Samkvæmt frumvarpinu snúa reglugerðarheimildir fyrst og fremst að því að setja stoð fyrir tæknilegri útfærslu ákvæða laganna. Fyrir liggur að frumvarpið tekur einungis til plastvara og í því felst efnisafmörkun viðeigandi reglugerða í grundvallaratriðum. Nefndin hefur fengið það staðfest frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að ekki standi annað til en að fylgja að öllu leyti ákvæðum tilskipunar (ESB) 2019/904 hvað varðar þær plastvörur sem takmarkanir munu taka til. Enn fremur skal áréttað að gert er ráð fyrir því að tæknilegar reglur ESB, sem tilskipunin kveður á um að setja, verði innleiddar í íslenskan rétt án breytinga. Meiri hlutinn leggur áherslu á að gætt verði meðalhófs við setningu reglugerðar og að tryggt verði að þær reglur taki mið af gildandi reglum í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Sérlög um plastvörur.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ekki hafi farið fram greining á því hvaða áhrif það hefði á úrgangsmál í heild sinni að lögfesta efnisreglur tilskipunarinnar í hlutum. Regluverk úrgangsmála hér á landi, sérstaklega lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, væri orðið tyrfið, illskiljanlegt og á flestan hátt óaðgengilegt fyrir almenning og þær stofnanir sem vinna að framkvæmd laganna. Endurskoða þyrfti fyrrnefnd lög í því augnamiði að móta heildstæða löggjöf sem taki til notkunar og endurvinnslu plasts í ljósi lífsferilsgreininga (LCA), allt frá framleiðslu til notkunar, flokkunar og endurvinnslu. Vanda þurfi til breytinga á regluverki um úrgangsmál og skapa heildarsýn í málaflokknum. Nú væri tækifæri til að setja sérstök lög um plastvörur og vinna málið frekar þar til tilskipunin hefir verið tekin upp í EES-samninginn.
    Meiri hlutinn vísar til greinargerðar með frumvarpinu varðandi ástæður þess að lagt er til að efnisákvæði tilskipunar (ESB) 2019/904 verði lögfest með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nefndin hefur fengið það staðfest hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að fyrir dyrum standi heildarendurskoðun á nefndum lögum. Mun þá gefast tækifæri til að leggja mat á nauðsyn þess að skipta lögunum upp og t.d. semja sérlög um plast og plastvörur. Meiri hlutinn fagnar þeirri vinnu sem fram fer í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og lýtur að því að leggja fram heildstæða löggjöf um meðhöndlun úrgangs á landsvísu. Er sérstaklega hvatt til þess að ráðist verði í fyrirhugaða endurskoðun sem allra fyrst og þannig búið um að förgun, flokkun og endurvinnsla hvers kyns plastvara verði til fyrirmyndar og í samræmi við bestu staðla og ýtrustu umhverfiskröfur.

Stefnumótun í endurvinnslumálum.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var fundið að því að frumvarpið tæki ekki til endurvinnslu sem væri mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu. Koma þyrfti upp flokkunarkerfi fyrir umbúðir samhliða bættri merkingu plastvara þar sem auðveldara muni þá reynast að flokka þær og endurvinna. Kerfið þurfi að innihalda hvata til endurvinnslu og mikilvægt í því sambandi að við setningu laga og reglugerða sé horft á heildarmyndina. Í því samhengi var fyrir nefndinni rætt um gjaldaumhverfi úrvinnslu úrgangs, útflutning á óunnum plastúrgangi, mikilvæga og hagfellda starfsemi innlendra endurvinnslufyrirtækja, nauðsyn bættrar flokkunar og úrgangs og nýs flutnings-, urðunar- og endurvinnslukerfis á landsvísu. Fóru þau sjónarmið að mörgu leyti saman við framangreind sjónarmið um nýja heildarlöggjöf.
    Meiri hlutinn tekur undir að þarna fari brýn og verðug verkefni en bendir engu að síður á að tilskipun (ESB) 2019/904 er afmörkuð við leiðir til að takmarka notkun einnota plastvara og tekur ekki til alls úrgangskerfisins. Meiri hlutinn lítur svo á að margvíslegar plastvörur og íhlutir úr plastefnum muni áfram fylgja samfélögum um allan heim. Þeim mun mikilvægara er að meðhöndla efnið sem hráefni eftir að notkun plastvara lýkur. Er því tekið undir þau sjónarmið að samhliða takmörkun á notkun einnota plastvara sé afar mikilvægt að þær, eins og aðrar plastvörur, séu endurunnar sem allra mest með eins hagkvæmum og umhverfisvænum hætti og hægt er.
    Til að auka endurvinnslu plasts er hvort tveggja nauðsynlegt að auka flokkun plasts til endurvinnslu og að auka hlut endurvinnanlegs plasts í vörum úr plasti. Á þessu tekur hugmyndin um hringrásarhagkerfi. Tilskipun (ESB) 2019/904 er þannig hluti af umfangsmeira regluverki ESB sem ætlað er að stuðla að myndun hringrásarhagkerfis og má í því sambandi nefna að tilskipun (ESB) 2018/851, um úrgang til kerfa sem byggjast á framlengdri framleiðendaábyrgð, sem að framan er getið, kveður m.a. á um sérstaka söfnun á plasti til endurvinnslu. Slík ráðstöfun er til þess fallin að stuðla að því að plast skili sér í meira mæli til endurvinnslu. Íslandi ber að innleiða þessa tilskipun og ákvæði hennar um sérstaka söfnun. Frumvarp þess efnis, til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs, var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á sama tíma og frumvarpið sem hér er til umfjöllunar og samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er stefnt að því að leggja það fram á haustþingi 2020. Má því líta svo á að frumvarpið nú sé hluti af heildarlöggjöf í málaflokknum.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að bann við einnota plastvörum og fjárhagslegir hvatar til að takmarka sölu og útbreiðslu slíkra vara eru aðeins einn af mörgum áföngum í bættri notkun og meðferð plasts. Í því samhengi, og með vísan til fyrirhugaðrar heildarendurskoðunar laga á málefnasviðinu, hvetur meiri hlutinn til aukins samráðs við hagaðila og sérfræðinga í plastvöruframleiðslu, endurvinnslu og vöruþróun þegar kemur að áframhaldandi vinnu við mótun úrgangsstefnu og endurvinnslu í anda hringrásarhagkerfisins.

Staðgönguvörur.
    Fyrir nefndinni voru til umræðu þær staðgönguvörur sem búast má við að komi á markað eftir því sem einnota plastvörum fækkar. Bent var á að staðgönguvörur væru ekki einvörðungu margnota heldur einnig vörur úr öðru efni en plasti, t.d. pappa og við. Þá væru þær jafnan mun dýrari í innkaupum en plastvörur.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt nýjustu aðgengilegu gögnum var hlutfall endurunninna plastumbúða sem féllu til hér að landi á árunum 2016–2018 að meðaltali 43%. Til samanburðar var endurvinnsluhlutfall pappírs- og pappaumbúða á sama tímabili tæp 87%. Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að stuðla að meiri notkun margnota vara í stað einnota plastvara. Margvíslegar upplýsingar um gagnsemi staðgönguvara, hæfi þeirra til endurvinnslu og mismunandi kolefnis- og vistspor hafa komið fram. Alþjóðlegt þróunar- og vísindastarf er grunnur þess að framleiðsla umræddra staðgönguvara, jafnt sem annarra vara sem geta komið í stað plastvara, verði ásættanleg. Því fleygir fram með aukinni umhverfisvitund og rannsóknum.

Krafa um áfasta plasttappa.
    Gerðar voru athugasemdir við ákvæði c-liðar 5. gr. frumvarpsins um að einungis sé heimilt að setja á markað einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu. Ætla megi að með lögfestingu krafna um áfasta plasttappa aukist plast í umbúðum sem leiði til aukins framleiðslukostnaðar og stærra kolefnisfótspors drykkjarvara. Sú aukning á plastnotkun gangi í berhögg við þann árangur sem þegar hefur náðst við að draga úr plastnotkun á þessu sviði. Þá skapi kröfurnar óhagræði í endurheimt skilakerfa endurvinnslu og við framleiðslu umbúða þar sem framleiðendur þurfi að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar vegna breyttra framleiðsluferla og umbóta á framleiðslulínum.
    Að teknu tilliti til þeirra ábendinga sem nefndinni bárust við umfjöllun málsins og að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur meiri hlutinn til að ákvæðið verði fellt á brott úr frumvarpinu. Þess í stað verði ákvæðið fært í frumvarp um lögfestingu ákvæða fyrrnefndrar tilskipunar (ESB) 2018/851 sem stefnt er á að leggja fram á haustþingi 2020. Með því að seinka lögfestingu þessa ákvæðis gefst tækifæri til frekari undirbúnings og eftirfylgni með þeirri framþróun sem ætla má að verði á næstu mánuðum hvað áfasta tappa og lok varðar.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til fyrrgreindar breytingar um brottfall 10. gr. og 1. mgr. c-liðar 5. gr. frumvarpsins. Því til viðbótar eru lagðar til minni háttar orðalagsbreytingar, þ.m.t. breyting til einföldunar á orðalagi b-liðar 1. mgr. b-liðar 5. gr. frumvarpsins þar sem efni þeirra orða sem lagt er til að felld verði á brott þykir þegar fram komið í ákvæðinu. Matarílát sem notuð eru undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum eru eðli máls samkvæmt matarílát sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á sölustað. Nánari skilgreining á því hvað fellur undir efni lagaákvæðis á frekar heima í greinargerð en lagatexta. Hvorki er umræddri breytingu né öðrum orðalagsbreytingum sem meiri hlutinn leggur til ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verið samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað orðanna „prik sem ætluð eru“ og ,,slík prik“ í f-lið a-liðar komi: stangir sem ætlaðar eru; og: slíkar stangir.
                  b.      Orðin „á staðnum“ og „þ.m.t. matarílát sem notuð eru undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum“ í b-lið 1. mgr. b-liðar falli brott.
                  c.      1. mgr. c-liðar falli brott.
     2.      Við 7. gr.
                  a.      1. tölul. orðist svo: hafa samræmt eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara, sbr. 37. gr. d – 37. gr. g, á landinu öllu og.
                  b.      Í stað orðsins „eftirlitsáætlun“ í 2. tölul. komi: áætlun.
     3.      Á eftir orðinu „er“ í lokamálslið 8. gr. komi: stofnuninni.
     4.      10. gr. falli brott ásamt fyrirsögn.
     5.      2. málsl. 11. gr. falli brott.
     6.      Í stað orðanna „þ.m.t. ráðstafanir“ í a-lið 12. gr. komi: ráðstafana.

    Bergþór Ólason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með fyrirvara samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. júní 2020.

Ari Trausti Guðmundsson,
2. varaform., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Guðjón S. Brjánsson.
Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.